Beint í efni

Hjarta mannsins

Hjarta mannsins
Höfundur
Jón Kalman Stefánsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Skáldsögur

Úr bókinni:

Líkami mannsins er heimskt dýr sem við þurfum að dragnast með í gegnum tímana, eins og þunga minningu.

Hjarta stráksins hefur varla slegið eitt högg síðan hún settist hjá honum í kirkjunni, og samt hafa margar mínútur liðið. Hann heldur undir hornið á pallinum sem orgelið hvílir á, það rignir og hún fer í aðra átt með þeim norska, og dóttur sinni, læknishúsið nálgast. Það er staðreynd að hjarta mannsins hefur tvö hólf og þessvegna er hægt að elska tvær manneskjur á sama tíma, líffræðin býðuru pp á það, krefst þess myndu sumir segja, en samviskan, vitundin, segir okkur allt annað og hversdagurinn getur því verið óbærilega þungfær. Strákurinn veltir fyrir sér, meðan þeir eru að kveðja læknishjónin, að biðja Ólaf um byssu svo hann geti skotið sig í gegnum það hólf sem stelpan með grænu augun og alltof stutta hárið hefur snögglega og miskunnarlaust lagt undir sig. Yrði hann þá ekki að heilli manneskju, og ættu ekki allir að gera það sama, aflífa annað hjartahólfið, skera það burt?

Þórdís kveður Jens með handabandi, þéttu, þrýstir lófa sínum inn íh ans, mjög fast, eins og til að fá hlutdeild í honum, lífi hans, þrýstir fast, vertu hjá mér, segir lófinn kannski, ekki skilja mig eftir, og Jens þrýstir á móti, en ekki eins fast. Steinunn faðmar strákinn að sér, það er bara ekki annað hægt en að taka utan um þennan strák, hún á eftir að skrifa um kvöldið, á eftir stillilegri lýsingu á rengi, vindi, hitastigi og því hvernig sjórinn liggur og skýin breyttust, hvernig orgelið hljómaði, fólkið söng, ekki annað hægt, halda, þrýsta að sér og vernda, því stundum er hann eins og ómálga barn, en stundum líka eitthvað allt annað sem ég skil ekki. Ég veit ekki, svei mér þá, hvort svona manneskjur eigi yfirleitt heima á þessu landi. Ég veit ekki hvort þær eru villa, eða tilraun til leiðréttingar. Muna að ræða þetta við Óla.

En þarna gengur strákurinn. Með heimskan líkamann á milli tveggja risa, Brynjólfs og Jens. Skipstjórinn er glaður, það er sumar framundan og hann siglri og hafið er vinur hans, það svíkur aldrei, er heilt og hreint, hvort sem er í rósemd og logni, eða óveðri og dauða. Skyggir að vísu á að hann komst ekki yfir vín, Sigurður er bundinn og kemst ekki, hafði konan hans sagt þegar Brynjólfur spurði eftir langa verslunarstjóranum sem hafði áður útvegað skipstjóranum og öðrum heiðarlegum mönnum vín þótt allt væri orðið þurrt. Vín, hafði konan étið upp eftir Brynjólfi, og endurtekið orðið, næstum eins og hún vissi ekki hvað hann ætti við og þyrfti að segja orðið upphátt og minnst tvisvar til að átta sig, já, nei, hér er allt löngu búið, þú ert líka að fiska og þarft varla vín á meðan, hefði ég haldið. Það er alveg rétt hjá þér, hafði Brynjólfur sagt, þótt hann hefði eingöngu siglt hingað út af víninu, enda ætlaði hann síðan beinustu leið út í hvalstöð, þeir norsku ættu örugglega einhvern rudda, en hætti við, hafði á tilfinningunni að hún stæði við glugga og fylgdist með honum, ég hlýt að lifa af í einhverja daga, hugsaði hann, annað er vesaldómur. Hann breytti um stefnu og leið þá eins o ghnann hefði unnið sigur, stefndi upp að læknishúsinu, sá þar hóp af fólki og eitthvað sem líktist orgeli, þótt furðulegt væri, undir berum himni.

(83-5)

Fleira eftir sama höfund

Harmur englanna

Lesa meira

Himnaríki og helvíti

Lesa meira

Verschiedenes über Riesenkiefern und die Zeit

Lesa meira

Skáldskapur er ekki kanínur upp úr hatti

Lesa meira

Að breyta lífi: gestaskrif

Lesa meira

Skáld um skáld

Lesa meira

Umskiptingurinn

Lesa meira

Gullregn úr ljóðum Jóhanns Gunnars Sigurðssonar

Lesa meira

Spurningin um að komast af : viðtal við Geirlaug Magnússon

Lesa meira