Beint í efni

Meistarinn og Margaríta

Meistarinn og Margaríta
Höfundur
Míkhaíl Búlgakov
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1981
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Skáldsagan Master í Margaríta eftir Míkhaíl Búlgakov í þýðingu Ingibjargar.

Endurútgefin 1993: Mál og menning, Reykjavík.

Endurútgefin 2009: Forlagið, Reykjavík.

Hin kostulega skáldsaga Mikhails Bulgakovs Meistarinn og Margaríta kom fyrst út árið 1966 þótt Bulgakov hafi lokið við að skrifa hana 1940, skömmu áður en hann lést.

Úr Meistaranum og Margarítu

Bólgið augnlok lyftist og auga fullt af þjáningu starði á fangann. Hitt augað var enn lokað.

Pílatus mælti á grísku:

- Það varst þá þú, sem ætlaðir að brjóta niður musterið og hvattir lýðinn til þess?

Við þessa spurningu færðist líf í fangann, óttinn hvarf út augum hans og hann svaraði á grísku:

- Góð ..., aftur brá fyrir hræðsluglampa í augum fangans, enda hafði hann næstum mismælt sig; Foringi, ég hef aldrei á ævinni ætlað að brjóta niður musterið og engan hvatt til að leggja út í slíka vitleysu.
Undrun brá fyrir á andliti ritarans, sem grúfði sig yfir lágt borð og gerði skýrslu. Hann leit upp, en sneri sér strax aftur að bókfellinu.

- Fjöldinn allur af ýmiskonar fólki streymir nú til þessarar borgar til að vera viðstatt hátíðahöldin. Meðal þess eru töframenn, stjörnuspekingar, spámenn og morðingjar, sagði landstjórinn hljómlausri röddu, og einnig lygarar. Þú ert til dæmis lygari. Hér stendur skrifað skýrum stöfum: Hann hvatti til að musterið yrði brotið niður. Fólk hefur borið þessu vitni.

- Þetta góða fólk, sagði fanginn og bætti við fljótmæltur, Foringi, og hélt áfram: hefur aldrei lært neitt og misskilur allt sem ég hef sagt. Ég er meira að segja farinn að óttast að þessi ruglingur eigi eftir að verða langlífur. Og allt stafar þetta af því, að hann hefur rangt eftir mér.

Nú var þögn. Bæði sjúku augun horfðu þunglega á fangann.

- Ég endurtek í síðasta sinn: hættu að þykjast vera geðveikur, þorparinn þinn, mælti Pílatus, lágt og áherslulaust, það litla sem hefur verið skráð af ummælum þínum er nóg til að koma þér í gálgann.

- Nei, nei, Foringi, sagði fanginn og lagði sig allan fram um að sannfæra hann, það er maður sem eltir mig á röndum með geitarskinnsbókfell og skrifar látlaust niður allt sem ég segi. Einu sinni kíkti ég í þessi skrif hans og brá í brún. Ég hafði ekki sagt orð af því sem þar stóð. Ég grátbað hann um að brenna bókfellið, en hann þreif það úr höndum mér og hljóp burt.

- Hvaða maður er það? spurði Pílatus með óbeit í svipnum, og lagði hönd að gagnauga sínu.

- Levi Matteus, sagði fanginn ákafur, hann var tollheimtumaður og ég hitti hann fyrst á leiðinni til Betlehem og tók hann tali á þeim stað þar sem fíkjugarður snýr horninu út á veginn.

(s. 24-25)

Um leið og Anna Ritsjardovna sá að einhver kom inn stökk hún á fætur, fleygði sér á bókarann, greip í jakkaboðunga hans og hristi hann til um leið og hún æpti:

- Guði sé lof! Loks kemur einhver sem þorir! Allir hafa hlaupist á brott, allir hafa svikið! Komum inn til hans, ég veit ekki hvað ég á að gera!

Hún hélt áfram að gráta og dró bókarann með sér inn á skrifstofuna.

Það fyrsta sem bókarinn gerði þegar hann steig inn fyrir þröskuldinn var að missa skjalatöskuna í gólfið. Allar hugsanir snerust við í höfði hans, og fyrir því voru ærnar ástæður.

Við gríðarstórt skrifborð með myndarlegri blekbyttu sátu jakkaföt og skrifuðu með þurrum penna á blað. Jakkafötin voru með bindi, upp úr brjóstvasanum stóð sjálfblekungur, en fyrir ofan hálsmálið var hvorki háls né höfuð, og út úr mansjettunum gægðust engar hendur. Jakkafötin voru niðursokkin í vinnu sína og tóku alls ekki eftir öllum gauraganginum í kringum sig. Þegar jakkafötin heyrðu að einhver kom inn hölluðu þau sér aftur á bak í sætinu og yfir flibbanum hljómaði rödd Prokhors Petrovits, sem bókarinn þekkti mætavel:

- Hvað nú? Það stendur á dyrunum að ég taki ekki á móti neinum.

(s. 179-180)

Fleira eftir sama höfund

Örlagaeggin

Lesa meira

Hundshjarta

Lesa meira