Einþáttungur.
Uppfærslur:
Egg-leikhúsið 1989
Sjónvarpið 1990
______________________________________
Úr Afsakið! Hlé. (1989):
LÍSA: Er ekki einfaldast að fara hreinlega alveg á botninn og alla leið niður úr honum, og koma svo bara upp hinu megin?
ÆVAR: Hvernig þá?
LÍSA: það veit ég ekki. Ég meina, ekki kann ég bisniss.
ÆVAR: Er þetta möguleiki?
LÍSA: Nú, Dante gerði þetta og því skyldir þú ekki geta það?
ÆVAR: Hvaða Dante?
LÍSA: Ítalskt skáld.
ÆVAR: Skáld! Skáld! Ertu galin manneskja! Hér stend ég úrræðalaus af leiðindum og þú talar um skáldskap!
LÍSA: Já, hvað annað? það er allt hægt í skáldskap svo fremi það sé gert snyrtilega.
ÆVAR: Lísa, hvað á ég að segja þér það oft? Skáldskapur er rugl! Og farðu nú ekki að bregðast von minni um að ráðning þín hingað á skrifstofuna beri ekki vott um neitt annað en minn brillíans. Mitt eðlislæga talent til að uppgötva eitthvað orgínalt. Ekki vekja grun hjá mér um að þessi vingulsháttur þinn sé bara tillærður en ekki meðfæddur. (Dvöl). Æ, ég nenni ekki að æsa mig þetta. það eyðileggur bara ánægjuna af leiðindunum.
LÍSA: Allt í lagi þá! Gleðileg leiðindi! (Tekur til við að tína blöðin uppúr gólfinu). Ég er bara venjulegur vingull. því miður. Ég er sefhæna. Ég er gargönd. Ég er blaðsegull með raðara. (Tuðar áfram ad lip).
ÆVAR: (Horfir á hana um stund. Dæsir). Ókei. Hvernig fór hann að þessu?
LÍSA: (Með þótta). Hver?
ÆVAR: þessi Dennis?
LÍSA: Ha?
ÆVAR: þarna, þú veist, þessi sem fór alveg á botninn og í gegnum hann?
LÍSA: þú meinar Dante.
ÆVAR: Já, hann. Hvað gerði hann?
LÍSA: það veit ég ekki. ÆVAR: Nú, hefurðu ekki lesið hann?
LÍSA: Dante! Ertu frá þér maður? Lesa Dante? það les ekki nokkur maður Dante nú til dags.
ÆVAR: Af hverju ekki?
LÍSA: Nú, af því bara! Ég meina þetta eru fleiri þúsund blaðsíður og allt í bundnu máli. Ekki einu sinni á íslensku.
ÆVAR: Hvernig veistu þetta þá? Að hann hafi farið svona, eins og þú segir, alveg niður úr. þurftuð þið ekki að lesa svona lagað í bókmenntasögunni?
LÍSA: Nei, elskan mín! það var nóg að kunna teóríur til að slampast í gegnum bókmenntasöguna.
ÆVAR: Nú, er þá til einhver teóría um þetta, eða hvað?
LÍSA: Um Dante?
ÆVAR: Já, og þetta sem hann gerði.
LÍSA: það veit ég ekki. Jú, sjálfsagt.
ÆVAR: Hvað á ég þá að gera?
LÍSA: (Skellir blaðabunkanum sínum á borðið). Mér líst ekkert á hvernig þetta samtal er að þróast. það er ekki líkt þér að standa svona ráðþrota gagnvart einum litlum efnahagsvanda. þarftu einhverjar teóríur? Í alvöru talað, ef þú þarft að gera eitthvað þá gerirðu það bara. Veistu, ég botna heldur ekkert í því hvaða vanda þú ert að tala um. þú ert búinn að fjárfesta eins og andskotinn út um allar jarðir. Átt eignir og bréf upp á miljónir. þú getur snúið þér að því að selja þetta drasl. Ég sé bara ekkert próblem. Sorrí!
ÆVAR: Ég hef ekki áhuga. Hver heldurðu að nenni að leggjast í sölumennsku nú orðið? Ég er búinn að fara í gegnum þann fasa. Og það var bara gaman meðan allt var í uppsveiflu, en það kaupir enginn neitt núna.
LÍSA: Geturðu ekki losað um þessar fjárfestingar þínar?
ÆVAR: það situr allt pikkfast, það helvíti. Engin hreyfing á nokkrum sköpuðum hlut. Engin eftirspurn eftir neinu. Framboð án eftirspurnar! Hefurðu vitað nokkuð hallærislegra? Ömurlegt!