Beint í efni

Land þagnarinnar

Land þagnarinnar
Höfundur
Ari Trausti Guðmundsson
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2007
Flokkur
Skáldsögur

Af bókarkápu:

Hér er á ferðinni óvenjuleg saga þar sem rakin eru flókin fjölskyldutengsl sem eiga sér rætur í stríðshrjáðri Evrópu. Land þagnarinnar er önnur skáldsaga Ara Trausta.

Hvað var það sem ekki mátti tala um? Hvers vegna var aldrei talað um þennan þýska afa hans sem ekki var einu sinni til ljósmynd af? Eða var hún til? Þegar drengurinn Arnar Einarsson spyr ömmu sína hvar afi hans sé fer sú gamla undan í flæmingi. Hið sama gerist þegar drengurinn gengur á aðra fjölskyldumeðlimi – enginn vill ræða fortíðina því fjölskyldan býr yfir leyndarmáli sem vafin er þagnarhjúpi í uppvexti drengsins.
Á fullorðinsárum hefst leit Arnars að afanum á nýjan leik og nú verður hvergi hvikað fyrr en sannleikurinn kemur í ljós – hversu óvæginn sem hann kann að vera.

Úr bókinni:

- Amma, á ég ekki afa í Þýskalandi? Þú veist að mig langar að tala um hann.
   - Ja, ja. Þú hafðir afa. Selbstverständlich. Auðvitað.
   - Hvar er hann? Þú sagðist ætla að segja mér meira um hann.
   Amma svaraði ekki. Hún tók fastar um hönd mína og greikkaði sporið niður heimreiðina. Ég leit fyrst spyrjandi á hana en svo á rauðu stytturnar af finngálknunum framundan. Hún ætlaði ekki að svara spurningunni, ekki frekar en áður. Helene amma gat verið ákveðin og þver.
   Styttur af pabba stóðu hvor á sínum hliðstólpa frammi við akveginn. Finngálkn eru furðuleg. Ljón að hálfu og örn að hálfu. Goðsöguleg, hafði pabbi sagt mér sem barni og útskýrt að þær væru dularfullar og framandi frásagnir sem enginn veit hvernig urðu til en brúa bil milli manna, trúarbragða og náttúru. Örstuttar frásagnir af móðurafanum í Þýskalandi, sagðar í samhengislausum setningum á nýliðnum árum, drógu upp daufa svipmynd af útlendum og leyndardómsfullum manni. Sagan af afa, á að giska í fimm setningum alls, var ósamfelld með öllu og án enda. Hún var samt allt og sumt sem ég vissi um hann, þrátt fyrir miságengar spurningar. Stundum fannst mér sagan einmitt hljóta að vera goðsaga. Dularfull tenging við fjarlægt og lítt þekkt land. Forvitnileg en sundurlaus goðsaga um huldumann. Kannski ævintýramann?
   Amma bar skýluklút yfir gráu, smábylgjuðu hárinu og hún klæddist ljósblárri sumarpeysu, háum silkisokkum og ljósgráu pilsi. Hún gekk aldrei í buxum nema á ferðalögum í óbyggðum. Amma var lágvaxin og hvorki grönn né holdug. Með sléttar kinnar og enni, stórt nef og stór, grá augu. Blíðleg en þreytuleg augu. Hún var eina amma mín á lífi því Guðrún amma í Suðurdal var dáin fyrir löngu og langömmurnar fyrir óralöngu. Mér þótti mjög vænt um ömmu Lene eins og við systkinin kölluðum hana.

(17-18)

 

Fleira eftir sama höfund

Landið sem aldrei sefur

Lesa meira

Eyjafjallajökull : Der ungezähmte Vulkan

Lesa meira

Leitin að upptökum Orinoco

Lesa meira

Fardagar: þankar um hringleið

Fardagar: þankar um hringleið
Lesa meira

Bæjarleið

Lesa meira

Sálumessa: í fimm þáttum

Lesa meira

Vegalínur

Lesa meira

Leiðin að heiman

Lesa meira

Krókaleiðir

Lesa meira