Beint í efni

Passamyndir

Passamyndir
Höfundur
Einar Már Guðmundsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

„Síðustu daga hefur fjallið leitað á mig eða öllu heldur sumarið á fjallinu.“

Þannig hefst frásögn Haraldar af löngu liðnu sumri þegar hann hélt til Noregs að vinna og ætlaði svo að ferðast um, lenda í ævintýrum og kynnast heiminum; upprennandi skáld þyrsti í lífsreynslu. En það gleymdist að gera ráð fyrir ástinni sem setur strik í alla reikninga …

Úr Passamyndum

En svo var ég líka búinn að birta þessi ljóð í Lesbók Morgunblaðsins og í tímaritinu Útrætt mál. Við gáfum það út nokkrir félagar og rákum gallerí. Eg var ekki mikið í rekstrinum, en ég hafði skrifað grein í fyrsta heftið, um T.S. Eliot og Ezra Pound, og var svo með aðra í undirbúningi, um fútúrismann, sérstaklega Majakovskí.

Með mér í þeim málum, tímariti og galleríi, voru aðrir vinir mínir: Aron Ó., Geir Ólafs og Tryggvi Þór. Ég ætti frekar að segja að ég hafi verið með þeim. Ég reikna ekki með að þeir tékki sig inn í þessa sögu þó að full ástæða væri til. Þessir þrír vinir mínir mynduðu hinn pólinn í lífi mínu, á móti Gunna og Palla, þó að þeir þekktu þá líka og ekkert væri svart og ekkert hvítt í þeim efnum. Ekki þá heldur miklu frekar seinna þegar horft er yfir sviðið.

Ég var líka búinn að skrifa greinar um hljómsveitina Sex Pistols, um situationismann og franska spekinginn Fourier og útópíska sósíalismann. Situationisminn var náskyldur súrrealismanum. Greinarnar birtust í Stúdentablaðinu. Í Logann, málgagn Samtakanna, hafði ég skrifað um Ameríku, um Bob Dylan og Allen Ginsberg.

Ljóðin í Lesbókinni og tímaritinu birtust skömmu áður en ég fór út. Ég var því kominn með stimpilinn: Hann ætlar að verða skáld. Það fannst mér miklu stærra mál en að hafa skrifað greinar, því þá kom næsta spurning: En er hann skáld?

Til að svara þeirri spurningu eða sleppa við að svara henni var fínt að fara burt, vera ekki á landinu, þó að það væri ekki ástæðan fyrir því að ég fór burt, og auðvitað hafði enginn áhyggjur af þessu nema ég.

Eg var því að hugsa um fleira en Spánverjann og hvíta jakkann hans, því hvað ef ég var ekki skáld? Hvað ef eftir mig lægi aðeins ein miðlungsgóð ljóðabók, jafnvel svo léleg að ég reyndi að fjarlægja hana síðar úr bókahillum á heimilum, einsog sagt var að Halldór Laxness gerði við gömlu ferðabækurnar frá Sovétríkjunum, lofrulluna um Sovétskipulagið og Stalín, sem hann gerði svo upp við löngu seinna, í Skáldatíma.

Skáldatími kom út um svipað leyti og Bítlarnir voru að slá í gegn en hún sló ekki í gegn hjá þeim sem höfðu hrifist af Halldóri Laxness vegna róttækni hans og hrifningar af sósíalismanum.

Hvað ef ég ætti ekki fleiri orð eftir í pennanum og hætti að skrifa? Þá lægju þessi byrjandaljóð eftir mig einsog yfirlýsing um að ég vildi verða eitthvað sem ég varð svo ekki.

(53-4)

 

Fleira eftir sama höfund

Fotspor på himmelen, Drömmer på jord, Navnlöse veier

Lesa meira

Bankastræti núll

Lesa meira

Orme nel cielo

Lesa meira

Et vous, vous continuez à écrire, non?

Lesa meira

Les voies du Seigneur

Lesa meira

Et vous, vous continuez à écrire, non ?

Lesa meira

Englar alheimsins á kóreönsku

Lesa meira

Hvíta bókin

Lesa meira

Navnløse veje

Lesa meira