Um bókina
Draumstol er sextánda bók Gyrðis með frumsömdum ljóðum.
Úr bókinni
Ferðalög
Sálarlestin
er alltaf sein
Stundum fer hún
útaf teinunum
Hún gengur fyrir
gufu frá 19. öld
Gluggar hennar
eru alltaf opnir
einsog á indverskum lestum,
hún er yfirfull af fólki
sem þekkir ekki hvert
annað, og fæstir vita
einusinni hvert þeir
eru að fara
Sálarlestin er
alltaf sein
Þó kemst hún
á áfangastað
að lokum
En er þá reyndar
oftast tóm
Síðdegi á Barðaströnd
Skarfarnir á skerinu blaka
vængjunum í sólinni,
líkt og kínverskar
hefðarfrúr frá Tang-
tímabilinu veifi silki-
blævængjum sínum
meðan þær geispa
yfir leiksýningu
sem hefur dregist
á langinn
Söngur sláttumannsins
Meðan aðrir sofa
þreifa ég á sársaukanum
sem liggur einsog
þaninn strengur
gegnum veröldina,
milli stráa. Hann er
ósýnilegur, og eyði-
leggur ljáinn minn
ef blaðið
snertir hann