Beint í efni

Kristín Marja Baldursdóttir

Æviágrip

Kristín Marja Baldursdóttir fæddist 21. janúar 1949 í Hafnarfirði. Hún lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1970 og B.A.-prófi í þýsku og íslensku frá Háskóla Íslands 1991. Hún lagði stund á þýskunám við Goethe Institut í Bremen í Þýskalandi 1979-1980, sótti kennaranámskeið í Danmörku 1985-1986 og blaðamannanámskeið í Þýskalandi 1992. Hún kenndi við grunnskóla Reykjavíkur á árunum 1975-1988. Árið 1988 skipti hún um starfsvettvang og hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu þar sem hún starfaði til ársins 1995.

Fyrsta skáldsaga Kristínar Marju, Mávahlátur, kom út 1995. Eftir henni hefur verið unnin leikgerð sem sett var upp hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1998. Samnefnd kvikmynd Ágústar Guðmundssonar byggð á sögu Kristínar var frumsýnd í Reykjavík haustið 2001 og hlaut fjölda verðlauna á Eddu-hátíðinni sama ár (Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunin). Kristín Marja hefur síðan sent frá sér fleiri skáldsögur, smásagnasafn og skrifað ævisögu Vilborgar Dagbjartsdóttur skáldkonu, Mynd af konu, sem út kom 2001.

Kristín Marja er búsett í Reykjavík. Hún er gift og á þrjár uppkomnar dætur.

Forlag: Mál og menning.

Mynd af höfundi: Einar Falur Ingólfsson.

Ritþing um Kristínu Marju Baldursdóttur í Gerðubergi 31. október 2009