Æviágrip
Ólafur Jóhann Ólafsson fæddist 26. september 1962 í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1982 hélt hann utan til frekara náms og útskrifaðist sem eðlisfræðingur frá Brandeis University í Massachusetts í Bandaríkjunum 1985. Hann hóf störf hjá Sony í Bandaríkjunum strax að loknu námi. Tíu árum síðar var hann kjörinn aðstoðarforstjóri fyrirtækisins og forstjóri margmiðlunardeildar þess. Hann átti meðal annars þátt í að þróa geisladiskinn og undir forystu hans hleypti fyrirtækið af stokkunum PlayStation leikjatölvunni. Árið 1996 hóf hann störf hjá fjárfestingarfyrirtækinu Advanta og var síðan ráðinn annar tveggja yfirmanna Time Warner Digital Media 1999. Hann tók þátt í samningaviðræðum við America Online á vegum fyrirtækisins sem leiddi af sér samruna fyrirtækjanna Time Warner, stærsta netþjónustufyrirtækis heims, og America Online, stærsta fjölmiðlunarfyrirtækis veraldar.
Á námsárunum skrifaði Ólafur Jóhann greinar um atómeðlisfræði sem birtar voru í vísindatímaritum. Fyrsta verk hans, smásagnasafnið Níu lyklar, kom út 1986 og fyrsta skáldsagan, Markaðstorg guðanna, birtist á prenti 1988. Fyrirgefning syndanna, sem út kom 1991, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna sama ár en Ólafur Jóhann hlaut síðan verðlaunin 2006 fyrir bókina Aldingarðurinn, sem er safn tengdra smásagna. Fyrsta ljóðabók Ólafs Jóhanns, Almanakið kom út árið 2015. Skáldsagan Snerting sem kom út árið 2020 var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og hlaut hún Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana. Árið 2024 var kvikmynd Baltasars Kormáks, byggð á Snertingu, frumsýnd og hlaut hún einnig viðurkenningar. Verk Ólafs Jóhanns hafa verið þýdd á fjölda erlendra tungumála.
Auk skáldsagna, smásagna og ljóða hefur Ólafur Jóhann sent frá sér leikritið Fjögur hjörtu sem frumsýnt var í Loftkastalanum 1997. Leikgerð Sniglaveislunnar var frumsýnd hjá Leikfélagi Akureyrar 2001 og hefur einnig verið sett á svið í Bretlandi.
Ólafur Jóhann er kvæntur Önnu Ólafsdóttur og eiga þau tvo syni.
Mynd af höfundi: Jóhann Páll Valdimarsson.
Um höfund
Ólafur Jóhann Ólafsson: Útlagi íslenskra bókmennta?
I
Bókmenntasagan vill gjarnan að skáld og rithöfundar falli að samtíma sínum á einhvern skýranlegan og skiljanlegan hátt. Þegar búið er að flokka og skilgreina höfunda og skipta þeim niður á tímabil er einfaldast að þeir séu ýmist undirlagðir af tískustraumum samtímans, eða andæfi þeim af krafti: allt á sér sinn tíma og stendur í sambandi við hann. Því miður fyrir þá sem skrifa bókmenntasögu er hvorki lífið né bókmenntirnar svo einfalt.
Þegar litið verður til baka yfir bókmenntir níunda og tíunda áratugar síðustu aldar getur þannig ekki talist sérlega líklegt að Ólafur Jóhann Ólafsson þyki eiga samleið með öðrum höfundum sinnar kynslóðar, þótt hann hafi deilt með þeim sviðsljósinu. Á síðustu tveimur áratugum tuttugustu aldar hófst blómaskeið í skáldsagnaritun. Þar fór saman að fram kom ný kynslóð rithöfunda sem hafði ígrundaðri fagurfræði en einkennt hafði nýraunsæi áratugarins á undan og að eldri höfundar módernismans sneru aftur og rituðu aðgengilegri verk en oft áður og nutu meiri hylli lesenda en þeir höfðu áður þekkt. Í fyrri hópnum eru höfundar sem tengdu sig sterkum böndum við hræringar í evrópskri skáldsagnagerð áratuganna á undan, þar mætti nefna höfunda eins og Einar Má Guðmundsson, Einar Kárason, Steinunni Sigurðardóttur, Vigdísi Grímsdóttur og fleiri, þann síðari skipar hin heilaga þrenning íslensks módernisma í sagnagerð, Guðbergur, Svava og Thor. Þetta eru áratugir frumleikans og fjöldavinsældanna. Tilraunamennsku módernismans og lærdómum frá meisturum eins og Marques, Kundera, Eco og Grass var hrist saman við íslenska raunsæishefð af ýmsum toga: útkoman varð blómatími fyrir skáldsöguna, ekki aðeins leysti hún Alistair MacLean og ævisögur útgerðamanna af hólmi á íslenskum metsölulistum heldur varð hún að útflutningsvöru á ný í fyrsta sinn síðan á mektardögum Gunnars Gunnarssonar og Halldórs Laxness.
