Beint í efni

Sandárbókin. Pastoralsónata

Sandárbókin. Pastoralsónata
Höfundur
Gyrðir Elíasson
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2007
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina:

Fráskilinn maður sest að í hjólhúsabyggð og hyggst einbeita sér að því að mála tré. Hann hefur orðið fyrir ýmsum skakkaföllum í lífinu og dvöl hans í þessari sérkennilegu byggð er öðrum þræði hugsuð til að freista þess að öðlast hugarró. Ýmislegt reynist þó standa í veginum.

Úr Sandárbókinni:

Ég hef alltaf kunnað vel við mig í skóglendi. Það gerir mér dálítið erfitt fyrir á þessu landi, þar sem skógar eru fáir og smáir. En skógurinn hérna er nógu stór til að týna sér í honum, og um hann liggja margir dularfullir og skuggsælir stígar. Þessi skógur hefur verið að vaxa hægt og hljótt í skugga eldfjallsins áratugum saman, nánast án þess að nokkur maður tæki eftir.
Undireins sem smástrákur sótti ég í trjálundi, fór langar leiðir einsamall út fyrir bæinn þar sem ég bjó, til að sitja í litlum reit með kræklóttum birkihríslum og stundum þurfti að sækja mig þangað á sumarkvöldum af því ég kom ekki heim. En foreldrar mínir vissu hvar mig væri að finna og pabbi kom á Buickbílnum og gekk inn á milli lágra trjánna og kallaði nafn mitt þangað til ég kom út úr mosagrónu rjóðri og læddi hendinni í lófa hans. Bíllinn var grænn, og mér fannst alltaf að hann væri þannig af því pabbi væri líka mikið fyrir skóginn. Hann skammaði mig aldrei fyrir að koma ekki heim í kvöldmat eða háttinn, leiddi mig bara orðalaust að þessum stóra ameríska bíl og svo ókum við hægt af stað heimleiðis. Útvarpið í bílnum var lágt stillt og hendur pabba héldu þétt um hvítt stýrið. Sætin höfðu líka verið hvít, en það var búið að setja yfir þau grátt áklæði til að hlífa þeim, því hann notaði bílinn líka í vinnunni sinni.
Núna, áratugum síðar, fer ég út úr hjólhýsinu á kvöldin þegar ég er búinn að reyna að mála, og geng upp í skóginn. Ég fer stíginn undir Klettafellinu þegar grænblárri slikju slær á skóginn framundan, og heyri fuglasönginn hljóðna smám saman í greinaþykkninu undir nóttina. Mig er farið að langa til að mála tré, þótt ég gæti aldrei fangað þau á blað eða striga líkt og rússneski skógarmálarinn Ívan Shiskín, sem dró ljóst og hulið líf trjánna inn á hvítan flötinn í ótal myndum sem eru jafn lifandi enn í dag og þegar hann málaði þær fyrir hundrað árum. Hann hlýtur að hafa staðið hjá trjánum fyrst og strokið þeim og gert einhvern leyndan samning við þau.
Ég heyri Sandána kliða í grenndinni, aðeins spölkorn handan við þéttstæða trjástofnana, og það er sterkur blómailmur í lofti. Þetta er einsog að vera kominn í örstutta utanlandsferð, og allar barnabækurnar um skógana rifjast upp; skógana sem ég sá í anda þegar ég las þessar bækur í þá daga og hélt að slíkt skóglendi mundi sjálfkrafa gera mig hamingjusaman. En það hefur ekki gerst, þótt ég hafi komið í marga skóga síðan. Eiginlega hef ég safnað skógum, alveg frá því pabbi þurfti að sækja mig í græna bílnum á kvöldin. Ég hélt að trén mundu með greinum sínum taka utan um mig, lækna mig af margskonar andlegum kvillum. Að sjálfsögðu var mjög barnalegt að halda þetta, en satt að segja held ég enn í þessa von.
Á stígnum mæti ég hjónum á kvöldgöngu og kinka til þeirra kolli. Þau erum með hjólhýsi ekki langt frá mér, en ég hef aldrei talað neitt við þau og breyti ekki út af því í þetta sinn. Ég held áfram göngunni lengra inn í skóginn. Lágt fellið yfir mér, með klettabeltum sínum, er orðið næstum fjólublátt. Sá sem reyndi að mála það í þessum lit yrði bannfærður fyrir hreina tilfinningasemi.
Kannski er ég að vona að ég sjái rauðklæddu konunni bregða fyrir. Samt er ég farinn að efast um að hún sé til. Um daginn gerði ég mér ferð yfir á tjaldsvæðið og spurði gæslumanninn um hana. Hann kannaðist ekki við lýsingu mína og horfði undarlega á mig á meðan.

(s. 27-29)

Fleira eftir sama höfund

Guðmundur Frímann

Lesa meira

Gula húsið

Lesa meira

Søvncyklen

Lesa meira

Søvnhjulet

Lesa meira

Tregahornið

Lesa meira

The Stone Tree

Lesa meira

Smásögur og ljóð í Wortlaut Island

Lesa meira

Ljóð í Antología de la poesía nórdica

Lesa meira

Ljóð í Moderne islandske dikt

Lesa meira