Um Fásinnu
Insensatez (2004) eftir Horacio Castellanos Moya, í þýðingu Hermanns Stefánssonar.
Maður fær það verkefni að prófarkalesa ellefu hudnruð síðna skýrslu um þjóðarmorð á frumbyggjum í ónefndu ríki í Mið-Ameríku. Við starfann er hann ýmist drukkinn eða heltekinn kynórum, taugaveiklaður og veiklundaður.
Úr Fásinnu
Mér rann meira í skap en lengi hafði gerst þegar gjaldkerinn á aðalskrifstofu erkibiskupsseturs tjáði mér síðdegis að það væri engin fégreiðsla til mín, hann kvaðst ekki einu sinni vita til þess að það ætti að borga mér nokkurn hlut og gekk þannig þvert á staðhæfingar Ericks vinar míns frá því um morguninn en þá hafði hann fullvissað mig um að eftir hádegi gæti ég farið til féhirðis og fengið greidda tvö þúsund og fimm hundruð dollara fyrirframgreiðslu, enda samkomulag um að greiða mér helming vinnulaunanna við upphaf verks og afganginn af því loknu, af þeim sökum hafði ég gengið frá skrifstofu mini eftir löngum göngunum alla leið í hinn enda erkibiskupssetursins til að sækja peningana sem ég gæti ómögulega verið án ef ég ætti að halda starfinu áfram, útskýrði ég fyrir gjaldkeranum, lífilfjörlegum og seinfærum náunga á bakvið skrifborð, og ég trúði ekki að Erick vinur minn hefði blekkt mig svo blygðunarlaust, eða eruð þér að halda því fram að vinur minn Erick hafi logið að mér svo fullkomlega purkunarlaust? skellti ég framan í gjaldkerann sem leit ekki upp og svaraði mér engu, skömmustulegi altarisdrengurinn atarna, allt þar til innar úr skrifstofunni birtist ljóshærður, hávaxinn maður með karabískan hreim og valdsmannslegan talsmáta og spurði hvað væri á seyði, eins og hann hefði ekki áttað sig á því, og horfðist í augu við mig, sem mér þótti hreint afbragð, hér var kominn krossfari á indjánaslóðum sem nú amætti um nasir getuleysi hins kaþólska skrifræðis, sem é gerði enda hiklaust og spýtti út úr mér að mér þætti óhugsandi að peningarnir mínir væru ekki til reiðu þegar vinur minn Erick hefði heitið því, og ég hnykkti á orðinu heitið, að um eftirmiðdaginn brygðist ekki að ég gæti innheimt fyrirframgreiðsluna, eftir þvi´sem ég best vissi giltu loforð Ericks vinar míns á þessari stofnun, sem merkti að einhver væri ekki að sinna skyldu sinni og tefldi þannig verkefninu í heild sinni í tvísýnu, því ég var ekki reiðubúinn að leiðrétta svo mikið sem einn stafkrók til viðbótar af þessum ellefu hundruð blaðsíðum ef ég fengi ekki fyrirframgreiðsluna samstundis, rétt eins og samið hefði verið um. Ekki þurfti mikla ályktunarhæfini til að átta sig á að það bullsauð undir kúlunum á þeim ljóshærða, hann átti í mestu vandræðum með að halda stillingu sinni og skíðlogaði yfir snuprum mínum, sem ég hafði heldur ekki lokið mér af við, eins og honum varð óðar ljóst er ég frussaði því út úr mér að ekki aðeins væri skyndilega til þess ætlast að ég ynni tvöfalt verk fyrir sömu laun, sem væri villimennska hvernig sem á það væri litið, heldur fylgdu í kjölfarið augljósar vanefndir á grundvallarákvæði starfssamningsins sem væri téð fyrirframgreiðsla, nú var ég farinn að hækka röddina og í hana var komin móðursýki, verð ég að viðurkenna, eins og vill henda þegar ég uppgötva að einhver hefur í hyggju að pretta mig, sem var einmitt ætlun þess ljóshærða sem nú gnísti tönnum og muldraði að ég fengi peningana mína í síðasta lagi daginn eftir, það gæti hann fullvissað mig um sem skrifstofustjóri, ekki væri um annað að ræða en ofurlitla töf sem mætti rekja til þess að hann hafði ekki verið við um morguninn þegar Erick hefði vafalaust leitað til hans til þess að koma greiðslunni í farveg. Til allrar hamingju birtist í þeim svifum í dyrum aðalskrifstofunnar stráklingurinn af myndunum með Clinton og páfanum, ef ekki hefði viljað svo heppilega til að hann birtist er aldrei að vita hverjar lyktir hefðu orðið á deilu ljóshærða mannsins, sem áleit mig fábjána sem aldrei færi að fylgja kröfum sínum eftir, og mín, sem áleit það æðst gilda að standa í skilum með greiðslur, eins og ég gerði stráksa ljóst eftir að hann fullyrti - með hönd á mjóhrygg mér - að fyrir sín orð sem forstöðumanns fengi ég í bítið í fyrramálið greidda mína tvö þúsund og fimm hundruð dollara og spurði þar að auki hvort ég kysi að fá dollarana í reiðufé eða ávísun í gjaldmiðli landsins, sem var heimskuleg spurning hvernig sem á hana var litið, þar sem í samkomulagi mínu við Erick vin minn var ávallt talað um fimm þúsund dollara og hvergi minnst á gjaldmiðil landsins og hans snjáðu og illa þefjandi seðla sem hefðu ekki freistað nokkurs manns sem kæmist nálægt því að teljast með réttu ráði, eins og ég gerði, það sagði ég stráklingnum meðan hann leiddi mig, án þess að taka sína grunsamlegu hönd af bakinu á mér, í áttina að hallarálmunni þar sem skrifstofurnar okkar voru, silalegum, taktföstum skrefum, líkt og við værum gamlir klerkar að koma úr síðdegisgöngu, og nýtti tækifærið til að beiðast þess af mér að reiðast ekki Jorge, skrifstofustjóranum, honum væri ekki að kenna töfina á greiðslunni, þar að auki væri hann tryggur vinnufélagi, Panamamaður, helgaði sig verkefninu af heilum hug, ég ætti eftir að kynnast honum betur.
(26-8)