Beint í efni

Örlagaeggin

Örlagaeggin
Höfundur
Míkhaíl Búlgakov
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1989
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Skáldsagan Rokovye jaitsa eftir Míkhaíl Búlgakov í þýðingu Ingibjargar.

“Málið snerist um eftirfarandi. Þegar prófessorinn beindi snillingsauga sínu í linsuna veitti hann því athygli í fyrsta sinn á ævinni að í litskæra deplinum var einn geisli sérlega áberandi. Þessi geisli var hárauður að lit og skarst út úr deplinum einsog lítill oddur, á stærð við nálarodd eða þar um bil.”

Örlagaeggin (1925) er fyndin og furðuleg saga, og er talin eitt besta verk Bulgakovs. Hann hefur reynst forspár um margt og segja má að Rússar hafi lifað skrímslaplágu í heimsstyrjöldinni síðari af þeirri stærðargráðu sem lýst er í Örlagaeggjunum. En það sem hæst ber í sögunni er nútímalegur stíll hennar og dýrleg fyndni.

Úr Örlagaeggjunum

 - Hrikalegt morð á Bronnaja! veinuðu tilgerðarlegar raddir sem flögruðu í ljósamergðinni innan um bílhjól og glampandi bílljós á júníheitri götunni. Hrikaleg pest í hænsnum Drosdovu prestsekkju með mynd af henni! Hrikaleg uppgötvun lífsgeislans hjá prófessor Persikov!

 Persikov hrökk svo óþyrmilega við að hann var næstum orðinn undir bíl á Mokhavaja. Hann hrifsaði til sín eintak af blaðinu.

 - Þrjá kópeka, borgari! hrópaði blaðasalinn, tróð sér síðan inn í mannþröngina á gangstéttinni og hélt áfram að öskra: Rauða kvöldblaðið! Röntgengeislinn uppgötvaður!

 Persikov hallaði sér agndofa upp að ljósastaur og fletti sundur blaðinu. Í vinstra horninu á annarri síðu góndi á hann úr klessulegum ramma sköllóttur karl með brjáluð, ósjáandi augu og slapandi neðrikjálka, listrænt afsprengi Alfreds Bronskís. “V.I. Persikov, sem uppgötvaði hinn dularfulla rauða geisla”, stóð í myndartextanum.

 Neðar á síðunni var grein undir fyrirsögninni: “Leyndardómur á heimsmælikvarða”, og hófst á þessa leið:

 “Fáið yður sæti, sagði hinn virðulegi vísindamaður Persikov vingjarnlega...”

 Undir greininni stóð skýrum stöfum: “Alfred Bronskí (Alonso)”.

 Grænleitt ljós kviknaði yfir þaki háskólans, á festingunni birtust orð úr ljósastöfum: “Talandi dagblað”, og samstundis fyllti múgurinn Mokhavajagötu.

 “Fáið yður sæti”, glumdi allt í einu úr hátalara á þakinu óviðkunnanleg skræk rödd sem minnti á Alfred Bronskí í þúsundasta veldi, “sagði hinn virðulegi vísindamaður Persikov vingjarnlega! Mig hefur lengi langað til að kynna niðurstöður uppgötvunar minnar fyrir öreigum Moskvu...”

(s. 25-26)

Fleira eftir sama höfund

Meistarinn og Margaríta

Lesa meira

Hundshjarta

Lesa meira