Ólafur Jóhann Ólafsson deilir samtíma þessara höfunda. Samt eru verk hans í mörgum atriðum frábrugðin þeirra, og kannski viðhorf hans til sagnaskáldskapar einnig. Í þessum skilningi er hann á útjaðri íslenskra bókmennta og næstum útlagi. Þó er hann einn vinsælasti höfundur samtímans, og hefur þegar allt er talið hlotið sinn skerf af lofi gagnrýnenda og umfjöllun.
Ef lýsa ætti þeim mun sem er á afstöðu Ólafs Jóhanns og þeirrar kynslóðar sem hann tilheyrir ekki til sagnaskáldskapar hlýtur lykilorðið að vera frumleiki. Skáldsögur Ólafs Jóhanns leitast ekki við að vera frumlegar í efnistökum eða stíl. Þær eru klassískar raunsæissögur þar sem tekist er á við siðferðileg vandamál. Og í þessu felst ákveðin nýjung í íslenskum samtímabókmenntum þótt það sé hversdagskostur til dæmis í hinum engilsaxneska heimi. Ólafur Jóhann er staddur á svæði sem enginn hafði helgað sér áður í íslenskum bókmenntum sem höfundur aðgengilegra skáldsagna sem eiga brýnt erindi við lesendur, erindi sem er fremur siðferðilegt en fagurfræðilegt. Þetta erindi og vandamálin sem fengist er við væri auðvelt að afskrifa sem húmanískar leifar af horfnum heimi, en það væri einfaldlega hroki og vanvirðing við bæði höfundinn og ekki síður lesendur hans.
En auðvitað er Ólafur Jóhann útlagi í fleiri en einum skilningi. Hann hefur allan sinn rithöfundarferil verið búsettur í Bandaríkjunum þar sem hann tilheyrir í augum flestra hinum glæsta heimi þeirra ríku og framagjörnu. Hann er amerískur bissnessmaður og íslenskur rithöfundur í sama manninum og það hefur bæði orðið til þess að hann hefur verið hafinn til skýjanna og níddur niður í svaðið, jafnvel af sama fólkinu.(1) Vel vitandi að það er í raun og sannleika ómögulegt verður hér reynt að setja þennan ímyndarvanda Ólafs Jóhanns í sviga og reyna þess í stað að rekja nokkra þræði í höfundarverki hans.
II
Fyrsta bók Ólafs Jóhanns nefnist Níu lyklar, smásagnasafn sem kom út árið 1986. Áður hafði hann birt nokkur ljóð en á ljóðagerð hans hefur ekki orðið framhald ef frá eru talin þau ljóð sem ort eru fyrir hönd skáldsagnapersóna.
Sögurnar í Níu lyklum eru mjög hefðbundnar í byggingu og stíl. Sögusviðið tengir þær flestar saman. Líkt og í síðari verkum Ólafs Jóhanns gerast margar sagnanna í Bandaríkjunum, nánar tiltekið í New York. Í baksýn eru sögurnar í Níu lyklum kannski ekki síst athyglisverðar fyrir það hvernig þær birta meginviðfangsefni Ólafs Jóhanns sem höfundar æ síðan. Þetta á við um umhverfið, jafnvel niður í smáatriði eins og götumyndina í sögunni „Úr Lómastræti“ sem birtist seinna sem umhverfi Friðriks Jónssonar og fjölskyldu hans í Markaðstorgi guðanna. Flestar sagnanna hnitast einnig um eina mannlýsingu og klassískasta stílbragð smásögunnar, afhjúpunin, ber þær uppi.
Bestu sögurnar í Níu lyklum eru sögur sem sagðar eru í fyrstu persónu og þar sem sögumaður afhjúpar eigin hroka eins og í sögunni „Úr Lómastræti“ eða tekst á við fornar syndir sem hafa markað líf hans til frambúðar eins og í sögunni „Frægð„. Sameiginlegt nær öllum persónum Ólafs Jóhanns í Níu lyklum er einsemdin. Persónurnar tengjast öðru fólki sjaldnast að neinu marki, einsemd þeirra er gjarnan sjálfssköpuð og þær virðast litla þörf hafa fyrir samneyti við aðra. Jafnvel bregður fyrir andúð á öðru fólki sem jaðrar við mannhatur.
