Beint í efni

Þriðja táknið

Þriðja táknið
Höfundur
Yrsa Sigurðardóttir
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina:

Þýskur sagnfræðistúdent við Háskóla Íslands finnst myrtur í einni af byggingum skólans. Þegar lögmaðurinn Þóra Guðmundsdóttir fer ofan í málið fyrir hönd fjölskyldu hans kemur ýmislegt óvænt í ljós. Stúdentinn hafði verið að bera saman galdrafárið á Íslandi á 17. öld og hliðstæðu þess á meginlandi Evrópu. Þóra kemst brátt að því að hann hafði lifað skrautlegu lífi og áður en hún veit af hefur hún sogast inn í veröld sem hún vissi ekki að væri til.

Úr Þriðja tákninu:

Ekki fór á milli mála að öskrið barst frá skrifstofum sagnfræðiskorar. Tryggvi tók sprettinn og konurnar fylgdu fast á hæla honum. Hann slengdi upp eldvarnardyrunum inn á skrifstofuganginn og snarstansaði - við það rákust konurnar hver á fætur annarri aftan á hann. Hann starði fram fyrir sig.
Það var hvorki bókaskápurinn á gólfinu, né skorarformaðurinn á fjórum fótum ofan á bókahrúgunni á ganginum sem hélt Tryggva líkt og í leiðslu. Við honum blasti lík sem lá þar fyrir innan og skagaði hálft út úr lítilli prentarakompu. Tryggvi fann hvernig maginn fór á hvolf. Hvað í ósköpunum voru þessir leppar fyrir augunum? Var búið að teikna eitthvað á bringuna? Og tungan - hvað var að henni? Konurnar litu yfir öxlina á Tryggva og hann fann hvernig þær toguðu í skyrtuna hans. Hann reyndi að losa sig en án árangurs. Skorarformaðurinn teygði fram hendurnar eftir hjálp. Maðurinn virtist algjörlega viti sínu fjær af hræðslu og hélt annarri hendinni í hjartastað öskugrár í framan. Því næst valt hann til hliðar. Tryggvi stóðst freistinguna að grípa um konurnar og hlaupa út. Hann steig eitt skref áfram og konurnar reyndu af enn meiri ákafa að koma honum í burtu en hann hristi þær af sér. Hann færði sig nær Gunnari sem virtist vera að reyna að segja Tryggva eitthvað.
Hann fékk lítinn botn í samhengislaust umlið sem rann upp úr manninum. Þó skildist honum að líkið - þetta hlaut að vera lík, enginn lifandi maður leit svona út - hefði hrunið ofan á Gunnar þegar hann opnaði dyrnar að prentarakompunni. Augu Tryggva leituðu ósjálfrátt niður á þessar hræðilegu líkamsleifar.
Drottinn minn dýri. Svartir lepparnir yfir augunum voru alls engir leppar.

s. 10 - 11

Fleira eftir sama höfund

Brakið

Lesa meira

Ég man þig

Lesa meira

Ultimes rituels

Lesa meira

Brakið

Lesa meira

Ég man þig

Lesa meira

Þar lágu Danir í því

Lesa meira

Kolmas Märk

Lesa meira

Cinza e Poeira

Lesa meira