Beint í efni

Biobörn

Biobörn
Höfundur
Yrsa Sigurðardóttir
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Barnabækur


Af bókarkápu:

Fyrirtækið BIOBÖRN stofnar frumkvöðlasetur fyrir afburðabörn. Fjölmörgum gáfnaljósum er boðið á fyrsta námskeiðið en fyrir mistök er trössunum Önnu Lísu og Ragga boðið líka! Biobörn er kostuleg saga þar sem segir frá þeim Önnu Lísu og Ragga, Möggu, sem er afburðagreind stelpa, og Arnari, sem er fulltrúi blindra á námskeiðinu. Forstjóri fyrirtækisins, doktor Guðgeir, vekur fljótlega forvitni krakkanna og gruna þau hann um að standa í einhverju vafasömu. Þau fara að kanna málið betur og leiðir sú rannsókn ýmislegt óvænt í ljós. Yrsa hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin 2003 fyrir bókina. Í áliti dómnefndar segir: „BIOBÖRN er skemmtileg og spennandi saga, full af húmor og frásagnargleði. Höfundur teflir fram fjölmörgum eftirminnilegum persónum í margslunginni sögufléttu um leið og hann dregur fram spaugilegar hliðar á nútímanum.“


Úr Biobörnum:


Það er eitthvað inni í þessum kassa, sagði Magga og rýndi inn um rimlahurð framan á stóra plastkassanum. Hún rétti úr sér. Eitthvað lifandi meira að segja.
 Það er nú annað en ég get sagt um þetta hanskahólf, sagði Raggi svekktur. Hér er ekkert nema einhverjar smurbækur og drasl. Hann hafði vonast til að í hólfinu væru einhver sönnunargögn um að doktor Guðgeir aðhefðist eitthvað gruggugt. Hann skellti hólfinu aftur. Kíktu betur inn í kassann, sagði hann við Möggu og sneri sér við.
 Þetta er eiginlega búr, sagði Magga og reyndi að rýna inn. Hvaða dýr sem þetta var þá var það búið að koma sér vel fyrir innst í búrinu. Ég sé bara hvítan feld. Dýrið er búið að hreiðra um sig svo aftarlega.
 Opnaðu þá bara, sagði Anna Lísa. Reyndu að ná því út svo við getum skoðað.
 Magga leit upp. En ef það sleppur? sagði hún. Það yrði hrikalegt. Kannski er þetta bara eitthvert gæludýr sem doktor Guðgeir hefur miklar mætur á.
 Kræst! sagði Raggi. Hvað eins og hann kæmi með það á einhvern fund uppi í Öskjuhlíð ef þetta væri bara hamsturinn hans? Hann teygði sig aftur í. Ég legg til að við opnum búrið og komumst að þessu. Hann losaði um læsinguna.
 Þau biðu í ofvæni eftir að dýrið kíkti út. Ekkert gerðist fyrr en Magga hallaði búrinu til að sjá hvað væri á seyði. Þá birtist hvít og loðin snoppa í dyrunum. Þetta var kanína. Hún virtist drifhvít að öllu leyti nema hvað nefið á henni var bleikt og annað eyrað svart. Kanínan hreyfði nefið fram og til baka án þess að nokkur annar hluti hennar bærðist. Hún var að þefa. Um hálsinn bar kanínan heldur óvenjulega ól, hún var mjög sterkleg, úr málmi og á henni blikkaði lítið rautt ljós.
 Æi, krúttið, sagði Anna Lísa. Doktor Guðgeir getur ekki verið alvondur ef hann á svona sæta kanínu. Kanínan steig varlega út úr búrinu. Eruð þið nokkuð með gulrót til að gefa henni? spurði Anna Lísa. Hún er ábyggilega sársvöng, greyið.
 Raggi leit hneykslaður á Önnu Lísu. Alger óheppni, ég gleymdi gulrótunum sem ég er vanur að ganga með í vasanum. Kannski vill hún hvítkálshausinn sem ég tók með í staðinn. Anna Lísa ullaði á Ragga.
 Á ég ekki að opna aðeins gluggann, spurði Magga. Það var komin móða á rúðurnar. Kanínan vill ábyggilega fá ferskt loft.
 Gerðu það varlega, sagði Raggi. Ekki viljum við að hún sleppi. Magga ýtti á takka í hurðinni og rúðan í glugganum við hlið hennar þokaðist örlítið niður. Kanínan starði á aðfarirnar, hún horfði til skiptis á takkann og rúðuna.
 Sérðu, Anna Lísa benti á kanínuna. Það er eins og hún sé að fylgjast með.
 Hvaða vitleysa, sagði Raggi pirraður. Kanínur skilja ekkert svona. Það kom þeim því algerlega í opna skjöldu þegar kanínan stökk út úr búrinu, beint á takkann, hélt honum niðri og hoppaði út um opinn gluggann. Hvað var þetta? spurði Raggi gáttaður. Eru kanínur svona klárar?
 Magga var að fá aðsvif. Hún stakk af, hún stakk af, endurtók hún í sífellu. Kanínan stakk af. Hún stakk höfðinu út um opinn gluggann og kallaði: Komdu kerling, komdu kerling.
 Raggi og Anna Lísa þustu út úr bílnum. Hvert fór hún? kallaði Raggi til Möggu.
 Eitthvað út í buskann, var raunamætt svarið.

(s. 111-112)

Fleira eftir sama höfund

Brakið

Lesa meira

Ég man þig

Lesa meira

Ultimes rituels

Lesa meira

Brakið

Lesa meira

Ég man þig

Lesa meira

Þar lágu Danir í því

Lesa meira

Kolmas Märk

Lesa meira

Cinza e Poeira

Lesa meira