Um bókina
Miklar hamfarir eru í uppsiglingu. Himinninn yfir Íslandi leiftrar og undarlegir sviptistormar geisa. Á bak við tjöldin ríkir glundroði og líkin hrannast upp.
Brá er einstæð móðir á skilorði sem býr hjá ölkærum afa sínum. Hún hefur snúið baki við nornaskapnum og reynir að lifa „venjulegu“ lífi. Ekkert hefur spurst til móður hennar, miðilsins Bergrúnar Búadóttur, en sex ár eru liðin frá því hún steig yfir í heim vættanna. Líf beggja tekur stakkaskiptum þegar gamall andstæðingur krefur Brá um dýrmætan grip sem þó enginn nema Bergrún veit hvar er niðurkominn. Í kjölfarið hefst atburðarás sem leiðir mæðgurnar í ærna svaðilför.
Fyrri bækur úr bókaflokknum Handan hulunnar eru Víghólar, Sólhvörf og Nornasveimur. Í Skuld ráðast örlög Bergrúnar og Brár.
Úr bókinni
„Brá. Þetta er algjört fíaskó. Ung að árum hafðirðu þurft að ganga í gegnum ótrúlegustu hluti. Ég held að þú hafir ekki vitað í hvorn fótinn ætti að stíga sem gamla erkinornin eflaust nýtti sér. En ég tel mig þekkja þig ágætlega og þú vilt öllum vel þótt þú sýnir það ekki alltaf. Eins og mamma þín. Annars hefði hún ekki starfað með Launung. Ef hugarangrið verður erfitt á næstu dögum hefurðu vin til staðar.“
„Já. Einmitt. Já, takk.“ Ég þakka honum síðan snautlega fyrir, kveð og um leið og ég hef skellt á brest ég í grát. Spilahópurinn spyr einskis, ég fæ bara faðmlög.
„Þetta er rosalegt,“ segir Lauf. „Væri kannski sniðugt að ég spáði fyrir þér? Svo þú rennir ekki alveg blint í sjóinn. Það verður samt enginn sannleikur, frekar túlkunaratriði og þú getur undirbúið þig andlega.“
Ég segi það ekki saka en spyr þó: „Skiptir máli að lyfið sé enn virkt? Dempar það eitthvað?“
„Nei,“ svarar völvan. „Lyf skipta engu máli. Með rúnunum tengist ég ekki yfirnáttúru þinni eða huga, heldur þínum stað í veröldinni.“
Hán sækir rúnapoka, kveikir á reykelsi, vísar mér til sætis á eina sessuna við stofuborðið, sest á móti mér, tekur í hönd mína, tuldrar forn orð fyrir munni sér, kastar rúnaristum steinvölum og beinum á gólfið og reynir að lesa í hvernig það raðast.
Lauf starir nokkra stund, setur lófa á enni og hristir höfuðið. „Þetta getur ekki verið.“
„Hvað þá?“
„Sjáðu.“ Hán bendir niður.
Ég sé engar rúnir. Hvert einasta bein, steinvala og trjákubbur hefur lent á þann veg að engar rúnir vísa upp og því ekkert hægt að lesa úr þeim.
„Sérðu þá ekkert?“ spyr ég. „Finnurðu ekki fyrir neinu?“
„Nei. Eða jú. Ég finn fyrir engu. Ég sé ekkert. Ekkert nema myrkur. Eins og þú sért ekki til staðar í þessari veröld. Eða verðir ekki til staðar. Eða eitthvað. Ekki taka mark á því sem ég segi.“
„Prófaðu aftur,“ bið ég.
Lauf endurtekur leikinn, heldur í hönd mína, fer með orðin og kastar rúnunum.
Það nákvæmlega sama gerist. Engar rúnir vísa upp.
„Nei, hættu nú alveg!“ Hán sprettur á fætur og iðar í sporunum.
Mér er hætt að standa á sama. „Hvað þýðir þetta eiginlega?“
„Ég veit það ekki.“ Lauf horfir fast á mig en patar svo frá sér hendi. „Æ, hafðu samt ekki áhyggjur af þessu. Ekki láta þetta trufla þig. Þetta hefur örugglega enga merkingu. Við erum öll orðin dauðþreytt. Förum í háttinn. Frikki, Lísa, við þrjú getum búið um okkur í stofunni.“
Völvan drepur málinu á dreif með því að baksa við að breiða úr teppum og láta sem ekkert hafi í skorist. Ég sé samt að hán hefur töluverðar áhyggjur af mér.
Samt sem áður hefur varla mikið upp á sig að velta sér upp úr misheppnuðum spádómslestri. Ég þarf á hvíld að halda.
(s. 75-77)