Um þýðinguna
Nóvellan La vida de Lazarillo de Tormes y de sus fortunas y adversidades í þýðingu Guðbergs Bergssonar. Höfundur óþekktur.
Eftirmáli eftir Guðberg Bergsson.
Úr Lazarus frá Tormes
Ég þrýsti mér upp að húsvegg til að rýma fyrir, og þegar líkið var sloppið, kom kona hulin sorgarklæðum í hópi kvenna spölkorn á eftir börunum; og hlýtur sú að hafa verið ekkjan, grét hún með kveinstöfum og sagði:
Eiginmaður minn og herra, hvert fara þeir með þig? Í eyðilega og gæfusnauða húsið, á hinn dimma og drungalega stað, í bústaðinn þar sem aldrei er borðað eða drukkið!
Ég heyrði þetta, hvarf mér þá bæði himinn og jörð, og ég sagði:
Æ, mig auman! Þeir fara heim með líkið.
Ég hætti við ferðina, otaði mér fram milli fólksins og tók á rás eins hratt og fætur toguðu niður götuna. Og þegar ég kom inn, læsti ég dyrum í hasti, kallaði ólmur á húsbónda minn mér til hjálpar, faðmaði og bað hann verja innganginn líka. Hann varð undrandi, grunaði ekki ástæðuna og spurði:
Hvað gengur á, strákur? Hvílík öskur! Hvað stendur til? Hvers vegna skellir þú hurðum?
Ó, herra, sagði ég, komið, þeir bera líkið hingað!
Hvað? hváði hann.
Ég mætti því hérna upp frá, og eiginkona þess sagði:
Eiginmaður minn og herra, hvert bera þeir þig? Í auma og óhrjálega húsið, á dimma og drungalega staðinn, í húsið þar sem hvorki er borðað né drukkið. Herra, þeir ætla hingað.
(s. 70-71)