Einsemdin er einnig áberandi stef í skáldsögum Ólafs Jóhanns og hún er bæði viðfangsefni og gildur þáttur í frásagnaraðferð þeirra. Skáldsögur Ólafs Jóhanns eru nær undantekningalaust sagðar í fyrstu persónu eða með eina persónu sem vitundarmiðju. Samskipti við aðra eða samfélagið eru þessum persónum ekki mikilvæg. Þær lifa einar og kljást einar við tilvistarvanda sinn, fortíð sína og samvisku. Í Markaðstorgi guðanna, fyrstu skáldsögu Ólafs Jóhanns sem kom út árið 1988, er frásögnin lögð í munn aðalpersónunni Friðrik Jónssyni, og þótt sjónarhornið víki stundum frá honum virðist hann ábyrgur fyrir frásögninni allri. Líkt og smásögur Ólafs Jóhanns er Markaðstorg guðanna persónulýsing, nánar tiltekið sjálfsskoðun Friðriks eftir að líf hans hefur steytt á skeri. Friðrik er Íslendingur sem eftir guðfræðinám og framhaldsnám í heimspeki tekur við starfi í japönsku stórfyrirtæki sem tengdafaðir hans, ríkur bandarískur lögfræðingur, hefur útvegað honum. Á yfirborðinu eru andstæður sögunnar skýrar. Friðrik er maður hins nýja tíma, einn af guðum markaðstorgsins sem eru allir vegir færir í krafti peninga og hefur vald yfir lífi og örlögum annarra. Hann hefur fórnað sálu sinni, trú og uppruna fyrir fé og líf hans er innantómt. Smám saman hefur hann fengið óbeit á því sem hann gerir, á sjálfum sér og umhverfi sínu. Skýrast birtist þetta í afstöðu hans til konu sinnar sem hann fyrirlítur innilega. Andspænis þessu er lýst lífi Friðriks sem ungs manns í heimspekinámi og sem háskólakennara. Ásamt konu sinni og barni lifir hann hamingjusömu lífi sem einkennist af nægjusemi og metnaði þeirra beggja í gefandi störfum, hans sem heimspekings, hennar sem safnvarðar á listasafni. Æska Friðriks gegnir svipuðu hlutverki sem glötuð paradís. Þó eru þessar andstæður ekki einhlítar og látið er í það skína að veikleikar Friðriks og ásókn í efnisleg gæði hafi fylgt honum frá upphafi.
Markaðstorg guðanna er öðrum þræði spennusaga þótt spennan gufi upp í blálokin, enda reynist sagan hvorki innihalda undankomu Friðriks né tortímingu, þótt hún virðist kannski blasa við. Sagan er fyrst og fremst glíma við siðrænt vandamál, gegnumlýsing manns sem hefur fórnað mennskunni fyrir peninga. Sú spennusaga sem ofin er inn í frásögnina af lífi Friðriks snýst um það hvernig hann reynir að hefna sín á kerfinu sem hefur gert hann að því sem hann er. Hann hefur lengi unnið við að kaupa iðnaðar- og viðskiptaleyndarmál annarra fyrirtækja af óprúttnum millilið, en hyggst hefna sín með því að leka sjálfur upplýsingum um eigið fyrirtæki. En hefnd Friðriks er vonlaus og hlýtur að koma yfir hann sjálfan, þó ekki fyrr en hann hefur fórnað eina vininum sem hann hefur eignast í lífinu til að lengja aðeins í eigin snöru. Það kerfi sem hefur náð valdi yfir Friðriki lætur hann aldrei lausan, fyrr mun það tortíma honum.
Í Markaðstorgi guðanna gengur Ólafur Jóhann ansi nærri þeim heimi sem hann lifði í sjálfur. Heimur fjármálanna í sögunni er spilltur og miskunnarlaus og hver sem kemst í snertingu við hann spillist. Þessar andstæður hreinleika og spillingar, ríkidæmis og einfalds en gifturíks lífs áttu eftir að birtast aftur í verkum Ólafs Jóhanns.
Í næstu skáldsögu hans Fyrirgefningu syndanna sem kom út árið 1991 eru hlutföllin milli spennu og siðferðisglímu nokkuð önnur. Sögumaður þeirrar sögu er ungur Íslendingur í New York sem kemst yfir handrit að æviminningum nýlátins landa síns, Péturs Péturssonar. Pétur Pétursson er um flest fremur ógeðfelld smásál. Hann er auðjöfur, án vina eða fjölskyldu, manneskjurnar eru honum peð sem hann getur skákað til að vild. En þó að Pétur þykist geta hafið sig yfir mennina á hann eitt leyndarmál sem nagar samvisku hans. Sem ungur maður telur hann sig hafa framið glæp og bera ábyrgð á dauða manns. Á stríðsárunum í Kaupmannahöfn hefur Pétur vísað nasistum á ungan Dana sem hann telur vera í tygjum við stúlkuna sem hann elskar.
Afstaða Péturs til glæpsins er tvíræð. Annars vegar nagar glæpurinn hann og kvelur. Hins vegar er eins og hann stæri sig af honum, líti jafnvel svo á að hann hefji hann á einhvern hátt yfir samborgara sína. Hann er það eina sem hann hefur gert annað en að raka saman auði. Fjölskyldu sína hefur hann vanrækt og misst frá sér og vini á hann enga. En það má einnig skoða samband Péturs við glæpinn frá öðru sjónarhorni. Á vissan hátt er glæpurinn og samviskukvalirnar sem hann veldur það eina sem gerir Pétur Pétursson mannlegan. Með því að gangast við glæp sínum og iðrast öðlast Pétur hlutdeild í siðferði annarra. Þannig verður glæpurinn, þótt það kunni að hljóma þversagnakennt, að siðferðilegu akkeri Péturs. Þegar Pétur kemst svo að því að glæpurinn var enginn glæpur, eða hafði a.m.k engar afleiðingar, hrynur sjálfsmynd hans;hann neyðist til að horfast í augu við sjálfan sig sem lítilsigldan mann sem ekkert hefur gert annað en að safna auðæfum.
