Beint í efni

Riddarar hringstigans

Riddarar hringstigans
Höfundur
Einar Már Guðmundsson
Útgefandi
Almenna bókafélagið
Staður
Reykjavík
Ár
1982
Flokkur
Skáldsögur

Mál og menning, 1995

Úr Riddarar hringstigans:

1. Klaufhamarinn hans pabba

Á meðan ég hleyp niður nýbónaðan stigann með klaufhamarinn hans pabba í annarri hendinni situr Óli á olíutanknum fyrir framan húsið.
 Áður en ég veit af hef ég lamið Óla með klaufhamrinum í hausinn.
 Óli æpir.
 Óli skelfur.
 Hausinn á Óla breytist í marga hausa. Óli hefur fjóra hausa.
 Síðan glúkk: Upp úr burstaklipptu höfðinu skýst kúla, lítið hvítt egg, og tárin virðast hlaupa á undan Óla innum kjallaradyrnar á húsinu.
 Ég stend einn eftir fyrir framan olíutankinn sem er grafinn niður í jörðina. Aleinn með klaufhamarinn í hendinni. Með augunum sprengi ég tankinn í loft upp. Eldgular glæringar, stjörnuljós upp úr jörðinni.
 Helvítis andskotans.
 Ég bölva klaufhamrinum.
 Ég bölva pabba sem á klaufhamarinn.
 Ég bölva Óla fyrir að vera með hausinn fyrir.
 Ég bölva búðinni sem selur klaufhamra.
 Ég bölva. Ég bölva.
 Niður með klaufhamarinn!
 Hendur mínar. Ég og klaufhamarinn.
 Ég er hvergi.
 Höndum mínum hef ég fleygt upp á svalir.
 Klaufhamarinn gref ég niður.
 Ég er hvergi.
 Olíutankurinn hreyfir sig ekki þó ég hafi sprengt hann í loft upp með augunum. Engir fiðlutónar úr þakrennunni, bara brak.
 Þegar ég heyri óþolinmóða rykkina í svalahurðinni veit ég að mamma hefur fengið símleiðis upplýsingar um málið.
 Gegnum höfuð mitt heyri ég hvað Jóna mamma hans Óla hefur sagt. Óli, í gegnum höfuð mitt heyri ég mömmur okkar tala í síma.
 Ég er ekki til.
 Ég er hvergi.
 Í kryppu á bak við öskutunnulok í ruslaportinu held ég að ósk mín rætist; í draumi flytja öskukallarnir mig burt. Burt burt með hinu ruslinu.
 Ég er ekki til.
 Upp að eyju rekur græna flösku; þegar prinsessan með slæðurnar losar tappann er ég reykstrókur. Á einu andartaki breytist ég í risa. Öskutunnulokið er fljúgandi teppi.
 Nú er mamma komin út á tröppur. Úr ruslaportinu finn ég hvernig hún skimar í kringum sig. Hún skimar í kringum sig með alla þyngd sína í augunum.
 Þetta er vonlaust mamma langar mig til að æpa. Bak við öskutunnulok hef ég afneitað tilveru minni.
 Ég er ekki til.
 Ég er hvergi.
 Eina sönnunargagnið gegn mér er klaufhamarinn. Hann hef ég grafið. Nú keppast ormarnir við að afmá fingraför mín. Óli, þú ert bara að ljúga. Með söltum tárum hefur þú klagað mig; já ég bara spyr síðan hvenær hefur framburður grátandi barna verið marktækur? Ég sendi dómstólunum afrit af sál minni.
 Ég er ekki til.
 Ég er hvergi.
 Jóhann Jóhann kallar mamma, sona Jóhann kondu strax! Já það er ég Jóhann Pétursson sem heiti Jóhann. Mamma er að kalla í mig.
 Rödd hennar endurómar í gluggum húsanna, skríður niður tröppurnar, inní ruslaportið til mín sem sit í kryppu bak við öskutunnulok.
 Nei mamma þú verður að kveðast á við rödd þína í einrúmi.
 Ég heyri ekki í þér. Ég svíf á öskutunnulokinu yfir hnöttinn.
 Þegar mamma hefur kallað í mig dágóða stund leggja töflurnar af stað niður tröppurnar.
 Jóhann!
 Ég heyri.
 Og skömmu síðar pikkar hún í mig með gulum teppabankara. Ég skríð undan öskutunnulokinu, upp nýbónaðan stigann, hundrað prósent lifandi vera.
 Ég er til.
 Lokaður inní herbergi.
 Biðin eftir pabba.
 Ég er til.

(s. 9 - 11)

Fleira eftir sama höfund

Fotspor på himmelen, Drömmer på jord, Navnlöse veier

Lesa meira

Bankastræti núll

Lesa meira

Orme nel cielo

Lesa meira

Et vous, vous continuez à écrire, non?

Lesa meira

Les voies du Seigneur

Lesa meira

Et vous, vous continuez à écrire, non ?

Lesa meira

Englar alheimsins á kóreönsku

Lesa meira

Hvíta bókin

Lesa meira

Navnløse veje

Lesa meira