Úr Blíðfinnur og svörtu teningarnir - Ferðin til Targíu:
Þetta var líkt og lítill svartur bolti...og brúnn...og svolítið mjúkur þegar hann tók hann upp. Tveir grannir fætur stóðu út úr og... allt í einu áttaði Blíðfinnur sig á hverju hann hélt. Honum sortnaði fyrir augum. Þetta var smáþrösturinn, vinurinn hans, sem kominn var til að byggja sér hreiður undir þakskegginu. Vængirnir sem höfðu borið hann alla leið frá meginlandinu mikla, yfir Margarð, Himinlægjur og skóginn þveran, voru nú ekkert orðnir nema nakin beinin. Fínlegur goggurinn sem tók rúsínur fram yfir allt annað, var svartur af ösku, rétt eins og brostin augun sem ekkert sáu framar.
(s. 10-11)