Um þýðinguna
Skáldsagan Atonement eftir breska rithöfundinn Ian McEwan í íslenskri þýðingu Rúnars Helga. Bókin kom út á frummálinu 2001. Bókin hefur hlotið ýmis verðlaun. Í Bretlandi fékk hún The People's Booker, í Bandaríkjunum National Book Critics Circle Award og í Þýskalandi virt bókmenntaverðlaun sem kennd eru við bókamessuna í Leipzig. Hún var auk þess á nýlegum lista breska blaðsins Observer yfir 100 bestu skáldsögur allra tíma. Friðþæging hefst á lýsingu á heitum sumardegi á herragarði í Bretlandi árið 1935. Hin þrettán ára Briony verður þar vitni að tiltölulega saklausum atburðum. Vegna áhuga síns á leikritun (Briony hefur nýlega skrifað leikritið Raunir Arabellu) túlkar hún það sem fyrir augu ber með skáldlegum hætti og fyrir vikið fer afdrifarík atburðarás af stað. Nokkrum árum síðar skellur síðari heimsstyrjöldin á og þá kemur í ljós að Briony hefur skrifað raunverulegan harmleik.
Úr Friðþægingu
Það togaðist á í henni löngunin til að skrifa einfalda dagbókarfærslu um atburði dagsins og metnaðurinn til að búa til eitthvað stórbrotnara úr þeim, eitthvað sem yrði fágað, illskiljanlegt og myndaði sjálfstæða heild. Hún sat góða stund og yggldi sig yfir pappírsörkinni og barnalegri tilvitnuninni en skrifaði ekki staf í viðbót. Hún taldi sig geta lýst athöfnum býsna vel og hafði tilfinningu fyrir samtölum. Hún gat lýst skóginum á vetrardegi og vægðarlausum kastalavegg. En hvernig lýsti maður tilfinningum? Það var gott og gilt að skrifa: Hún var döpur, eða lýsa því hvað döpur persóna kynni að taka til bragðs, en hvað um depurðina sjálfa, hvernig kom maður henni til skila svo að hún yrði nógu átakanleg? Enn erfiðari var ógnin eða uppnámið sem hlaust af mótsagnakenndum tilfinningum. Með penna í hendi starði hún þvert yfir herbergið í áttina að harðneskjulegum dúkkunum, félögunum sem hún var orðin fráhverf nú þegar hún taldi æskuna vera á enda. Það var nöturleg tilfinning að fullorðnast. Hún mundi aldrei sitja í kjöltu Emilyar eða Ceciliu framar, ekki þá nema í gamni. Fyrir tveimur sumrum, í ellefu ára afmælinu hennar, höfðu foreldrar hennar, bróðir hennar og systir og einhver einn í viðbót sem hún mundi ekki hver var, farið með hana út í garð og tollerað hana í ábreiðu ellefu sinnum og svo einu sinni fyrir heilladísirnar. Gæti hún treyst því núna, hinu dásamlega frelsi flugtaksins, hinu blinda trausti á vinveittar fullorðinshendur, þegar fimmta manneskjan kunni þess vegna að hafa verið Robbie?
(s. 126)