Fyrirgefning syndanna kom Ólafi Jóhanni eftirminnilega á kortið sem rithöfundi erlendis. Sagan var gefin út í Bandaríkjunum og Englandi undir titlinum Absolution og fékk þar góðar viðtökur. Ensk gerð hennar var um sumt frábrugðin þeirri íslensku. (2) Sú túlkun að Pétur sé brjóstumkennanlegur og samviskukvalir hans fyrst og fremst aðferð hans við að reyna að setja sig á sama plan og aðra með því að játa á sig brot á siðferði þeirra gengur betur upp ef gengið er út frá þeirri útgáfu. Stíllinn á Fyrirgefningu syndanna í enskri útgáfu er einnig um margt frábrugðinn þeirri íslensku, hraðari og beinskeyttari, þetta átti raunar eftir að breytast í stíl Ólafs Jóhanns á íslensku einnig og má velta fyrir sér hvort aðkoma hans sjálfs að þýðingum bóka sinna á ensku hafi haft áhrif á stíl hans sem höfundar á íslensku.
III
Bæði Markarðstorg guðanna og Fyrirgefning syndanna eru alvarlegar sögur. Þótt lesa megi áveðna íróníu inn í Fyrirgefningu syndanna er djúpt á henni og enn dýpra á gamansemi. Með næstu tveimur skáldsögum Ólafs Jóhanns kveður við nokkuð annan tón. Sniglaveislan og Lávarður heims eru léttari og gamansamari sögur með vafningalausari atburðarás sem stundum jaðrar við að vera farsakennd. Í Sniglaveislunni er dregin upp mynd af fundi tveggja manna, stórkaupmannsins Gils Thordersens og barnakennarans Arnar Bergsonar. Gils er skopmynd af manni sem er útblásinn af græðgi í peninga og lífsgæði. Að mörgu leyti svipar honum til annarra ríkra og spilltra persóna í verkum Ólafs Jóhanns nema hvað honum er lýst á gróteskari hátt og fyndnari. Ofát hans, karlagrobb og barnaskapur í baráttunni við höfuðóvin sinn og keppinaut verða hlægileg alveg án þess að vekja nokkurn tíma sérstaka samúð lesandans. Örn reynist búa yfir upplýsingum sem kollvarpa innantómri veröld Gils, en það er vafamál hvort þær bíta á hann eða ekki. Við sjáum aldrei hvort Gils öðlast nýja sýn á sjálfan sig, raunar virðist það ólíklegt. Það er fremur eins og hann geri Örn að skotspæni sínum þótt lesandanum sé ljóst að ofsóknir á hendur honum verði aldrei til annars en að gera Gils enn hlægilegri.
Líkt og Páll Valsson bendir á í ritdómi um Sniglaveisluna í Tímariti Máls og menningar er þar engu líkara en Ólafur Jóhann sé í bókinni að skrifast á við föður sinn og nafna Ólaf Jóhann Sigurðsson en í skáldsögu sinni Bréf séra Böðvars fjallar Ólafur Jóhann eldri um svipað efni, mann sem uppgötvar að hann er ekki faðir barns sem hann hefur alið upp sem sitt og jafnframt að minning hans um konu sína er að hluta til fegruð blekking. (3) En ólíkt Bréfi séra Böðvars verður Sniglaveislan aldrei harmræn. Hún er hreinræktuð gamansaga og persóna Gils er af því tagi sem sennilega er ófær um harm. Hann er einvíð persóna í gamanleik, en öfgarnar í framkomu hans og tali gera hann kómískan.
Lávarður heims, sem kom út árið 1996, sver sig að mörgu leyti í ætt við Sniglaveisluna. Þar segir Tómas Tómasson, Íslendingur sem er búsettur í New York sögu sína. Í upphafi sögu lifir hann einföldu en um margt hamingjusömu lífi með konu sinni og ungum syni. Það breytist allt í einu vetfangi þegar Tómas vinnur risavaxinn happdrættisvinning. Þá kastar hann sér út í líf hinna fínu og ríku, aðeins til þess að uppgötva að ríkidæmið færir honum ekki hamingju heldur þvert á móti. Fjölskylda hans leysist upp og líf hans hafnar í öngstræti. Hann flytur því aftur til Íslands til að reyna að sameina fjölskylduna að nýju og snýr að mestu baki við auðæfunum. Í Lávarði heims vinnur Ólafur Jóhann með svipuð stef og í Markaðstorgi guðanna en allar andstæður eru skýrari. Líf hinna ríku er algerlega innantómt og Tómas mun aldrei verða hluti þess, en hið fátæka og einfalda líf námsáranna annars vegar og Ísland hins vegar eru tákn hins upprunalega, hreina og sanna. Í næstu bókum Ólafs Jóhanns Slóð fiðrildanna og Höll minninganna er áfram fengist við slíkar andstæður, en á mun flóknari og metnaðarfyllri hátt.
IV
Slóð fiðrildanna sem kom út árið 1999 markar um margt tímamót á ferli Ólafs Jóhanns. Henni var betur tekið af gagnrýnendum en dæmi eru um fyrri verk hans og frásagnaraðferð þeirrar sögu er með nokkuð öðrum hætti en í fyrri verkum hans. Slóð fiðrildanna er líkt og margar fyrri skáldsögur Ólafs Jóhanns lýsing á einni persónu og glímu hennar við fortíð sína. Í sögunni lýsir Ásdís Jónsdóttir lífi sínu á Íslandi og í Englandi frá því á árunum fyrir seinni heimsstyrjöld og fram á 7. áratuginn. Inn í sögu hennar fléttast hörmungar síðari heimsstyrjaldar og umbyltingar í íslensku samfélagi á stríðsárunum á eftirminnilegan hátt. Sem ung stúlka flytur hún fyrst til Reykjavíkur og seinna til Kaupmannahafnar og London til að fullnuma sig í matargerðarlist. Þegar hún segir sögu sína rekur hún víðfrægt sveitahótel í Englandi ásamt vini sínum og sambýlismanni, Anthony. Hún hefur ekki komið heim til Íslands síðan á stríðsárunum.
