Um bókina
Ljóðheimur Gyrðis Elíassonar er í senn víðfeðmur og nærtækur. Þar skarast innri og ytri öfl, draumur og veruleiki, orð og athafnir. Líf mannsins í hverfulum heimi er nú sem fyrr höfuðviðfangsefni skáldsins og yrkisefnin óþrjótandi. Fjörutíu ár eru liðin frá því fyrsta ljóðabók Gyrðis, Svarthvít axlabönd, kom út. Í þessari myndarlegu ljóðatvennu birtast rúmlega 200 ný ljóð.
Úr bókunum
Dulstirni
DYRNAR
Í myrkrinu kom hann að
ljóslausu húsi sem honum
fannst hann kannast við,
en áttaði sig þó ekki á.
Hann bankaði á dyrnar
en enginn opnaði. Þá
tóik hann í húninn. Það
var ólæst. Hann steig inn,
og í myrkrinu rann
upp fyrir honum
að þetta var húsið
sem hann hafði alist upp í
en búið var að rífa fyrir
allmörgum árum. Hann
ætlaði að bakka út úr
forstofunni, en það
var of seint.
HÚSLEYSI
Einhverstaðar meðfram ánni
er lítið hús, þar sem ég gisti
einusinni, maður heyrði ár-
niðinn inn um svefnherbergis-
gluggann, og lykt af reyrgresi
barst með morgungolunni. En
nú sé ég þetta hús hvergi, þó
áin liggi að mestu samhliða
veginum (eða vegurinn sam-
hliða henni). Kannski hefur
áin tekið það í vorleysingum,
hvað veit maður. Ég er næstum
búinn að aka útaf við að skima
eftir því. Það glampar á ána,
hún rennur í bugðum sem
minna á snák, glæran snák
í háu grasi
Meðan glerið sefur
SVEFNVENJUR
Ef enginn mundi sofa
yrði lífið tölvuert lengra,
en spurning hvort veru-
leikinn í því lífi sem við
bættist gæti jafnast á
við draumana sem
vitja okkar í svefni.
Ég fyrir mitt leyti
vil ekki láta á það
reyna. Ég vil hafa
mína drauma í friði,
og allir sem vilja
stytta svefntímann
eða þurrka hann út
eru óvinir mínir.
Jafnvel martraðir
eru svefnsins virði
VINUR GRASBLAÐANNA
Hann sem hefur
hlustað á grasið
vaxa, fer á nóttunni
og gerir allar sláttu-
vélar óvirkar. Hann
hefur aldrei náðst,
ekki einusinni
á mynd -
En stráin hvískra
um hann