Um bókina
Lík finnst frosið fast í ísinn á Langjökli. Það reynist vera af athafnamanni sem hvarf fyrir þrjátíu árum. Umfangsmikil leit bar engan árangur, viðskiptafélagi mannsins sat í varðhaldi um tíma en ekkert sannaðist. Nú er félaginn handtekinn á ný og kallað í Konráð, lögreglumann á eftirlaunum sem rannsakaði málið í upphafi. Það hefur ásótt hann alla tíð og þegar til hans leitar kona með nýjar upplýsingar kemst aftur skriður á þetta óleysta sakamál.
Úr Myrkrið veit
Svanhildi fannst gaman að rifja upp söguna. Franklin var skipherra í breska flotanum og fór í þennan leiðangur með tvö skip sem frusu inni í ísbreiðunni og hurfu með manni og mús. Aður en það gerðist létust þrír af skipverjum hans um borð og voru settir niður á malareyri þarna í sífreranum. Leiðangursmenn héldu síðan ferð sinni áfram. Grafir mannanna þriggja fundust fyrir um þrjátíu árum og þegar þær voru opnaðar kom í ljós að líkin voru einstaklega vel varðveitt og geymdu fágætan fróðleik um sjómannslífið á nítjándu öld. Rannsóknir á líkamsleifum þremenninganna studdu ákveðnar kenningar um helsta vandamálið varðandi gömlu langsiglingarnar og Franklin-Ieiðangurinn þar með. Vitað var að skipverjar í sjóferðum sem gátu tekið meira en tvö eða þrjú ár urðu oft máttlausir og sljóir áður en þeir lognuðust hreinlega út af og dóu án þess að nokkur eiginleg skýring fengist á því. Um það voru mýmörg og vandlega skráð dæmi en menn greindi á um ástæðurnar fyrir þessum undarlega slappleika. Ymsar kenningar urðu til um orsakirnar og meðal annars kom fram sú tilgáta að um blýeitrun væri að ræða. Líkin sem fundust í sífreranum studdu hana. Þegar þau voru krufin sýndu þau einkenni alvarlegrar blýeitrunar. Það passaði við nýja geymsluaðferð matvælaframleiðenda sem var að ryðja sér til rúms á nítjándu öldinni. Niðursoðinn dósamat.
Svanhildur leit niður á líkið þegar hún hafði lokið frásögninni.
Ein af þessum skemmtilegu sögum úr krufningafræðunum, sagði hún. Skipin sigldu stoppfull af dósamat og hann var mengaður vegna þess að blý seytlaði út í matinn úr dósalokunum.
Af hverju ertu að segja mér þetta?
Franklin-leiðangurinn rifjaðist upp fyrir mér þegar þeir komu með Sigurvin niður af jöklinum. Hann minnir mig á skipverjana sem þeir fundu frosna í jörðinni. Það er eins og hann hafi dáið í gær.
Konráð gekk upp að líkinu og horfði lengi niður á það og undraðist varðveislumátt jökulsins.
Við ættum kannski að byrja að jarða fólk uppi á jöklunum, sagði Svanhildur. Flytja kirkjugarðana okkar þangað ef við þolum ekki tilhugsunina um ormétin lík.
Eru jöklarnir ekki smátt og smátt að hverfa?
Því er nú verr, sagði Svanhildur um leið og stórt stykki af ísnum féll í gólfið og brotnaði í þúsund mola.
Konráð ók heim aftur í biksvartri nóttinni og lagðist þreyttur til hvílu en svefninn neitaði að aumka sig yfir hann. Allur þungi málsins rifjaðist upp fyrir honum í andvökunni. Tilhugsunin um Sigurvin í jökulísnum var næstum yfirþyrmandi. Frosið andlitið stóð honum fyrir hugskotssjónum.
Konráð hryllti sig.
Hann gat ekki betur séð en að undarlegt glott léki um varir Sigurvins þar sem hann lá á krufningarborðinu. Þær höfðu verpst eins og ónýtt leður þannig að skein í tennurnar og engu var Iíkara en hann hlægi upp í opið geðið á Konráði til þess að minna á hvað honum hafði mistekist herfilega að leysa málið á sínum tíma.
(18-20)