Frásagnaraðferðin í Slóð fiðrildanna er margslungnari en í fyrri verkum Ólafs Jóhanns. Ásdís rifjar ævi sína upp smám saman og ekki alltaf í réttri tímaröð. Í sögunni eru tvö tímaplön sem fléttast saman á margvíslegan hátt. Annars vegar segir af ferðalagi Ásdísar til Íslands eftir að hún hefur fengið að vita að hún er dauðvona, hins vegar rifjar hún sjálf upp þá atburði sem urðu þess valdandi að hún fór í sína sjálfskipuðu útlegð í Englandi. Sagan er fleyguð af fyrirboðum og vísbendingum um erfið örlög Ásdísar sem henni reynist erfitt að rifja upp og segja frá. Líkt og Pétur í Fyrirgefningu syndanna sækir fortíðin á Ásdísi. Hún geymir sársaukafullt leyndarmál sem hún verður að horfast í augu við áður en hún deyr. Bæði frásagnaraðferðin og persónusköpun Ásdísar gera hana þó um margt að margræðari persónu. Samband hennar við fortíðina og við ættlandið er einnig flóknara en persóna í fyrri verkum Ólafs Jóhanns. Hún hefur líkt og þær skorið á flest tengsl við samferðamenn sína aðra en Anthony. Sambúð þeirra er einskonar varnarbandalag gegn ástinni. Hún hefur gefið hana upp á bátinn eftir dauða ástmanns síns, hann lifir í felum með samkynhneigð sína. Tengslaleysi hennar við aðra stafar þó ekki af hroka eða af því að hún telji sig yfir aðra hafna heldur er hún í sífelldri vörn gagnvart heiminum. Hún gefur ekki færi á sér og leyfir engum að nálgast sig, enda hefur hún verið særð djúpu sári. Ferðalag Ásdísar til Íslands er þó ekki heimkoma í eiginlegum skilningi eða ferð á vit upprunans. Heimkynni Ásdísar eru miklu fremur í Englandi í þeim kastala sem hún hefur reist sér þar, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Ferðin til Íslands er nauðsynleg til að hún geti snúið aftur þangað og fengið frið í dauðanum.
Spurningar um sekt og sakleysi í Slóð fiðrildanna eru einnig áleitnari og flóknari en í mörgum fyrri verka Ólafs Jóhanns. Ásdís er að vísu fórnarlamb styrjaldar, en hún hefur einnig átt þátt í eigin ógæfu sjálf, þess vegna er glíma hennar við fortíðina fyrst og fremst persónuleg og ábyrgðinni verður ekki varpað á aðra. Líf Ásdísar hefur verið ein samfelld barátta við að halda fortíðinni í skefjum og afneita henni. Þessi barátta hefur gert hana harða og komið í veg fyrir að hún tengist öðru fólki eða hleypi því nærri sér. En hún getur ekki farið með beiskju sína og óuppgerð mál í gröfina. Ferðalagið til Íslands og upprifjunin, sem m.a. fer fram í gegnum skrif, eru nauðsynleg til að hún sættist við líf sitt og þær ákvarðanir sem hún hefur tekið. Af þessum sökum verður frásögn Ásdísar spennandi og einkar sannfærandi. Hún leynir ekki lesandann upplýsingum frásagnarinnar vegna eða til að skapa ódýra spennu, heldur vegna þess að það er henni of sársaukafullt að rifja atburðina upp umsvifalaust.
Matur og dýrar veigar hafa lengi gegnt mikilvægu hlutverki í verkum Ólafs Jóhanns. Í Sniglaveislunni verða sniglar og aðrir sælkeraréttir að tákni fyrir hvort tveggja snobb Gils Thordarsonar og ruddaskap hans. Árlegar veislur sem hann heldur sjálfum sér eru honum í raun ekkert annað en afsökun til að fara á ærlegt fyllerí og éta eins og svín. Dálæti Péturs Péturssonar á fínum vínum og mat í Fyrirgefningu syndanna birtir einnig hégómleik hans og yfirlæti. Í Slóð fiðrildanna leikur matargerð lykilhlutverk, en á mjög ólíkan hátt. Að vísu er þekking Ásdísar á matargerð og hótelmenningu eitt af því sem gerir hana hrokafulla og verður til þess að hún lítur niður á aðra og ráðskast með þá. En matargerðin er henni einnig ástríða og ævisaga hennar fær á sig blæ þroskasögu listamanns. Hún helgar sig matargerðinni algerlega og fórnar möguleikanum á persónulegri ást eða hamingju. Rekstur veitingahússins og listsköpunin í matargerðinni verða hæli hennar í heiminum og þannig hluti af þeim múr sem hún hefur reist milli sín og heimsins. Viðhorf Ásdísar til sjálfrar matargerðarlistarinnar ber keim af viðhorfi listamanns til verka sinna. Matargerð hennar byggir á innblæstri og sprettur beint úr sálarlífi hennar og endurspeglar það. Þannig tengir hún t.d. saman skrif sína og matargerð:
Ég ætla líka að reyna að halda áfram þessu pári mínu. Mig langar jafnvel að reyna að setja á blað einhverjar hugleiðingar um matargerð, því ég hef oft verið beðin um uppskriftir og ráðleggingar, en sjaldan látið verða af því að setja neitt á blað nema sjálfri mér til minnis. Ástæðan er eflaust sú að ég hef löngum haft ímugust á öllum tilhneigingum til að beita formúlum og vísindalegri nákvæmni við matargerð. Mér hefur líka fundist maturinn sjálfur koma því best til skila sem mér býr í brjósti á hverjum tíma og sé ekki hvernig ég á að koma orðum að þeim kenndum. Þar að auki finnst mér einhver hroki í nákvæmum uppskriftum og kann illa við að segja fólki fyrir um hvernig það eigi að haga sér við matargerð.
