Um Ógæfusömu konuna
Skáldsagan An Unfortunate Woman: A Journey eftir Richard Brautigan í íslenskri þýðingu Gyrðis Elíassonar. Sagan er síðasta skáldverk Brautigans og var hún gefin út að honum látnum.
Úr Ógæfusömu konunni
Ég veit ekki hversvegna ég vildi fá þessa ljósmynd af mér og kjúklingnum á Hawaii. Þráhyggja er undarlegt fyrirbrigði, og verður manni sífellt umhugsunarefni.
Það rigndi með köflum morguninn sem ljósmyndin var tekin. Það hafði verið slagviðri kvöldið áður, og enn hélt áfram að rigna morguninn eftir. Satt að segja taldi ég ekki að veðurskilyrði mundu leyfa myndatöku, en sá sem tók ljósmyndina var bjartsýnismaður. Hann hafði líka haft upp á kjúklingi.
Ég veit ekki hversu auðvelt er að finna kjúklinga á Hawaii, en þetta framtak hreif mig. Ég er að sjálfsögðu ekki að tala um kjúkling sem er tilbúinn á steikarpönnuna.
Ég er að tala um lifandi kjúkling, með fiðri og öllu saman.
Ljósmyndarinn hringdi í mig.
“Við skulum kýla á þetta,” sagði hann.
“Kýla á þetta,” þýddi að raungera hugaróra eins manns.
Við höfðum áhyggjur af því að lenda í monsúnlegu úrhelli sem mundi skerða þá birtu sem fyrir var, af því ljósmyndin varð að vera tekin utandyra til að sýna umhverfið á Hawaii.
Það var enginn tilgangur með ljósmyndinni af mér og kjúklingnum ef Hawaii léki ekki sitt hlutverk á myndinni. Mig langaði til að láta innramma myndina og hengja hana upp á vegg á búgarði mínum í Montana.
Fólk ætti eftir að heimsækja mig þangað og kannski mundi einhver spyrja út í þessa undarlegu mynd af mér og kjúklingnum, sem héngi óræð á veggnum. Kannski mundi fólkið skynja að það væri saga á bak við ljósmyndina. Það yrði heillandi að sjá hvernig það myndi koma forvitni sinni í orð. Kannski segði það: “Áhugaverð ljósmynd,” og ef ekkert svar fengist: “Hvar var hún tekin?”
“Á Hawaii.”
“Er þetta kjúklingur?”
“Já.”
(s. 23-24)