Beint í efni

Elsku Drauma mín

Elsku Drauma mín
Höfundur
Vigdís Grímsdóttir
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Ævisögur og endurminningar

Um Elsku Drauma mín

Sigríður Halldórsdóttir, eða Sigga Halldórs, fer á kostum þegar hún lætur hugann reika um víðan völl – allt frá æskuheimilinu á Gljúfrasteini, móðurinni, Auði Laxness, föðurnum, Halldóri Laxness, og systurinni Guðnýju – fram til þeirrar kyrrðarstundar þegar hún vill fá að eldast í friði, án athugasemda. Hún rifjar upp og reynir að muna allt sem henni finnst skipta máli.

Öll lífsins undur Siggu, ósigrar hennar og ævintýri fá hér sinn ríkulega skerf. Hver minningin rekur aðra og hrífur lesandann, hryggir hann, hlægir eða grætir, rétt eins og lífið hlýtur alltaf að gera. Sigga er einstök manneskja – eins og við öll.

Úr Elsku Drauma mín

Við mamma skrifumst stöðugt á öll árin mín í Exeter. Ég segi það satt að mér er ógjörningur að telja bréfin sem okkur fara á milli, hvað þá heldur meir — og margt er skrifið um lítið efni, eins og mamma segir í fleiri en einu bréfanna til mín og ég ítreka margoft í mínum bréfum til hennar. En það sannar sig að það er einmitt þetta smáa sem er alltaf það mikilvægasta þegar upp er staðið.

Hversdagurinn er oftast eftirminnilegri en hátíðarnar.

Hið smálega alltaf stærst þegar grannt er skoðað.

Þetta hugsa ég að minnsta kosti núna þegar ég les þessi bréf okkar tæpum fjörutíu árum seinna.

- Hvernig finnst þér að lesa þessi bréf eftir svona langan tíma, Sigga?

- Æ, mér finnst það hálf óþægilegt, ég er svo lítið fyrir að rifja upp liðinn tíma sem er auðvitað í mótsögn við þessa bók, en rétt skal vera rétt.

*

Árið 1976 ku raunar vera, samkvæmt rannsókn hagfræðinga, eitt hamingjuríkasta ár Breta. Þetta er heitt og gott ár og efnahagur almennings með betra móti, segja þeir. Gallonið af bensíni kostar 77 pens, bjórglasið 32 og brauðhleifurinn 19 pens. Pönkið er samt sem áður að ryðja sér til rúms með allri sinni þjófélagsádeilu og reiði og Sex pistols hrista hressilega upp í þjóðarsálinni með sóðakjafti og óvenjulegri tónlist, en hið sykraða leiðindalag „Save your kisses for me“ vinnur samt sem áður hina indælu Evróvisjón.

Já, samkvæmt hagtölum líður Bretum að meðaltali afskaplega vel sem er kannski ástæða þess að þeir ákveða að sigla togurum sínum út úr íslenskri lögsögu.

En hvað veit ég svo sem um það.

Ég er ekkert að hugsa um hagtölur og hamingju.

Ég er ekkert að hugsa um fiskveiðideilur.

Ég er bara með heimþrá eins og fyrri daginn.

Það er nótt og ég vaki.

Það gerist oft.

Auður litla og pabbi hennar sofa bæði á sínu græna eftir frekar tíðindalausan dag. Hann hefur djöflast á ritvélinni fram á kvöld og hún er búin að háma í sig laugardagsísinn sem hún fékk ekki í gær því að við fórum þá til smábæjarins Cullomton og vorum þar allan daginn. Jón Gunnar að keppa í skák, hann er góður skákmaður og teflir þegar hann á þess kost, en við mæðgur að læra Cullomton utanað á meðan. Göngum þar um í þrjá klukkutíma, förum til að mynda á ansi púkalegan kirkjumarkað í sóknarheimilinu, þaðan beint í aftansönginn í gömlu kirkjunni og síðan höldum við á eina kaffihúsið á staðnum, fáum te og skonsur með sméri og erum einu gestirnir sem heimsækjum staðinn þann daginn.

Um kvöldið sofna þau feðgin södd og sæl og sofa vel og lengi.

Fleira eftir sama höfund

Vakna Törnrosa í Sen dess har jag varit här hos er : 12 isländska noveller

Lesa meira

Grandavegur 7

Lesa meira

Grandavägen 7

Lesa meira

Grandavegur 7

Lesa meira

Från ljus till ljus

Lesa meira

Frá ljósi til ljóss

Lesa meira

Tíu myndir úr lífi þínu: sögur um þykjustuleiki og alvörudrauma

Lesa meira

Hjarta, tungl og bláir fuglar

Lesa meira

Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón

Lesa meira