um bókina
Hver í ósköpunum felur nálar í ávöxtum sem eru til sölu og í hvaða tilgangi? Við þá ráðgátu glímir rannsóknarlögreglukonan Soffía en fær ekki mikla aðstoð á vinnustaðnum sem er hálflamaður vegna Covid-19. Fyrrverandi eiginmaður hennar, sálfræðingurinn Adam, hefur áður aðstoðað lögregluna við úrlausn flókinna glæpamála en nú ræður hún hann sem sálfræðilegan ráðgjafa. Saman rannsaka hjónin fyrrverandi hverja vísbendinguna á fætur annarri, þó að Adam kysi heldur að vera heima að sinna sínum málum, faglegum og persónulegum.
úr bókinni
"Var þessi heimsókn ekki gjörsamlega tilgangslaus?" spurði Adam þegar þau settust inn í ómerkta lögreglubílinn sem Soffía hafði til umráða. "Það komu engar nýjar upplýsingar fram, það er að segja ekkert sem þú vissir ekki áður en við gengum inn í húsið. En þú hefðir núg getað búið mig betur undir þetta."
Hún setti bílinn í gang.
"Þetta er styrkur fyrir löggur. Að vita meira en maður gefur upp. En ég vildi að þú værir ... blankó."
"Blankó?" Það var þungt í Adam. "Ég skil að leynd vitneskja getur verið gagnleg fyrir rannsóknarlögregluna en nákvæmlega það sama gildir um sálfræðilega ráðgjafa. Þeir græða líka á að vita meira en minna þegar þeir fylgjast með viðbrögðum fólks."
"Sorrí." Hún hljómaði ekki vitund leið þótt hún léti sig hafa að slengja fram afsökun. "En hvað finnst þér um stöðuna núna?"
"Ja, ég myndi flokka þessar umkvartanir um hommapartí sem árás á fyrirtækið. Og það breytir ýmsu."
Soffía hætti við að keyra af stað, sneri sér að Adam og beið eftir að hann héldi áfram."Það er enginn tilviljanabragur á þessu lengur, enginn svona grínblær með alvarlegum undirtóni. Þegar þessar neikvæðu umsagnir á netinu bætast við er ljóst að þetta er útpæld og meðvituð árás á systkini sem öll reka fyrirtæki."
Hann þagnaði andartak en bætti svo við:
"Eða kannski frekar: Árás á fyrirtæki sem rekin eru á systkinum. Það er svolítill munur á þessu tvennu, finnst mér. Sem sagt, hvort fókusinn er á fyrirtækin eða systkini."
"Hvað kallar þú fókus?"
Adam lenti í vandræðu mmeð að útskýra það. Þetta var bara óljós tilfinning. Hann fór því út í aðra sálma.
"Núna er þar að auki ljóst að árásirnar byrjuðu fyrr en við héldum. Þessar lygar um hótelið í febrúar voru greinilega fyrsta atvikið, nálarnar komu á eftir.!
Það kom honum á óvart að Soffía skyldi fara að hlæja.
"Hvað er svona fyndið?"
"Hvað þú ert auðtrúa." Soffía þurrkaði tár undan augunum. "Hvernig veistu að kommentin voru fölsuð?"
"Hóteleigandinn færi varla að kæra umsögn um staðinn til lögreglunnar ef einhverjir hafa í raun og veru haldið vöku fyrir gestum með fylliríi og hópkynlífi í pottunum."
"Kannski varð hann að kæra."
"Varð?" Adam horfði skilningssljór á hana.
"Út af meðeigendum, kannski. Svo þeir tryðu ekki þessu um orgíuna."
"Á hann hótelið ekki einn?"
"Dóri og Sesselja eiga fjörutíu og níu prósent."
"Hvers vegna fæ ég aldrei allar fyrirlyggjandi upplýsingar?" Adam heyrði sjálfur að hann hljómaði eins og krakki en átti erfitt með að hefja sig upp á hærra plan. "Er það bara djók hjá þér að hafa þig með í þessari rannsókn? Þú heldur semsagt að lætin í heitum pottunum hafi átt við rök að styðjast og að það mál hafi ekkert með nálastunguárásirnar að gera."
"Ég sagði kannski. Ég veit þetta ekkert frekar en þú."
(s. 112-113)