Beint í efni

Náhvít jörð

Náhvít jörð
Höfundur
Lilja Sigurðardóttir
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Á hvítum vetrarmorgni finnst yfirgefinn flutningagámur í Rauðhólum við Reykjavík. Þegar hann er opnaður blasir hryllingurinn við: fimm lífvana konur sem augljóslega hafa verið fluttar í þessum gámi yfir hafið. Hvernig getur svona lagað gerst og hverjir standa að baki þessari óhæfu? Rannsóknarlögreglumennirnir Daníel og Helena mæta á vettvang og hefjast handa en á meðan sinnir Áróra, vinkona Daníels, öðru máli: Elín frænka hennar er í sambandi við rússneskan mann sem vill endilega að þau gifti sig en virðist hafa óhreint mjöl í pokahorninu … 

Úr bókinni

„Ég hef bara einu sinni á ferlinum verið að því kominn að hætta,” sagði Daníel við lögreglustjóra sem togaði einn af rauðu hægindastólunum sem voru á víð og dreif um skrifstofuna hjá henni til móts við hann og settist niður, svo nálægt honum að hné þeirra snertust næstum því. „Það var rannsókn á húsbruna þar þar sem manneskja brann inni og ég … ég gat ekki hreinsað myndina af líkinu úr huganum eða lyktina. Lyktin var verst.” 

   „Drekktu þetta,” sagði lögreglustjóri um leið og hún otaði að honum bolla sem hún hafði fyllt af kóki. „Sykurinn hressir þig.” Daníel tók við bollanum og drakk helminginn af sætu gosinu. Hann var ekki frá því að það væri sefandi að finna allavega bragðlaukana hreinsast þó að önnur skynfæri hans væru enn bundin við konuna sem hann hafði fyrir tveimur klukkutímum haldið þétt að sér, vafið úlpuna sína utan um og muldrað sefandi að henni hvað eftir annað að hann væri police, að hann væri here to help, í veikri von um að orð hans næðu í gegnum tryllinginn í augum hennar og gegnköldum líkama, og ef það tækist þá hefðu þau einhverja þýðingu yfirleitt. 

   „Mér finnst eins og ég sé að springa,” sagði hann. „Mig langar að fara niður á höfn og garga á tollgæsluna að það þurfi að gegnumlýsa hvern einasta gám sem kemur til landsins. Opna hvern einasta gám og …” Hann rak í vörðurnar þegar minningin um innihald gámsins í Rauðhólunum var allt í einu ljóslifandi fyrir sjónum hans. Líkamar kvennanna, dúðaðir í föt og teppi, sem engan veginn höfðu dugað við vetrarkulda á norðurslóðum í óeinangruðum gámi. 

   „Það væri óskastaða en engan veginn raunhæft, þótt fjárveiting til tollgæslunnar væri tífölduð,” sagði lögreglustjóri. „Þau ná að skoða pínulítið brotabrot af gámunum sem koma til landsins. Þess vegna er okkar starf svo mikilvægt. Við verðum að ná þeim sem standa að þessari andstyggð.” Daníel hristi höfuðið en vissi ekki sjálfur hvort það var til að reyna að hrista af sér orð lögreglustjóra eða minninguna um illa lyktandi snarhrokkið hárið á kollinum sem hann hafði þrýst að brjósti sínu í örvæntingarfullri von um að konan skynjaði einhverja hlýju frá honum. Einhvern vott af mennsku og velvild. 

   „Lyktin …" sagði hann og leit upp og mætti augum lögreglustjóra. „Lyktin af henni og augnaráðið … Ég get þetta ekki. Ég get ekki unnið að þessu máli.” Lögreglustjóri rétti úr sér. 

   „Þú ert einn af mínum reynslumestu mönnum,” sagði hún. „Við þurfum stórt teymi í þetta og ég get beðið yfirlögregluþjón að hlífa þér við að taka ábyrgðarhlutverk, líka af því að þú varst búinn að biðja um frí til að sinna krökkunum þínum, en við þurfum einhvern á borð við þig með þetta. Einhvern sem getur lesið í fólk. Sem hefur þennan djúpa skilning á fólki sem þú hefur. Þessa næmni og samúð.” 

   „Þetta sem þú kallar næmni er aldeilis að vinna gegn mér núna,” sagði Daníel. „Heimurinn er einhvern veginn að verða of … of eitthvað … of mikið fyrir mig. Eftir svona mörg ár í alls konar málum er ég núna bara kominn að mörkunum mínum. Ég ræð ekki við starfið ef það verður verra en þetta.” Lögreglustjóri lagði hönd sína á handlegg hans og þrýsti. 

   „Daníel,” sagði hún og leitaði aftur eftir augum hans. „Það verður ekki verra en þetta. Þetta er eins slæmt og það getur orðið.”

(bls. 25-27) 

 

Fleira eftir sama höfund

Blóðrauður sjór

Lesa meira

Fælden

Lesa meira

Fyrirgefning

Lesa meira

La cage

Lesa meira