Um bókina
Söguleg skáldsaga um misjöfn kjör og hverfula gæfu, spunnin út frá ævi þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar og einkennilegum atburðum sem urðu í Öxnadal þegar hann var ungur.
Skáldið fellur í stiga um miðja nótt og fótbrotnar. Að morgni er hann færður á spítala þar sem hann liggur fársjúkur og rifjar upp sælar og sárar stundir ævi sinnar. Á hugann leita meinleg örlög smaladrengs í sveitinni heima en fornar ástarraunir svífa líka um hugskotið, allt sem var sagt og ósagt.
Arnaldur Indriðason hefur verið vinsælastur íslenskra höfunda heima og erlendis í aldarfjórðung. Bækur hans hafa verið þýddar á yfir fjörutíu tungumál og selst í tugmilljónum eintaka. Ferðalok er tuttugasta og áttunda skáldsaga hans.
Úr bókinni
Örlög unga piltsins á Þverbrekku bar fljótt á góma í baðstofunni og þóttu undarleg. Mannshvarf hafði ekki orðið í sveitinni um langa hríð og sannarlega ekki að sumarlagi. Helst að það gerðist í vetrarhörkum, býsnaðist húsfreyja, að fólk hyrfi svona í förum á milli bæja eða landshluta í kolvitlausu veðri og missti áttir og varð úti og fannst jafnvel ekki fyrr en voraði eða þá mörgum árum síðar, ef það fannst þá yfirleitt, og voru til margar sögur af þess háttar manntjóni. Undir það tók bóndi hennar. Þetta með Kela átti lítið sammerkt með þeim sögum öllum, veður var hið ágætasta, hann ekki að gera annað en sitja yfir ánum eftir því sem fólkið sagði, engin hætta sem steðjaði að svo vitað væri. Eitthvað var talað um fólk á ferð um dalinn sem hefði getað gert drengnum mein og það gæti þá verið skýringin á þessu dularfulla mannshvarfi. Umferðin þetta sumar hafði vissulega verið óvenjulega mikil vegna þess að niðri á Möðruvöllum reis nýr amtmannsbústaður og ekkert var til sparað svo að hann yrði sem glæsilegastur. Bygging hans kostaði mikinn mannafla sem kom að mestu úr nágrannasveitum. Amtmannshúsið var rausnarleg gjöf Friðriks sjötta Danakonungs og kallað Friðriksgáfa af amtmanninum sjálfum og höfuðsmiður þess var danskur og honum fylgdu gríðarmikil umsvif. Sést hafði til tveggja manna á leið niður dalinn, eftir því sem einhver sagði, um það bil sem drengurinn hvarf, en enginn vissi neitt meira um það. Þá hafði maður með smíðatösku dvalið nótt á bæ neðar í dalnum og myndi hafa komið úr Húnavatnssýslu. Hjón á norðurleið höfðu fengið að gista með barni sínu á Engimýri einum eða tveimur dögum fyrr en heyrðist af hvarfi Kela. Þau höfðu verið á leið til systur konunnar inni á Akureyri en sögðu annars fátt af sér og voru farin eldsnemma í morgunsárið án þess að kveðja eða þakka fyrir sig og þótti það undarleg hegðun og vanþakklát, skammaðist húsfrúin enn.
Egill á Bakka hefði komið að Engimýri fyrir skemmstu, sagði fólkið, og ekki legið á liði sínu að rægja þau á Þverbrekku og vissi enginn hvað honum gekk til, garminum. Helst að það væri til komið vegna gamalla væringa þeirra Sigurðar út af kvennamálum, eða þá skuldum þótt ekkert væri til um það opinbert en báðir þóttu fjárhyggjumenn miklir og ósveigjanlegir. Egill hélt því fram við hvern sem heyra vildi að Sigurður hefði alltaf verið funi mikill og erfiður í skapi og sjálfsagt hefði vistin ekki verið neinn dans á rósum hjá Kela aumingjanum sem hefði flúið húsbændur sína og einhvern veginn tekist að fara sér að voða. Einnig bar hann það út um sveitina að Sigurður hefði lítt beitt sér í leitinni þegar hún stóð sem hæst þótt annað heimilisfólk hefði gert það. Hann hefði setið heima að mestu og látið lítið fyrir sér fara og það gerðu menn ekki við slíkar aðstæður nema þeir hefðu eitthvað á samviskunni.
- Bull, hann hefur verið utan við sig vegna hvarfsins og láir honum það enginn, sagði Rannveig, svolítið búlduleit og sviplík bróður sínum, með stór og athugul augu og mildilegt andlitsfall. Hún tók vel í nefið og var með myndarlegan vasaklút tiltækan til að þurrka taumana og snýta sér í, stundum hraustlega.
(s. 80-82)