Bókin er framhald sögunnar Karítas án titils sem út kom árið 2004
Úr Óreiðu á striga:
Speglarnir voru rifnir niður af veggjum. Aðeins sá sem var í holinu fékk að vera á sínum stað. Herma vildi fá myndir eftir mig í staðinn. Fjórar stórar og sex litlar, pantaði hún. Hefði ég verið í ham, á miðri braut í ferli ákveðins myndskeiðs, hefði það verið hægðarleikur fyrir mig að afgreiða pöntunina en hugur minn hafði sett punkt aftan við ljóðrænu abstraksjónina sem ég hafði fengist við, þeim kafla lífs míns var lokið og svo virtist sem ekkert mundi taka við, sögunni einfaldlega lokið. Samt reyndi ég, var öll af vilja gerð til að leggja mitt af mörkum til hins nýja heimilis eins og þær hinar, náði mér í trönur, striga, liti, pensla, klessti einhverju á strigann, reyndi að muna eftir myndum sem ég hafði málað síðustu árin úti og höfðu fengið svo góðar undirtektir hjá fólkinu og gagnrýnendum en að apa eftir sjálfum sér vakti einungis upp andúð mína á eigin hugmyndaleysi, mér varð flökurt við að horfa á strigann.
(bls. 305)