Um bókina:
Brynhildur bregður sér í frí til Parísar þar sem hún lendir í óvæntu ævintýri með karlmanni. Upp í hugann koma minningar frá löngu liðnum námsárum þar í borg þegar hún mætti ástinni í lífi sínu, ástinni miklu sem aldrei varð. París myndar umgjörð um nútíð og fortíð þessarar sögu og leggur til leiktjöld, liti, lykt og ljós.
Úr Hundrað dyr í golunni:
Ég gekk góðan spöl fram hjá búðinni sem ég leitaði að því hún var falin inni í sundi við rue Damrémont. Í annarri tilraun rambaði ég á sundið, og viti menn, hún hét virkilega Hundrað og tveir skermar, Cent deux paravents, eins og stóð í bókinni.
Mér sýndist vera slökkt og ég ímyndaði mér að það væri lokað, en dyrnar opnuðust um leið og ég tók í þær. Ég fór inn og lokaði ofurhægt. Það var eins og marrið í hurðinni bergmálaði og litli skellurinn sem heyrðist loksins þegar dyrnar fóru aftur.
Ég var hálfblind eftir að hafa komið úr skjannabjörtum degi í hálfrökkrið í búðinni. Svo áttaði ég mig á því að hún var í laginu eins og gangur sem mjókkar þegar innar dregur. Alls konar skermar komu í ljós, varla færri en hundrað. Hér og hvar stafaði daufri birtu frá hippalegum lömpum. Innst inni voru tveir reyrstólar og milli þeirra borð með kringlóttri bronsplötu. Þar loguðu tvö kerti og milli þeirra liðaðist upp öflugur reykelsisstrókur. En lyktin sem ég fann var af hassi.
Bonjour, sagði ég. Væntanlega við engan, því enginn svaraði.
Ég settist, lagði hönd á bronsplötuna á borðinu og horfði frameftir víkkandi rýminu, á alla skerma sem hægt var að hugsa sér, lakkaða, skeljalagða, útskorna, skerma úr máluðum bambus. Fimmfalda, tvöfalda, gamla, nýja, kínverska, indverska, já meiraðsegja einn sem gat verið sænskur.
(s. 15-16)