Beint í efni

Herörin og fleiri sögur

Herörin og fleiri sögur
Höfundur
Ólafur Gunnarsson
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Smásögur

Um bókina

Dauðvona lögfræðingur snæðir kjötsúpu með fyrrverandi eiginkonu sinni, AA-maður fer til að biðja gamlan bekkjarfélaga fyrirgefningar, húsgagnasmiður býður langveikri dóttur sinni í hvalaskoðun og átök leynifélaganna Rauðu rósarinnar og Svörtu handarinnar ná hámarki í blóðugum bardaga á Skólavörðuholti. Um þetta og margt fleira má lesa í tólf nýjum smásögum eftir Ólaf Gunnarsson.

Úr bókinni

Ég skrifa með ánægju undir þessa skýrslu sem fyrir mig er lögð en neita því harðlega að hafa framið glæp. Ég skrifa undir með bestu vitund og fullyrði að ég hef sagt satt og rétt frá. Ég er amerískur bókaútgefandi. Ég kom til Íslands til þess að fagna því að forlag mitt hefði gefið út þrítugustu og aðra glæpasögu Egils Egilssonar, sem ég er sakaður um að hafa myrt. Ég ætlaði sjálfur að færa honum fyrsta eintakið. Mér fannst ég skulda honum það. Ég vona að sá sem hefur verið fenginn til að þýða skýrslu mína á íslensku fari með rétt mál.
   Ég kom til Íslands þann þriðja janúar á þessu ári og tékkaði strax inn á Hótel Sögu. Það var gott fyrir mig að koma til Íslands. Það var óratími síðan ég hafði tekið mér frí. Það grunar fáa hvað það tekur á að lesa um morð frá morgni til kvölds, jafnvel þótt um skáldskap sé að ræða, en forlag mitt sérhæfir sig í glæpasögum.
   Ég átti bókaðan fund með íslenskum útgefanda Egils strax næsta dag. Það kom mér mjög á óvart þegar ég vaknaði að morgni að mín beið blaðamaður. Íslenski útgefandinn hafði komið þessu í kring án þess að orða það við mig.
   Ég bauð blaðamanninum í morgunmat og dró ekkert undan þegar ég hældi Agli. Ég sagði eins og satt var að Egill væri einn besti glæpasagnahöfundur heims. Við hjá North Point Press hefðum selt meira en þrjátíu milljón eintök af bókunum hans. Ég lét samt hjá líða að segja að við hefðum verið löngu farnir á hausinn hefðum við ekki gerst útgefendur Egils í Bandaríkjunum.
   Mér var vel tekið á fundinum með útgefandanum og snæddi með honum léttan hádegisverð, og þegar ég sagði honum að ég hefði hugsað mér að bjóða Agli út að borða um kvöldið sagði hann að Egill hefði lagt inn skilaboð til mín. Hann vildi bjóða mér heim til sín í mat daginn eftir. Hann lét mig fá heimilifang Egils.
   Um nóttina dreymdi mig að blóðugur hvítur hestur hlypi um í borðsal hótelsins og bryti þar allt og bramlaði.

(s. 67-68)

Fleira eftir sama höfund

The Beautiful Flying Whale and the Tale of the Little Galaxy

Lesa meira

Hrognkelsin: Cyclopteri Lumpi

Lesa meira

Trolls´s Cathedral

Lesa meira

Vetrarferðin

Lesa meira

Dimmar rósir

Lesa meira

Kirvis Ir Zeme

Lesa meira

The Lumpfish

Lesa meira

Rasvakalat

Lesa meira

A ´59 Caddy Christmas in 1958

Lesa meira