Beint í efni

Skandar og einhyrningaþjófurinn

Skandar og einhyrningaþjófurinn
Höfundur
A.F. Steadman
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Barnabækur

Um bókina

Skandar Smith er þrettán ára og hefur alltaf þráð að verða einhyrningsknapi. Að verða einn af þeim útvöldu sem fá að unga út sínum eigin einhyrningi, tengjast honum lífstíðarböndum, þjálfa saman og keppa um sóma og heiður; að verða hetja.

En þegar draumur Skandars virðist ætla að rætast tekur lífið óvæntari og óhugnanlegri stefnu en hann hefði getað ímyndað sér. Dularfullur og ógnvekjandi óvinur hefur rænt máttugasta einhyrningi Eyjunnar – og þegar ógnin færist nær kemst Skandar að leyndarmáli sem getur haft hræðilegar afleiðingar fyrir hann …

Búið ykkur undir ólíklegar HETJUR, frumefnaTÖFRA, loftbardaga, ævaforn leyndarmál, kappreiðar og GRIMMÚÐUGA EINHYRNINGA.

Úr bókinni

Það munaði litlu að Skandar tæki til fótanna í hina áttina. Mjög litlu. Einhyrningar voru algjörlega, stranglega bannaðir á Meginlandinu. Undir öllum kringumstæðum. Það var í Samningnum – ein mikilvægasta reglan. Samt stóð einn þeirra hér, í garðinum við Sunnuhæðarblokkina í Margate. Konan – knapinn – skálmaði sjálfsörugg í átt að skepnunni. Í návígi virtist einhyrningurinn risastór og hreint ekki vingjarnlegur. Hann fnæsti, krafsaði í jörðina með risastórum hófi og sveiflaði hvítum hausnum fram og til baka. Hárbeitt hornið virtist mun hættulegra en það hafði sýnst á skjánum. Til að bæta gráu ofan á svart var dýrið blóðugt um kjálkana.
   „Hvað var ég búin að segja þér um þann ósið að éta öll smádýr sem þú finnur?“ rumdi í konunni og hún ýtti til hliðar með fætinum einhverjum leifum sem Skandar vonaði innilega að væru ekki af appelsínugula kettinum í íbúð 211.
   Ótti og hrifning tókust á í huga Skandars þegar hann sá raunverulegan einhyrning í fyrsta sinn með beraum augum. „Viltu vera svo væn að segja mér hvað er í gangi? Þú – þetta – hann –“  Skandar benti á einhyrninginn og gat varla stunið upp orði „á ekki að vera hérna.“
   Einhyrningurinn pírði blóðhlaupin augun og gaf frá sér lágt urr þegar Skandar tók til máls. Konan strauk hálsinn á honum.
   „Ég meina,“ sagði Skandar ofurlágt, „ég veit ekki einu sinni hvað þú heitir.“
   Konan dæsti. „Ég heiti Agatha. Og þetta er heimskautasvanur – ég kalla hann Svan. Og nei, ég er ekki frá Knapasambandi Meginlandsins.“ Hún færði sig nær Skandar.
   Hann hörfaði aftur á bak.
   Agatha sló út höndunum. „Þú treystir mér ekki, það er skiljanlegt.“
   Skandar missti út úr sér hljóð sem var blanda af hósta og hlátri. „Auðvitað treysti ég þér ekki! Þú hringdir í skólann til að koma í veg fyrir að ég færi í prófið og nú segirðu að ég sé samt að fara til Klakstöðvarinnar? Af hverju leyfðiriðu mér ekki bara að taka prófið, hefði það ekki verið einfaldara en,“ hann benti á Heimskautasvaninn „allt þetta?“
   „Þú hefðir fallið á prófinu, Skandar.“
   Skandar fannst hann standa á öndinni. „Hverngi í ósköpunum getur þú vitað það?“
   Agatha dæsti aftur. „Ég veit að þetta er ruglingslegt. En ég sver,“ dökk augun blikuðu, „að ég vil þér ekki illt. Ég vil bara fara með þig til Klakstöðvarinnar í kvöld svo að þú getir reynt þig við dyrnar í fyrramálið. Eins og hinir.“
   „En af hverju ertu að hafa fyrir þessu?“ spurði Skandar ákveðinn. „Ef ég hefði fallið á prófinu mun mér hvort eð er ekki takast að opna dyrnar, er það nokkuð? Þú ert búin að brjóta alla reglur með því að koma með einhyrning hingað – og til hvers?“
   „Prófið virkar ekki alveg eins og þú heldur,“ tautaði Agatha. „Gleymdu því sem þér hefur verið kennt, reglurnar eiga ekki við um þig. Þú ert … sérstakur.“
   Sérstakur? Þessu trúið Skandar varla. Hann hafði aldrei verið sérstakur á ævinni, af hverju ætti það allt í einu að byrja núna?

(s. 52-53)

Fleira eftir sama höfund

Skandar og draugaknapinn kápa

Skandar og draugaknapinn

Ævintýrið um Skandar og einhyrningana heldur áfram. Skandar hefur uppfyllt drauma sína og er orðinn einhyrningaknapi og þjálfari. En ógnin er aldrei fjarri og þegar hann og félagar hans hefja sitt annað ár á Eyjunni blasir við þeim ný og ófyrirséð ógn. Getur Skandar komið í veg fyrir sjálfseyðingu Eyjunnar, áður en það er of seint fyrir þau öll?
Lesa meira