Beint í efni

Þórarinn Eldjárn

Æviágrip

Þórarinn Eldjárn fæddist í Reykjavík 22. ágúst 1949. Hann nam bókmenntir og heimspeki við Háskólann í Lundi í Svíþjóð frá 1969-1972, íslensku við Háskóla Íslands 1972-1973, bókmenntir í Lundi 1973-1975 og lauk þaðan fil kand prófi vorið 1975. Þórarinn var búsettur í Stokkhólmi á árunum 1975-1979 og dvaldist rúmt ár í Kantaraborg 1988-1989. Frá árinu 1975 hefur hann starfað sem rithöfundur og þýðandi.

Þórarinn hefur sent frá sér fjölda ljóðabóka, smásagnasafna og skáldsagna og auk þess þýtt bókmenntaverk fyrir fullorðna og börn úr Norðurlandamálum og ensku, meðal annars þrjár bóka Göran Tunströms og Lísu í Undralandi eftir Lewis Carroll. Þórarinn hefur sent frá sér nokkrar ljóðabækur fyrir börn í samstarfi við systur sína, myndlistarkonuna Sigrúnu Eldjárn, og hafa þær hlotið fjölmargar viðurkenningar. Verk eftir Þórarin hafa verið þýdd á Norðurlandamál og skáldsaga hans, Brotahöfuð á fleiri mál.

Forlag: Vaka-Helgafell.