Beint í efni

Yosoy: Af líkamslistum og hugarvíli í hryllingsleikhúsinu við Álafoss

Yosoy: Af líkamslistum og hugarvíli í hryllingsleikhúsinu við Álafoss
Höfundur
Guðrún Eva Mínervudóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Skáldsögur

Um Yosoy

Einnig gefin út í kilju 2006.

Á alþjóðlegri ráðstefnu um sársauka hittir Madame Louise de Roubaix doktor Ólaf Benediktsson. Hún hrífst af framgöngu hans og sér að hann er kjörinn til þess að reka vafasöm erindi hennar á Íslandi. Í gamalli ullarverksmiðju við Álafoss hefur óvenjulegt fjölleikahús búið um sig. Miklar sögur fara af þeirri óhugnanlegu starfsemi sem þar fer fram og sum atriðin hljóma líkt og kraftaverk. Leyndarhula hvílir þar yfir öllu og áður en Ólafur veit af er hann sjálfur orðinn hluti af sýningunni.

Úr Yosoy

Á leiðinni upp á svið tók Gunnar þétt um öxlina á Jóa og sagði: Njóttu hennar, drengur. Þær eiga eftir að verða óteljandi en þá fyrstu upplifirðu aldrei aftur.

Blóðið í Jóa fór að ólga þegar hann heyrði þessi orð og hann langaði að treina stundina en það var ekki hægt; Andrés sviðsmaður var þegar búinn að kynna þá með sínum ofsafengna hætti. Hann tók stundum að sér að vera kynnir þegar Guðrún var ekki í rétta skapinu.

Jói hefði heldur kosið að láta Guðrúnu kynna sig til leiks - það var mun meiri klassi yfir henni en Andrési - en hún var víst í einhverri lægð ef marka mátti orðróminn. Sjálfur sá hann engan mun á henni en hin virtust hafa um fátt annað að tala en þessa lægð Guðrúnar. Hann var dálítið sár út í hana, að hún skyldi endilega þurfa að fá einhverja kvenlega hormónaútrás einmitt núna á þessum tímamótum í lífi hans og sögu fjölleikahússins.

Hann leit niður eftir förðuðum líkama sínum, á skýluna með hlébarðamynstrinu sem hann hafði sætt sig við til málamynda, úr því að ekkert skárra var í boði.

Gunnar var svo ókunnuglegur með málninguna framan í sér; hann var farðaður þannig að hann virtist gamall og útlifaður en í þessari nálægð var hann aðallega ljótur - falinn bak við brún strik og gráa skugga.

Jói varð allt í einu hræddur. Því hafði hann ekki búist við. Hræðslan kom svo óvænt að hún magnaði sjálfa sig upp og hann varð hræddur við hana. Hræddur um að hún boðaði eitthvað illt, hræddur um að koma upp um sig og verða sér til skammar og allt í einu - djöfulsins djöfull, maginn herptist saman og hendurnar urðu ískaldar - hræddur um að Gunnar fipaðist. Gunnar gerði aldrei mistök, ekki á æfingum, en sýning var ekki það sama og æfing. Sýningar lifðu sínu eigin lífi. Sýningar voru náttúruafl sem tuggði listamenn og spýtti þeim út úr sér, umbreytti þeim, lék sér að örlögum þeirra af fullkomnu tillitsleysi.

Nú voru þeir næstum komnir inn á sviðið - Gunnar hálfu skrefi á undan - og Jói hataði hræðsluna í sjálfum sér. Hann hataði að hafa ekki algert vald yfir líkamanum, hataði að vera uppfullur af glymjandi hjartslætti og heitu blóði sem nú hafði breyst úr kyrrlátum læk í beljandi fljót. Hann hægði á sér, fann að axlirnar voru komnar upp undir eyru og leit á Gunnar.

(s. 185-186)

Fleira eftir sama höfund

Ljúlí ljúlí

Lesa meira

Essay on Happiness (brot)

Lesa meira

Skaparinn

Lesa meira

Pendant qu’il te regarde tu es la Vierge Marie

Lesa meira

Smásaga í Wortlaut Island

Lesa meira

Allt með kossi vekur

Lesa meira

Il circo dell arte e del dolore

Lesa meira

The Creator

Lesa meira