Beint í efni

Dísusaga: konan með gulu töskuna

Dísusaga: konan með gulu töskuna
Höfundur
Vigdís Grímsdóttir
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Skáldsögur


Um bókina:



Þegar loksins kemur að því að Dísa Gríms frá Kleppsveginum fær að skrifa sína fyrstu bók segir hún sögu sína umbúðalaust. Hún hefur heldur ekkert að fela. Sagan er mögnuð og segir frá stúlku sem tíu ára gömul verður fyrir ofbeldi og lokast inni í dýflissu þöggunar og feluleikja. Í fimmtíu ár sér hún enga útgönguleið, en dag einn fær hún frelsi hjá kúgara sínum og fyrrverandi bjargvætti til að skrifa, þó aðeins í tvo mánuði. Tíminn er naumur og Dísa ákveður að skrifa bréf til mannsins sem hún hefur alltaf elskað. En tekst henni að segja sannleikann?



Í Norðurfirði á Ströndum nýtur Dísa ómældrar gleði yfir öllu því sem náttúran og fólkið þar gefur henni til að takast á við ólgandi tilfinningar. Umlukt fjöllunum og sjónum og örygginu á Kaffihúsinu skrifar hún söguna og minningarnar streyma fram.



Úr Dísusögu:



Hefur þú beitt einhvern ofbeldi, kisi?



Auðvitað veit ég vel að þú ert ekki hlynntur ofbeldi? Ég var heldur ekki að segja að þú værir það. Ég var bara að biðja þig um að velta því fyrir þér hvort þú hefðir beitt einhvern svipuðu ofbeldi og Gríms hefur beitt mig? Þú svarar því bara með sjálfum þér, það nægir mér alveg. En veltu því fyrir þér.



– Þú ýkir alveg rosalega núna, mér verður eiginlega óglatt, Dísa.



– Ég ýki ekki neitt, þú hefur níðst á mér undir yfirskini verndar. Ég veit vel að þú komast á sínum tíma til að bjarga mér úr neyð. Ég er ekki sá asni að ég viðurkenni það ekki. En svo þekktirðu ekki þinn vitjunartíma, Gríms, og þú settist að mínu húsi og varnaðir mér útgöngu einsog djöfulsins leigjandinn í sögunni hennar Svövu Jakobsdóttur. Þú varst nákvæmlega einsog hann; jafnmikið og þú þóttist nú fyrirlíta þá persónu. En þú varst hún. Ég bauð þér aldrei að búa með mér og ég bað þig aldrei um það. En þú varst gráðug og þú vildir drottna. Þú vildir eiga heiminn minn, fólkið mitt, bernskuna mína, vini mína, manninn minn, börnin mín, elskhuga mína, starfið mitt. Þú vildir eiga allt mitt og þú vildir eiga það ein og þú tókst það, Gríms, og þú skildir mig eftir einsog annars flokks bananana sem ég fann í Laugarnesfjörunni þegar ég var stelpa. Þú gerðir mig að annars flokks vöru. Þú vildir mig líka dauða og þú veist það. Þú hugsaðir ekki svo ósjaldan um hvernig þú ættir að drepa mig án þess að særa þig, án þess að blóðga þig. En málið er að það tókst ekki hjá þér og það mun aldrei takast hjá þér. Það er ekki hægt. Ég fer aldrei frá þér. Ég fer ekki fyrr en þú ferð héðan. Ég drepst ekki fyrr en þú drepst. Skilurðu það? Við verðum að gera glænýtt samkomulag okkar á milli til að setja heiminn saman upp á nýtt. En farðu núna, Gríms, farðu og hugsaðu um þetta. Ef þú vilt ekki hafa verra af. Eða viltu kannski að e´g rífi mig úr fötunum og hlaupi allsber út á Torgið hérna og snúi mér í milljón hringi þangað til ég breytist í smjör? Viltu það? Viltu að fólkið hérna í firðinum haldi að þú sért stjörnubrjáluð, Gríms, og láti flytja þig burtu í böndum? Viltu það?



– Vertu róleg, ég fer, Dísa.



Já, það er eitt að tala og annað að vera samkvæmur sjálfum sér. En ég mun aldrei gefast upp. Ég mun alltaf leita réttlætis og ég mun trúa því að það sigri að lokum. Og þar sem ég er ekki langrækin  þá fyrirgef ég hinni eigingjörnu, freku og valdasjúku Gríms af því að annars gæti ég ekki notið þeirrar gleði sem skrifin mín bjóða upp á, þrátt fyrir skilyrðin hennar.



Hananú, og veistu að allt það sem hér fer á eftir í næstu köflum og reyndar allt það sem ég hef skrifað hingað til, hvert einasta orð, hefur legið mér svo á hjarta að ég hef stundum lent í andnauð og verið að því kominn að verða það sem hún mamma mín kallar heiðarlega geðveik; en síðan ég byrjaði að skrifa geri ég eiginlega ráð fyrir að verða það ekki.



(60-1)


Fleira eftir sama höfund

Ljóð í Moord liederen

Lesa meira

Grandavegur 7

Lesa meira

Im Netz gefangen

Lesa meira

Kaldaljós

Lesa meira

Fliegt ein Vogel

Lesa meira

Wach auf, Dornröschen

Lesa meira

Trúir þú á töfra?

Lesa meira

Tystnaden

Lesa meira

Eldur og regn

Lesa meira