Í Grannmeti og átvöxtum eru níutíu og níu ljóð og einn Losarabragur eftir Þórarin Eldjárn, ort handa börnum og barnalegu fólki. Hér skjóta upp kollinum veran Vera og Silla silíkona, Fjölleikafúsi og Vissi Krissi, hjónin Sí og Æ, Þvermóður og eldgamla Ísafold. Einnig brunnklukka og nykur, krókódíll og fjörulalli, fífill og óðinshani, Kjarval og Kiljan, Æri Tobbi og Hamlet og margir fleiri. Furðulegir hlutir gerast - hvalir fara í mannaskoðunarferð, tærnar tala saman og hænur fá gæsahúð, enda niðurstaðan sú að ekki er öll vitleysan eins! Þórarinn Eldjárn fer hér á kostum í hugmyndaflugi og leik að orðum og Sigrún Eldjárn bætir um betur með leiftrandi myndum.
Úr Grannmeti og átvöxtum:
Óðinshani
Yrkingu hér olli
óðinshani á polli.
Rauðbirkinn og rogginn
rekur niður gogginn.
Til og frá hann tifar
tákn í vatnið skrifar.
Allt er hann að yrkj'um
þó ekki sé á styrkjum.
Hringsnýst hann í hlykkjum
hreyfir sig með rykkjum.
Letrið er með lykkjum
ljóðin koma í skrykkjum.
Hann skrifar til að lifa
og lifir til að skrifa.
Kuml og haugfé
Undir mold og steinum er fornmaður falinn
sem fyrstur af öllum kom hingað í dalinn.
Í gröfina fór hann með hestinn sem haugfé
og hund og sverð og ýmislegt draugfé.
Það er sagt að á kvöldin örli á umli
úr þessu kumli.
Það stafar af því hversu þreyttur er'ann
enda þúsund ár síðan hann fékk að ver'ann.
Honum finnst tíminn lengi að líða
og leiðist ósköp mikið að bíða.
En fornleifafræðingar
fóru á kreik
í feluleik.
Þeir leitina hófu og grófu og grófu.
Þeir notuðu teskeið og matskeið og múrskeið
á mis.
Og vönduðu sig til að ekkert færi úrskeið-
is.