Beint í efni

Sorgarmarsinn

Sorgarmarsinn
Höfundur
Gyrðir Elíasson
Útgefandi
Dimma
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Gyrðir Elíasson leggur hér lokahönd á sagnaþríleik sem hófst með Sandárbókinni og var síðan fram haldið í Suðurglugganum, en báðar þær bækur fjölluðu með áleitnum hætti um líf og störf listamanna, önnur um málara en hin um rithöfund.

Sorgarmarsinn segir af manni sem öðrum þræði fæst við textagerð en hallar sér þó aðallega að tónlistinni og hefur fundið sér athvarf í litlu þorpi á Austfjörðum. Táknræn og sérstæð frásögn af sköpun, orðleysi og einskonar pattstöðu í flóknu samspili lífs og listar.

Úr bókinni

Það er sumarbjart kvöld, fjöllin standa á höfði í voginum við þorpið. Ég sit úti á stéttinni framan við húsið og sötra kaffi í síðustu geislum kvöldsólarinnar. Mér dettur í hug að semja lag sem ég gæti kallað Sólarlag. Samstundis stend ég upp af stólnum, fer inn og næ í minnisbókina, sest síðan aftur fyrir utan dyrnar og krota á gulleit blöðin. Í hvert sinn sem ég kaupi mér minnisbók, byrja ég á því að strika í hana nótnalínur út í gegn með reglustiku. Ef mögulegt er hef ég tegundina Moleskine, sem ég kalla stundum „molskinnsbók" með sjálfum mér. Var ekki talað um molskinnsbuxur í gamla daga? Fyrir löngu skrifaði ég víst auglýsingaklausu um Moleskine, en er sem betur fer alveg búinn að gleyma hvernig hún var. Hvað um það - moldvarpan kemst þangað líka.
   Neðan frá bryggjunni berst glaumur frá fólki, það er einhver hafnarhátíð skilst mér, og hávaðinn frá fólkinu berst mér hingað líkt og undarlega falskur en þó á vissan hátt heillandi kórsöngur. Það er eitthvað miðaldalegt við þessa óma. Ég hripa niður allt sem ég heyri, og andartak er eins og veröldin sé bara fjölbreytilegur tónblær, ekkert annað.
   Meðan ég er að skrásetja það sem loftið færir mér, kemur maður ranglandi upp aflíðandi brekkuna, neðan úr þorpinu. Mér sýnist að hann hafi verið að koma af eina barnum sem þar er, því hann er töluvert reikull í spori. Ég lít upp og horfi andartak á hann, held svo áfram að skrifa í molskinnsbókina á hnjám mér. Ég hef brauðbretti úr eldhúsinu undir henni svo það sé auðveldara að skrifa. Maður kemur upp að grindverkinu, sem er öllu lægra og laslegra en það sem er fyrir aftan húsið.
   „Góða kvöldið," segir hann.
   „Já, gott er það," segi ég frekar þurrlega og lít aftur upp sem snöggvast, geri mig svo álútan að nýju. Ég ætla ekki að lenda í hrókasamræðum hérna núna, meðan háflæði er í tónunum.
   „Hvar er Andrés?" spyr hann.
   Dettur fólki ekkert annað í hug en að spyrja um Andrés, þegar það sér mig í þessu húsi? Hverskonar lykilpersóna er hann í þessu þorpi, umræddur móðurbróðir konunnar minnar, sem þó er svo sjaldan hér núorðið?
   Af hverju spyr enginn um Jóakim?
   „Hann er fyrir sunnan," svara ég eftir nokkra stund, krota nokkur skástrik og dulspekilega þríhyrninga í skrifblokkina, bara til að þykjast vera að gera eitthvað mikilvægt, og halda manninum í hæfilegri fjarlægð.
   „Hann gat drukkið, hann Andrés," segir hann. Það er aðdáun í rödd hans.
   „Ég efa það ekki," segi ég, og raddblær minn nálgast nú eyðimerkurskilyrði.
   Maðurinn, sem er á miðjum aldri (í þorpi eins og þessu eru flestir á því reki - það er engin endurnýjun lengur) og þreklegur að sjá, virðist nú átta sig á því að ég nenni allst ekkert að tala við hann. Ég hef grun um að hann sé sjómaður, og lítið fyrir eyðimerkur og þorsta sem ekki er hægt að slökkva. Hann réttir úr sér og segir við mig þykkum rómi að skilnaði: „Ég er viss um að þú getur ekkert drukkið."
   Svo bandar hann hendi í átt til mín og reikar burt, í vesturátt, meðfram grindverkum hinna húsanna, sem flest eru nýmáluð og glampandi í kvöldbirtunni. Svona lágvaxinn og kubbslegur minnir hann mig helst á súputening undir sól að sjá, stútfullur af innibyrgðri orku sem fær útrás þegar hún losnar út í vökva.

(bls. 29-32)

 

Fleira eftir sama höfund

Die Hunde

Lesa meira

Antennen

Lesa meira

Die Sommerferien

Lesa meira

Ein Holzfisch

Lesa meira

Ein Flügelmensch

Lesa meira

Poesia 136

Lesa meira

Inferno

Lesa meira

Gula húsið

Lesa meira