Um bókina
Maður nokkur ákveður að heimsækja æskuvin sinn, sem hefur verið lagður inn á geðdeild sökum þunglyndis. Þeir ná vel saman, en hjúkrunarkona sem annast vininn tekur heimsóknunum illa og reynir að stía þeim í sundur. Maðurinn er settur í heimsóknarbann og því skipuleggja þeir strok af spítalanum og leggja á flótta.
Strokinu er illa tekið, hjúkrunarkonan kemur æðandi á eftir þeim og í kjölfarið hefst æsilegur eltingarleikur um landið þvert og endilangt. Flóttin frá siðmenningunni verður sífellt flóknari og að lokum er stefnan tekin mót nyrstu eyju Íslands - Kolbeinsey.
Úr bókinni
Meðan Orwell skrifaði að manneskjan ætti ekkert eftir sjálf nema þessa fáu kúbiksentimetra innan hauskúpunnar, því allt annað tilheyrði Big Brother, þá vinna Zuckerberg og co. í Sílíkondalnum stöðugt meiri lendur í prefrontal cortexinum, þessum hluta heilans sem siðmenningin hefur hlaðið utanum dýraheilann gegnum ármilljónir og er svo undurfínt tæki og göfugt og var lykillinn að því að tegundin komst af og þróaði með sér hópkennd. Með ennisheilanum tókst manninum að lesa í náttúruteikn og skynja hættur frá óvinaflokkum eða rándýrum, hann hlustaði eftir hljóðum og síðar fréttum af öðrum þjóðflokkum til að geta brugðist við, alltaf á vakt með sínu ennisheilablaði. Nú er feisbúkk, twitter, instagram, snapptjatt, tiktok og jú-neim-it, auk viðstöðulauss flæðis draslfrétta, áróðurslyga og kláms á góðri leið með að leggja þetta viðkvæma og undurfína svæði heilans undir sig, þeir hafa gert ennisheilablaðið að vígvelli, öllu heldur diskógólfi þar sem fólk dansar við þær hugsanir og tilfinningar sem þeir ákveða fyrir þig.
Þunglyndi vinur minn hafði hlustað á ræðu mína af þolinmæði. Þegar ég tók mér hlé, talaði hann með sinni rólyndislegu rödd:
Það mætti halda að þú værir sá þunglyndi. Þú talar um illsku samtímans, en hefur enga djúpa tilfinningu sjálfur. Eins og þú sért að tala um sjálfan þig. Það er eitthvað annað undir niðri sem framkallar þessa bölsýni. Eitthvað sem þér hefur enn ekki tekist að festa hönd á. Þú kemur hérna og geisar eins og einhver Bergþóra á Hvoli um tilfinningaleysi tímanna, en virðist ekki einu sinni geta fundið til með mér.
Sinn eld skal hver ábyrgjast, sögðu þeir gömlu og hvað mig varðar, hann stundi og leit fram fyrir sig á ný: Mér líður eins og í fokkíng Kolbeinsey. Og enn meira eftir að þú komst.
Mér fellur allur ketill í eld. Hann kunni að stinga svo undan sveið, þunglyndi vinur minn. Ég veit það ekki, ég er ekki að segja að ég sé einhver masókisti, en ég fann að ég vildi að hann talaði áfram, hann mætti hirta mig sína lyst: Hirtu mig! langaði mig til að segja við hann, hann mátti fjandakornið slöngva sinni svipu á mig svo ég fyndi til! Ég vissi að hann hafði meira til brunns að bera en ég, hann var djúpur eins og hylur og kunni á svona lagað tilfinningadrasl.
En þá gerðist nokkuð sem rauf þessa góðu tengingu sem var að myndast á milli okkar. Þegar þunglyndi vinur minn var loks farinn að tala kom hjúkrunarkonan inn aftur. Hún sagði að nú væri heimsóknartíminn á enda. Þetta var dæmigert. Alltaf virtist einhver koma á milli mín og vinar míns. Þessi góða tenging við aðra manneskju sem skilur þig, hún er eins og laugandi bað fyrir hjartað, en aldrei fær það að gerast í friði!
(bls. 27-30).