Um Málarann:
Þegar Jóhannes Kjarval gefur drengnum Davíð málverk eftir sig á sýningu í Listamannaskálanum 1945 er framtíð Davíðs ráðin. Hann hlýtur að verða listmálari.
Fjörtíu árum seinna er Davið þekktur og dáður málari, verkin hans seljast grimmt, hann er vel stæður og vel giftur. En hann hefur aldrei öðlast þá viðurkenningu menningarpáfanna sem hann þráir og hryllilegt slys, sem ef til vill var Davíð að kenna, varpar dimmum skugga á fjölskyldulífið mörgum árum eftir að það átti sér stað.
Úr Málaranum:
Það klingdi í dyrunum og drukkinn maður kom inn. Kolbrún sneri sér að afgreiðslunni og Davíð gekk inn í salinn þar sem baksturinn fór fram. Stór svartur ofn stóð galopinn og bökunarplöturnar blöstu við honum, vínarbrauð á þeirri efstu sem var dregin út til hálfs. Hanns tóð sem steini lostinn og horfði á ofninn. Hugmynd var að fæðast. Hann heyrði konu sína útskýra fyrir þeim slompaða eitt og annað hvað viðvék því korni sem hin og þessi brauð voru bökuð úr. Hún sýndi alltaf drukknum og fátækum gríðarlega gæsku, jafnvel um of, enda var sem slíkur lýður sækti í hana. Hann heyrði að sá fulli, heltekinn af fegurð hennar, dró samtalið á lagninn. Davið starði á ofninn. Allt umhverfi hans var með einum eð aöðrum hætti tengt myndlist og var um þennan ofn á þessari stundu. Minning um vanmetinn kollega kom upp í hugann. í stríðslok hafði hollenski málarinn Han van Meegeren verið dæmdur til dauða af hollenskum dómstólum fyrir þá sök að hafa selt þjóðargersemar til Þýskalands. Hermann Göring hafði keypt af honum mörg málverk eftir Vermeer og aðra meistara. En van Meegeren bjargaði lífi sínu með því að upplýsa að hann hefði málað öll þessi verk sjálfur. Hann hafði keypt gamlar myndir eftir gleymda málara og skafið litinn af striganum. Málað þar næst falsanir af myndum helstu meistaranna og, til þess að gera nýju málverkin ellileg, bakað þau í ofni við vægan hita, þá þornaði málningin og sprakk svo verkið virtist frá miðöldum. Með þessum fölsunum gekk van meegeren tvennt til. Annars vegar að útvega sér peninga vegna þess að hann var eiturlyfjaneytandi. Hins vegar var hann að hefna sín á menningarklíkunni í Amsterdam sem hafði fyrirlitið hann og verk hans. Þegar hann sagði frá því hvernig þessi verk urðu til, að hann hefði málað þau sjálfur, trúði honum enginn. Ti þess að sanna mál sitt málaði hann van Dyke-mynd í réttarsalnum fyrir framan kviðdóminn.
Það hringlaði í útidyrahurðinni þegar drukkni maðurinn gekk út með brauðið sitt. Kolbrún kom inn í salinn: – Höfnuðu þeir virkilega myndunum? Og þetta voru fjórar bestur myndir sem þú hefur málað.
– Þær eru á Kjarvalsstöðum, ég get ekki farið þangað að sækja þær, svaraði hann.
– Þú verður að ná í myndirnar strax, sagði hún. – Það er niðurlæging að láta þetta helvítis pakk hafa þær undir höndum.
– Hringdu á sendibíl og segðu honum að koma hingað og þá getum við sent bílstjórann eftir þeim.
– Heldurðu að Kjarvalsstaðir afhendi hverjum sem er málverk án þess að hann sýni að hann hafi skriflega heimild til þess að sækja þau?
Davíð gat ekki hugsað sér að búa til skriflegt umboð sem myndi hafna í höndum dr. Bjarna eða annarra í nefndinni.
– Við verðum þá að hringja á undan bílstjóranum. Með því að segja „við“ átti hann við að hún ætti að hringja.
– Hann pabbi kemur klukkan þrjú, sagði hann. – Þá fer ég sjáfl og sæki myndirnar. Farðu barah eim og leggðu þig, elskan. Hún greip um höfuð hans með báðum höndum og færði að andliti sínu, byrjaði að strjúka honum blíðlega um vangann. – Þetta verður allt í lagi, sagði hún. – Þetta verður allt í lagi.
(42-4)