Beint í efni

Fórnarleikar

Fórnarleikar
Höfundur
Álfrún Gunnlaugsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Skáldsögur

Um Fórnarleika

Magni býr sig undir að skrifa skáldsögu út frá efni sem fannst á rykföllnum segulbandsspólum uppi á háalofti. Þetta eru sögur af fólkinu hans: heildsalasyninum sem fékk ástríðu fyrir hjólreiðum, móður hans sem stýrði öllu með harðri hendi, ungu konunni sem fór út í lönd til að finna ástina og öllum hinum. En heimurinn hættir ekki að snúast þótt Magni sé með höfuðið í fortíðinni. Enn er ást. Enn er líf.

Úr Fórnarleikum

Arndís

varð sem þrumu lostin þegar hún sá Ríkarð. Hann var allt öðruvísi útlits en hún hafði gert sér í hugarlund, hávaxinn maður og bjartur yfirlitum, afar fríður og hlaut að vekja eftirtekt hvar sem hann kom. Að því leyti virtist hann ótækur í hvers kyns njósna- og leynistarfsemi. Þegar Arndísi varð ljóst að hún góndi eins og naut á nývirki fyrirvarð hún sig og leit niður. Þegar Ríkarður hafði faðmað Regínu að sér sneri hann sér brosandi að Arndísi, gekk til hennar með útrétta hönd en tók síðan um báðar hendur hennar og þrýsti. Sterkar hendur og þurrar. Hann sagði eitthvað sem hún skildi ekki og varð undirfurðuleg á svip. Ljótan að kunna ekki erlend tungumál, aðeins hrafl í dönsku sem hvergi dugði nema í Danmörku. Regína var komin til þeirra og hallaði höfðinu að öxlinni á Ríkarði.

- Maðurinn minn segist vera glaður yfir að fá loks tækifæri

til að kynnast þér og býður þig hjartanlega velkomna á heimili okkar.

- Það gleður mig einnig að kynnast honum, sagði Arndís, og fannst allt þetta fullhátíðlegt, en sinn var siður í landi hverju.

Þau skáluðu í freyðivíni áður en þau settust til borðs og drukku rauðvín með ljúffengum mat. Arndís gat ekki annað en hrósað dóttur sinni í hástert og bætti við að hún hefði bersýnilega lært sitt af hverju varðandi matargerð og kvaðst vona að það sama ætti við um annan lærdóm.

Arndís hniprar sig í stólnum uppi á hótelherberginu og andvarpar. Bros Regínu hafði þurrkast út.

- Þú hefur aldrei haft trú á mér.

Það er ekki rétt, sagði Arndís og þar með var málið útrætt af hennar hálfu, lítið upp úr því að hafa að reyna að sýna fram á með rökum að hún hefði haft trú á Regínu alveg frá upphafi, trú á hæfileikum hennar og sjálfstæði sem stundum var fullmikið, að henni fannst. Hún hafði með ráðum og dáð stutt hana til náms. En auðsætt var að Regína kunni ekki gott að meta og hafði ómótstæðilega þörf fyrir að setja út á eða rífa niður það sem móðir hennar hafði fram að færa. Áreiðanlega bjó að bald fjarstæðukennd hug- mynd Regínu, fluga sem hún hafði fengið í höfuðið sem barn, að móðir hennar ætti að einhverju leyti sök á dauða eiginmanns síns.

Þegar Arndís vaknaði morguninn eftir komst aðeins ein hugsun að hjá henni: fara í sturtu og láta sér líða vel. En þegar til kom reyndist vatnið aðeins ylvolgt og rann ekki nema í örskamma stund, svo snöggkólnaði það og hún fékk gæsahúð. Verst að ekki var hægt að næla sér í morgunverð á hótelinu. Hún hefði kosið að búa á pensjónati og geta borðað þar allar máltíðir, en Regína tók það ekki í mál og hélt því fram að hún væri meira út af fyrir sig á hóteli. Auk þess var það skammt frá húsinu þar sem Regína og Ríkarður bjuggu. Þau voru önnum kafin fram eftir degi. Ríkarður orðinn á eftir með myndaseríu og Regína þurfti að mæta á fyrirlestra í háskólanum og undirbúa sig fyrir þá. Arndís reyndi að bægja frá þeirri hugsun að hún væri baggi á þeim, auðvitað var hún það ekki, enda á eigin vegum, en hún truflaði, það var auðfundið, og meira en Ijóst að hún hefði átt að sitja heima og fara hvergi. Of seint að sýta það en á reið að gera gott úr öllu og láta sem minnst fyrir sér fara.

Hún sá fram á að hún myndi lenda í erfiðleikum vegna tungumálavankunnáttu en ákvað að mikla það ekki fyrir sér, það var hægt að komast býsna langt með handapati og bendingum. Og vertinn á mjóu og ílöngu kaffihúsi, þar sem aðeins var barborð, skildi um leið við hvað hún átti þegar hún bað um kaffi á dönsku og hreyfði höndina eins og hún væri að hella úr könnu. Henni til furðu kom hann með hátt glas í annarri hendi sem í var sletta af kaffi, í hinni var hann með litla könnu af flóaðri mjólk sem hann hellti saman við kaffið og fyllti glasið. Ekki gekk betur með samlokuna sem hún bað um og bjóst við að yrði ferköntuð í laginu. Vertinn setti fyrir hana langt brauð og mjótt með bragðgóðum osti en skinkan reyndist vera of söltuð. Þegar Arndís stóð fyrir utan kaffihúsið og horfði til beggja hliða vissi hún ekki úr hvorri áttinni hún hafði komið og þá ekki í hvaða átt hún ætti að halda. Að vísu var hún með uppdrátt í veskinu sínu sem Regína hafði látið hana fá og Arndís ekki kunnað við að mótmæla og upplýsa Regínu um að hún gæti ekki fært sér uppdrætti í nyt, það endaði alltaf með því að hún lenti í ógöngum vegna einhvers rótgróins misskilnings á eðli uppdrátta. Í reynd hafði hún ekkert að styðjast við nema skilningarvitin.
(27-29)

Fleira eftir sama höfund

Le Passage de l'Èbre

Lesa meira

Sagan og undraborgin

Lesa meira

Das haben Menschen getan

Lesa meira

Hringsól

Lesa meira

Hvatt að rúnum

Lesa meira

Errances

Lesa meira

Irrfärd

Lesa meira

Ljóð í Wortlaut Island

Lesa meira