[…] Stundum elda ég snigla í hunangi af þeirri ástæðu einni að ég hef séð býflugur flögra um í sólskininu; stundum minnir kvakandi fugl á grein mig á að setja bláber eða rifsber í sósu sem ég er að útbúa; stundum hreyfir vindurinn tjöldin fyrir litla glugganum í horninu hjá mér og þá finnst mér ég mega til með að baka kanilperur með kálfakjötinu sem ég er með í höndunum. Hvers vegna? Flutti golan mér ilm af kryddi frá fjarlægum löndum? Færði hún mér skilaboð frá einhverjum sem var að hugsa fallega til mín? (s. 82)
Viðhorf Ásdísar til listarinnar minnir um margt á rómantíska listamenn og einsemd hennar er einn þáttur í þessu viðhorfi. Til að helga sig listinni algerlega verður hún að fórna möguleikanum á hamingjuríku einkalífi, skera á öll náin tengsl við aðra og gerast útlagi.
Einn útlaginn enn í verkum Ólafs Jóhanns og sá dularfyllsti er Kristján Benediktsson, aðalpersóna Hallar minninganna, nýjustu skáldsögu hans. Einnig hann þarf að fást við atburði í fortíð sinni sem hvíla þungt á honum. Það sem á hinn bóginn er sérstakt við Kristján Benediktsson er að hann er ráðgáta bæði fyrir sjálfum sér og lesandanum. Frásagnaraðferðin er í meginatriðum sú sama og í Slóð fiðrildanna. Kristján rifjar upp sögu sína smám saman þar sem hann er staddur í Ameríku, fjarri fjölskyldu sinni og ættingjum á Íslandi sem hann hefur yfirgefið.
Það líf sem hann yfirgefur á Íslandi virðist á yfirborðinu vera allt að því fullkomið. Ungur hefur hann gifst góðri konu sem jafnframt er erfingi stórrar verslunar sem stendur höllum fæti. Með viðskiptaviti sínu tekst Kristjáni að rétta verslunina við og verða auðugur maður. Hann ferðast mikið og kemur sér upp góðum verslunarsamböndum í Ameríku þegar verslun við Evrópulöndin verður erfið í fyrri heimsstyrjöldinni. En dag einn hverfur þessi maður að heiman frá konu og börnum, heldur til Ameríku og lætur aldrei frá sér heyra aftur. Þegar hann rifjar upp sögu sína mörgum árum seinna er hann orðinn þjónn milljónamæringsins Williams Randolph Hearst sem Orson Welles notaði sem fyrirmynd að Citizen Kane í samnefndri bíómynd.
Samhliða því sem Kristján fylgist með veldi húsbónda síns molna sundur rifjar hann upp þessa sögu sína. Á yfirborðinu er einföld skýring á hvarfi Kristjáns. Hann á ástkonu í Bandaríkjunum og fer á vit hennar. Þegar því ævintýri lýkur hefur hann brotið allar brýr að baki sér og getur ekki snúið til fyrra lífs.
En ræturnar að hvarfi Kristjáns liggja dýpra, og þá koma í ljós nokkuð óvænt tengsl við fyrri verk Ólafs Jóhanns: Kristján er af lágum stigum og þegar hann kynnist konu sinni, kaupmannsdótturinni, í Kaupmannahöfn freistast hann til að gera meira úr menntun sinni á sviði viðskipta en innistæða er fyrir. Þessi litla lygi magnast svo í huga hans sjálfs eftir að hann er kominn heim og skynjar að ættingjar hennar líta hann hornauga og velgengni hans í viðskiptum megnar ekki að slá á þá tilfinningu að hann sé óvelkominn í heimi hinna vel stæðu. Í Bandaríkjunum er honum á hinn bóginn tekið með kostum og kynjum. Þar lifir hann í samræmi við stöðu sína, býr á fínu hóteli og fær snemma viðurnefnið íslenski baróninn.
