Beint í efni

Arnaldur Indriðason

Æviágrip

Arnaldur fæddist í Reykjavík þann 28. janúar árið 1961. Foreldrar hans eru Þórunn Ólöf Friðriksdóttir, húsmóðir, og Indriði G. Þorsteinsson, rithöfundur. Arnaldur varð stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1981 og lauk B.A.-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1996. Hann var blaðamaður við Morgunblaðið 1981-1982, lausamaður við kvikmyndaskrif frá þeim tíma og kvikmyndagagnrýnandi blaðsins frá 1986-2001.

Fyrsta skáldsaga Arnaldar var Synir duftsins, sem kom út árið 1997. Síðan þá hefur Arnaldur sent frá sér fjölda skáldsagna sem flestar flokkast sem spennusögur. Hann hefur unnið útvarpsleikrit upp úr nokkrum bóka sinna, sem voru flutt á Rás 1 RÚV. Þá hefur Arnaldur hlotið styrki frá Kvikmyndasjóði Íslands til að skrifa kvikmyndahandrit upp úr bókunum Dauðarósir og Napóleonsskjölin. Kvikmynd byggð á bókinni Mýrin, í leikstjórn Baltasars Kormáks, var frumsýnd 2006.

Skáldsögur hans hafa verið þýddar á fjölmörg mál og hlotið mjög góðar viðtökur. Arnaldur hlaut Glerlykilinn, Norrænu glæpasagnaverðlaunin, fyrir Mýrin 2002 og aftur ári síðar fyrir Grafarþögn. Hann fékk Gullna rýtinginn 2005, verðlaun samtaka breskra glæpasagnahöfunda, fyrir þýðingu Bernards Scudders á Grafarþögn, Silence of the Grave. Hann hreppti Blóðdropann, íslensku glæpasagnaverðlaunin, fyrir Harðskafi (2008) og Petsamo (2017). Skuggasund (The Shadow District) hlaut Premio RBA de Novela Negra verðlaunin árið 2013. Árið 2018 hlaut hann Kalíber verðlaunin (The Great  Calibre Award), en þau eru veitt fyrir feril á hátíðinni The International Mystery & Thriller Festival í Póllandi. Auk þessa hefur hann hlotið þekkt bókmenntaverðlaun á Spáni, í Frakklandi margsinnis, í Svíþjóð, Finnlandi og víðar.

Arnaldur hlaut Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar árið 2021. Einnig hefur hann fengið Fálkaorðuna, fyrir framlag sitt til íslenskra bókmennta.

Mynd af höfundi: Einar Falur Ingólfsson.

Lesið ritþing um Arnald Indriðason í Gerðubergi 17. apríl 2004