Beint í efni

Gyrðir Elíasson

Æviágrip

Gyrðir Elíasson fæddist í Reykjavík þann 4. apríl 1961. Hann er Austfirðingur að ætt og uppruna en ólst upp á Sauðárkróki og gekk þar í grunn- og framhaldsskóla. Hann bjó um nokkurt skeið vestanlands, í Borgarnesi og á Akranesi, en seinna í Reykjavík.

Gyrðir hefur nánast alla sína fullorðinsævi unnið við ritstörf, hann hefur sent frá sér fjölda verka af ýmsu tagi: ljóðabækur, skáldsögur og sagnasöfn. Fyrsta útgefna bók hans er ljóðabókin Svarthvít axlabönd frá árinu 1983. Hann er einnig ötull þýðandi, meðal annars bóka um og eftir ameríska frumbyggja, og hefur þýtt fjórar af skáldsögum bandaríska rithöfundarins Richards Brautigan. Árið 2011 sendi Gyrðir frá sér veglegt safn ljóðaþýðinga, Tunglið braust inn í húsið, en þar er að finna ljóð eftir 36 skáld frá fimmtán löndum.

Gyrðir hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín, til að mynda Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2000 fyrir smásagnasafnið Gula húsið og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2011 fyrir sagnasafnið Milli trjánna.

Mynd af höfundi: Einar Falur Ingólfsson.