Beint í efni

Lilja Sigurðardóttir

Æviágrip

Lilja Sigurðardóttir er glæpasagnahöfundur, handritshöfundur og leikskáld fædd 2. mars 1972. Hún er með stúdentspróf frá Menntaskólanum við Hamrahlíð, einkaritarapróf frá Tile Hill College í Coventry á Englandi og BA próf í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla Íslands. Lilja hefur starfað sem sjálfstætt starfandi sérfræðingur í menntamálum og ritstjóri fagefnis fyrir leikskóla. Hún er nú rithöfundur í fullu starfi og býr við Elliðavatnið ásamt konu sinni, hundi og nokkrum hænum.

Fyrsta bók Lilju, glæpasagan Spor kom út hjá Bjarti árið 2009 og í kjölfarið kom skáldsagan Fyrirgefning árið 2010. Fyrsta leikrit Lilju Stóru Börnin var sviðsett af leikfélaginu Lab-Loki veturinn 2013-2014. Lilja hlaut Grímuna, íslensku sviðslistaverðlaunin, fyrir leikritið. Spennusagan Gildran kom út hjá Forlaginu árið 2015 og á eftir fylgdi Netið árið 2016 og Búrið árið 2017. Þessi þríleikur hefur notið alþjóðlegrar hylli með tilheyrandi útgáfu í fjölmörgum löndum og hefur kvikmyndarétturinn verið keyptur af Palomar Pictures og sjónvarpsþáttaröð upp úr bókunum er í vinnslu. Spennusagan Svik kom út árið 2018 og er spennusaga með pólitísku ívafi. Árið eftir kom fyrsta bókin í nýjum bókaflokki, Helköld sól út og ári síðar framhaldið, Blóðrauður sjór.

Bækur Lilju hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál þar á meðal frönsku, ensku, pólsku, þýsku, arabísku, tékknesku, makedónsku og rúmensku auk norðurlandamálanna.

Höfundavefur Lilju á ensku: http://www.liljawriter.com/