Beint í efni

Hvatt að rúnum

Hvatt að rúnum
Höfundur
Álfrún Gunnlaugsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1993
Flokkur
Skáldsögur

Úr Hvatt að rúnum:

Viljaleysi hafði tekið sér í honum bólfestu og möglunarlaust hlýddi hann því sem honum var sagt að gera, þótt hugurinn dveldi við annað, héldi fyrir honum vöku um nætur. Kvöldsöngur kvennanna í fjarska megnaði ekki að svæfa hann. Diafanus vissi að hann var fangi, þó svo verðir hans væru mjúkhentir og fagrir, en ekki skildi hann hvers vegna. Það vissi trúlega enginn utan roskin kona með gildar fléttur og gafst ekki upp við að láta hann læra. Velti fyrir sér hvernig hann ætti að komast burt, en útihurð hússins rammger og læst með lykli sem konan bar við belti sér í kippu. Óhugsandi var að ná lyklinum nema með valdi. Sá kostur ekki fýsilegur. Til var annar kostur, beita slægð og klókindum, og nú lagði Diafanus kapp á að læra. Að nokkrum tíma liðnum var roskna konan orðin mildari við hann, í augnakrókunum á henni sást vísir að brosi, hann afréð að vinna til fylgis við sig meyjarnar, sem honum þjónuðu til að komast að því hvers vegna hann var í haldi hjá þeim. Kæmist hann að því yrði annað auðveldara. En meyjarnar þöglar sem gröf, báru fyrir hann á borð með þokkafullum hreyfingum. Ómótstæðileg löngun greip hann þegar hann sat í kerlauginni upp á lofti, Diafanus vildi að þær tækju eftir nekt hans. Loks réð hann ekki við sig og stökk upp úr lauginni og skeytti því engu að hann var rennblautur, tók utan um aðra þeirra aftan frá. Hún skrækti meðan hin sló á lendar honum með þurrku, eins og hún væri að hirta barn. Hann blygðaðist sín. Auðmjúkur leyfði hann meyjunum að þerra sig og klæða.
 Roskna konan beið hans niðri og vildi að hann læsi fyrir sig hátt og skýrt. Rak í vörðurnar en hún hvatti hann að halda áfram og Diafanus fann að konan var ánægð. Nú reið á að leggja sig fram.
 Um kvöld var hurðinni að svefnhúsi hans lokið upp undur hægt, inn gekk þjónustumær hans önnur með hörpu, stillti strengi hennar og söng. Hvert kvöld kom hún til hans og nam hann af henni strengleika. Hugnaðist honum það betur en bókfræðin og gladdist í hvert sinn er hann sá hörpuna.
 En svo hætti hún að koma.
 Ekki lærði Diafanus stjörnulist, þess naumast að vænta þar sem konur réðu húsum. Lokaði vandlega hleranum á svefnhúsi sínu áður en hann fór að sofa, og hafði ekki áhuga á að skoða það sem útifyrir var. Glugginn horfði móti skóginum, í honum var gljúfur, rómsterk á, bæli ribbalda upp í fjallshlíðinni. Í huganum sá hann kornöxin sem bylgjuðust framan við húsið eins langt og augað eygði, líkt og hann gerði ráð fyrir að úti væru alltaf fullþroska öx er sólin gyllti, vindur stryki.
 En til voru árstíðir.
 Varð þeirra ekki var.
 Og löngu hættur að gæta að hvort dyrnar að svefnhúsinu væru lokaðar að utanverðu, Diafanus gekk að því vísu líkt og hann játaðist undir að vera fangi. Það var ekki fyrr en til hans barst ómur af skærri rödd er söng að hann gekk að hurðinni. Tók í hana.
 Hún opnaðist.

(s. 116-117)

Fleira eftir sama höfund

Le Passage de l'Èbre

Lesa meira

Sagan og undraborgin

Lesa meira

Das haben Menschen getan

Lesa meira

Hringsól

Lesa meira

Errances

Lesa meira

Irrfärd

Lesa meira

Ljóð í Wortlaut Island

Lesa meira

Fórnarleikar

Lesa meira