Líf hans heima á Íslandi er byggt á smávægilegri blekkingu sem í huga hans sjálfs kastar skugga yfir líf hans allt. Í persónuleika Kristjáns er brestur. Hann er of stoltur til að geta komið hreint fram við eiginkonu sína og fjölskyldu. Að lokum hverfur hann á braut frekar en að horfast í augu við sjálfan sig. Þannig er Kristján fangi eigin stolts. Þegar hann hittir konu sína er hann þjónn en þykist vera í viðskiptanámi. Örlögin haga því svo til að hann endar aftur sem þjónn vegna þess að hann hefur aldrei gengist við sjálfum sér. Þannig er stéttamunurinn sem er ein af ástæðum þess að Kristján unir aldrei fullkomlega sáttur við líf sitt á Íslandi fyrst og fremst í huga hans sjálfs. Ólíkt t.d Tómasi Tómassyni í Lávarði heims getur hann ekki snúið aftur til upprunans, og ólíkt Ásdísi í Slóð fiðrildanna tekst honum aldrei að sigrast á sjálfum sér. Bresturinn í sálarlífi hans verður honum sjálfum aldrei ljós og hann hverfur úr sögunni jafn mikil ráðgáta og í upphafi.
V
þegar litið er yfir verk Ólafs Jóhanns Ólafssonar í heild eru nokkur stef sem birtast þar aftur og aftur með sígandi þunga, allt frá fyrstu smásögum hans til nýjustu skáldsögunnar. Aðalpersónur verka hans eru jafnan Íslendingar sem búa erlendis, ávallt í hinum enskumælandi heimi. Þeir tengjast á einhvern hátt ríkidæmi og hástéttalífi, en samsamast því aldrei alveg. Flestar persóna Ólafs Jóhanns eiga það líka sameiginlegt að glíma við fortíð sína, frásögn þeirra tekur oftast á sig form upprifjunar, þar sem leyndarmál og gamlar syndir leika lykilhlutverk. Í þessum verkum er einstaklingurinn í forgrunni. Persónur í sögum Ólafs glíma einar við fortíð sína og lausnina er hvergi að finna nema innra með þeim sjálfum. Mannsskilningur hans er þannig í fullkomnu samræmi við klassískt raunsæisform sagnanna. Sjálfið er ekki splundrað og tætt í anda margra módernískra eða póstmódernískra skáldverka. Möguleikinn á sátt og lausn hins tilvistarlega vanda er alltaf fyrir hendi.
Í verkum sínum glímir Ólafur Jóhann einnig við vandamál sem ekki hafa verið nærtæk öðrum íslenskum samtímahöfundum. Áhrif auðs og valda á þá sem komast í snertingu við slík gæði. Þannig er þrátt fyrir allt ljóst samhengi milli Ólafs Jóhanns Ólafssonar viðskiptajöfurs og rithöfundar með sama nafni, en það samhengi er nokkuð þversagnakennt. Verk hans og gengi þeirra hér á landi og erlendis hafa gefið hugtakinu metsöluhöfundur nýja merkingu á íslensku. Verk hans eru aðgengileg fjöldanum, spennandi, án þess að bera keim af billegri afþreyingu. En inntak verkanna sjálfra stefnir hins vegar í þveröfuga átt. Þar er lagt upp með einfaldan en afdráttarlausan boðskap um hógværð og heilleika. Um hreinskiptni og trúnað við upprunann, en þó fyrst og fremst ábyrgð einstaklingsins á eigin örlögum í fortíð og nútíð.
Aftanmálsgreinar
1. Páll Valsson hefur fjallað um þennan vanda á yfirvegaðan hátt í ritdómi um Sniglaveisluna: Sjá Pál Valsson: „Feður og synir.“ TMM 4/1995, 122-24. Þar segir m.a.: „Ólafur Jóhann Ólafsson varð fyrir ?eirri hremmingu sem kornungur höfundur að fá um margt einstakan meðbyr. Hann uppskar bæði lof og prís gagnrýnenda og alþýðu fyrir fyrstu verk sín og fágæta metsölu. Og hin jákvæðu viðbrögð hafa bara orðið sterkari með hverri bók og Fyrirgefning syndanna (1991) mun vera í hópi mest seldu skáldsagna á Íslandi.“
2. Sjá Jón Yngvi Jóhannsson: „Skáldsaga skiptir um ríkisfang. Um Fyrirgefningu syndanna á tveimur tungumálum.“ TMM 2/97, 22-39.
3. Raunar er Ólafur Jóhann ekki einn um að skrifa um rangfeðranir. Þær eru áberandi viðfangsefni í íslenskum nútímabókmenntum og mætti velta fyrir sér hvað liggur að baki. Hér má minna á Íslenska drauminn eftir Guðmund Andra Thorsson, Stúlku með fingur eftir Þórunni Valdimarsdóttur og fleiri sögur.
© Jón Yngvi Jóhannsson, 2002.
Greinar
Almenn umfjöllun
Melkorka Tekla Ólafsdóttir: „Ólafur Jóhann Ólafsson. Viðtal við höfund leikritsins [Rakstur]“
Leikskrá Þjóðleikhússins 2002/2003-9. Rakstur.
