Beint í efni

Skaparinn

Skaparinn
Höfundur
Guðrún Eva Mínervudóttir
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Skáldsögur


Um bókina:

Sveinn hefur helgað sig þeirri list að smíða fagrar og vandaðar kynlífsdúkkur. Hann býr einn og hefur lítil samskipti við umheiminn. Eftir mikla  vinnutörn lítur hann út um gluggann og sér Lóu þar sem hún bisar við að skipta um dekk. Sveinn finnur sig knúinn til að aðstoða hana og býður henni inn til sín. Í kjölfarið dregst hann með ófyrirsjáanlegum afleiðingum inn í fjölskyldumál Lóu og tekst um leið á við eigið líf.


Úr Skaparanum:

Kassinn hefði rúmað að minnsta kosti þrjár svona dúkkur en þar var ekki nema ein, á floti í hvítu frauðplasti, hafsjó af litlum kúlum sem litu út eins og nýfallið haglél og leituðu upp á stilltar hendurnar og loddu við kjólinn. Húðin næstum jafn hvít og frauðplastið, hárið slétt og tinnusvart, andlitið einkennilega kunnuglegt og bleikar varirnar örlítið aðskildar.

Lóa þóttist greinilega finna skjálftann í hönd sinni sem var þó stöðug að sjá þegar hún teygði hana fram til að snerta annað augað. Það var úr gleri og kalt viðkomu en allt annað en kalt og dautt útlits. Hún sem hafði kviðið fyrir að mæta brostnu augnatilliti gat nú ekki annað en hryllt sig yfir að það skyldi þvert á móti vera svo lifandi að augun virtust hreyfast og augnalokin bifast, með svörtum, sveigðum augnhárum. Hún snerti líka munninn á henni og fann að það vantaði í hana tennurnar en plastefnið fyrir innan gaf mjúklega eftir, alveg eins og leggöng hinna sem héngu úr loftinu, þótt leggöng væru kannski ekki beinlínis réttnefni. Undarleg tilhugsun að hún skyldi vera tannlaus, því gelgjuleg fyllingin í andlitinu gaf það sannarlega ekki til kynna.

Kjóllinn, úr bleiku, hálfgagnsæu silki með mjóum hlírum yfir axlirnar, féll í mjúkum boga yfir brjóstin sem dúuðu þegar þau voru snert, örlítið þéttari í sér en náttúruleg fyrirmynd þeirra. Undir silkinu sást móta fyrir brúski af svörtum skapahárum og geirvörtum sem voru bleikar en ekki húðlitar eins og á ófullgerðum systrum hennar.

Lóa undraðist hvað rassinn var mikill og lærin breið. Dúkkan í kassanum var bogadregnari og kvenlegri en flestir líkamar af holdi og blóði.

(29-30)

Fleira eftir sama höfund

Allt með kossi vekur

Lesa meira

Rencontres

Lesa meira

Les pieds de la libraire

Lesa meira

Il circo dell arte e del dolore

Lesa meira

The Creator

Lesa meira
útsýni

Útsýni

Sigurlilja er ung kona „sem passar ekki inn í normið“, eins og móðir hennar segir, og gædd óvenjulegri gáfu sem einfaldar ekki líf hennar.
Lesa meira

Essay on Happiness (brot)

Lesa meira

Haraldur gastrósóf og Margrét

Lesa meira