Úr Níu lyklum:
V.
Hann var kominn heim. Handan dulunnar fyrir glugga hans glitti í ljóstíru og flöktandi mynd á sjónvarpsskermi. Þegar ég settist upp í rúminu, sá ég skugga hans bregða fyrir, þar sem hann gekk um herbergið. Ég kveikti ekki ljós, en brölti á fætur og settist fyrir framan blöð mín og formúlur, skellti löppunum upp á borð og horfði út á götu. Það hafði farið að snjóa meðan ég svaf, og stórar flygsurnar féllu undarlega hægt til jarðar. Upp götuna gekk ung kona; mér fannst ég kannast við hana, en kom henni samt ekki fyrir mig. Ég sá hana að vísu ekki vel fyrr en hún staðdæmdist undir daufu ljósi á götuhorninu fyrir ofan tóbaksbúðina. Þá mundi ég líka eftir henni; hún hafði staðið á þessu horni kvöldið sem ég tók eftir því, að vetur var genginn í garð.
„Húkir hún þarna aftur, þessi dækja,“ sagði ég við sjálfan mig. „Hún ætti að fá sér annað horn að húka á og hafa það sem fjærst augliti mínu.“
Hún var klædd þunnum aðskornum kjól og firnaljótri mittiskápu, og var mjög glænepjuleg í snjókomunni.
Í munni mér var vindlabragð; verkur í maga; og þyngsli í höfði. Ég hreyfði mig ekki úr stólnum, heldur horfði á ljósbjarmann frá götunni falla á hálfskrifaða örk á borðinu fyrir framan mig og fætur mína við hlið arkarinnar. Þegar ég leit upp og renndi augunum yfir strætið á glugga andbýlings míns, sá ég mér til nokkurrar furðu, að hann stóð við gluggann með nefið fast upp að rúðunni og starði út.
Á hvað starði hann? Á bakarí Jósefs?
Nei.
Á herbergisglugga minn?
Nei.
Á drykkjurút, sem skakklappaðist syngjandi niður strætið og skildi eftir sig reikul fótspor í snjónum?
Nei, ekki starði hann á drabbarann.
Hann starði án afláts, eins og hann væri að horfa á stórfenglegt listaverk, sem hann hefði árum saman þráð að hafa fyrir augum sér, starði frá sér numinn á hana.
Á hana hverja? er von að menn spyrji. Sjálfur hafði ég allt að því gleymt henni á þessari stundu. Á hana, þar sem hún hímdi í kuldanum undir fölu ljósi auglýsingaskiltis á horninu fyrir ofan tóbaksverslunina. Ég lifnaði allur við og hagræddi mér í stólnum. Illkvitnin, fylgifiskur vanlíðanar minnar, hafði verið vakin; loks hafði gæfan snúist á sveif með henni.
(s. 73-75)