Ólöf Rún Skúladóttir: „Ólafur í Advanta“
Frjáls verslun, 59. árg., 3. tbl. 1998, s. 18-21
Vilmundur Hansen: „Ólafur semur allan daginn : nærmynd“
Frjáls verslun, 67. árg., 9. tbl. 2005, s. 46-48
Um einstök verk
Aldingarðurinn
Rúnar Helgi Vignisson: „Smáfuglar fagrir: staldrað við nokkrar smásögur frá liðnum árum“
Spássían 2011, 2. árg., vetur, bls. 36-9.
Beth Kephart: „Reikningsskil“ (ritdómur)
Skírnir 2008, 182. árg., vor, bls. 246-9.
Sigrún Davíðsdóttir: „Tólf tilhlaup“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 2007, 68. árg., 3. tbl. bls. 104-8.
Þorgerður E. Sigurðardóttir: „Ástin og tíminn“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Fyrirgefning syndanna
Jón Yngvi Jóhansson: „Skáldsaga skiptir um ríkisfang. Um Fyrirgefningu syndanna á tveimur tungumálum“
Tímarit Máls og menningar, 58. árg., 2. h. 1997, s. 22-39
Lávarður heims
Árni Óskarsson: „Lyklar og tungl“
Tímarit Máls og menningar, 58. árg., 1. h. 1997, s. 121-123
Markaðstorg guðanna
Árni Óskarsson: „Freistingar Friðriks“
Tímarit Máls og menningar, 50. árg., 2. h. 1989, s. 260-264
Meistaraverkið og fleiri sögur
Rúnar Helgi Vignisson: „Smáfuglar fagrir“
Spássían, 2. árg. (vetur) 2011, s. 36-39
Níu lyklar
Páll Valsson: „Gott byrjendaverk“
Tímarit Máls og menningar, 48. árg., 3. h. 1987, s. 384-387
Rakstur
Melkorka Tekla Ólafsdóttir: Viðtal við höfund verksins, Ólaf Jóhann.
Leikskrá Þjóðleikhússins 2002/2003-9. Þjóðleikhúsið, 2003.
Sakramentið
Jón Yngvi Jóhannesson: "Að trúa á það vonda og það góða" (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 79. árg. 3.h. 2018, s. 122-125
Slóð fiðrildanna
Victoria Ann Cribb: „Confronting the past“
Iceland Review, vol. árg., 4.h. 2000, s. 78
Sniglaveislan
Kristján Björnsson: „Kokkálun snigla“
Kirkjuritið, 61. árg., 1. tbl. 1995, s. 59
Páll Valsson: „Feður og synir“
Tímarit Máls og menningar, 56. árg., 4. h. 1995, s. 122-124
Snjór í paradís
Þorvaldur S. Helgason: „Ástir og örlög efri millistéttarinnar“
Tímarit Máls og menningar. 85. árg., 4. tbl. 2024, s. 127-131
Verðlaun
2020 - Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana fyrir bestu íslensku skáldsöguna: Snerting
2008 – O. Henry Award: fyrir smásöguna Apríl úr bókinni Aldingarðurinn
2007 – Riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu: Fyrir ritstörf og framlag til kynningar á íslenskum málefnum
2006 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Aldingarðurinn
1997 - Davíðspenninn: Lávarður heims
Tilnefningar
2020 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Snerting
2004 – IMPAC Dublin bókmenntaverðlaunin: Höll minninganna
2002 – IMPAC Dublin bókmenntaverðlaunin: Slóð fiðrildanna
1991 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Fyrirgefning syndanna
Snjór í paradís
Lesa meiraSnjórinn kom illa við Kristínu sem óttaðist að hann kynni að setja flugið úr skorðum. Hún gat ekki stillt sig um að hafa orð á því við Harald sem virtist hins vegar engar áhyggjur hafa heldur beinlínis njóta þess að fylgjast með flygsunum svífa til jarðar, ekki síst þegar snjókoman þéttist og vindurinn fór að eiga við hana. Kristín spurði starfsfólk flugfélagsins hvort hætta væri á seinkun, bæði þegar þau innrituðu sig og líka þegar þau voru komin að hliðinu.Játning
Lesa meiraTveir íslenskir námsmenn, Elísabet og Benedikt, kynnast í Leipzig skömmu fyrir hrun múrsins.Snerting
Lesa meiraKristófer hyggst loka veitingastað sínum í miðbæ Reykjavíkur vegna veirunnar, eftir áratuga farsælan rekstur. Sama dag berst honum óvænt vinarbeiðni á Facebook – og tíminn nemur staðar. Það er líkt og áratugirnir gufi upp og hann hverfi aftur um fimmtíu ár, standi við læstar dyr um morgun í London – þegar hann uppgötvaði að þau voru farin. Hann leggur af stað í ferð yfir þveran hnöttinn. Og um leið heldur hann á vit minninga um ástir, fornar og nýjar, leynd og eftirsjá eftir því sem hefði getað orðið, hugsjónir og veruleika, en undir kraumar spurning sem hefur leitað á hann í hálfa öld: Hvers vegna fóru þau án þess að kveðja?Innflytjandinn
Lesa meiraThe Sacrament
Lesa meiraOne station away
Lesa meiraSakramentið
Lesa meiraEndurkoman
Lesa meiraAlmanakið
Lesa meira
The Sacrament
Lesa meiraOne station away
Lesa meira