Beint í efni

Steinninn

Steinninn
Höfundur
Ragnheiður Gestsdóttir
Útgefandi
Björt
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Hún Steinunn Sumarliðadóttir hefur boðið til veislu, enda á hún sjötugsafmæli og því ber að fagna. Á svona tímamótum er til siðs að líta yfir farinn veg en óvænt afmælisgjöf verður til þess að Steinunn kýs að rífa af sér alla fjötra síns fyrra lífs og fljúta á vit hins óvænta.

Í farteskinu eru minningarnar, allar sögupersónurnar sem hafa gert henni lífið bærilegra og svo auðvitað númerið á bankareikningnum.

Steinninn er ólík fyrri skáldsögum Ragnheiðar Gestsdóttur. Framan af var hún þekktust fyrir barna- og unglingabækur sínar en síðustu ár hefur hún vakið athygli sem glæpasagnahöfundur. Steinninn fjallar um Steinunni, um þorpið og heiminn, lífið og tilveruna, uppreisn, útþrá og sólskinsblettinn í fjallinu.

Úr bókinni

   - Lokaðu augunum!
   Hún leyfir honum að leiða sig nokkur skref, full eftirvæntingar. Hann er að fara með hana inn í austurhluta garðsins, hinum megin við bílskúrinn. Getur verið að þau hafi keypt handa henni gróðurhús? Vita þau kannski að hún hefur verið að gæla við þá hugmynd að koma sér upp litlu gróðurhúsi til að skýla smáplöntunum í þessum eilífa næðingi sem hér er? Hún man ekki eftir að hafa minnst á það við neitt þeirra. Og hún hefði væntanlega tekið eftir því ef verið væri að keyra hingað með eitthvað svoleiðis ... og þó, bílskúrinn skýlir fyrir innsýn í þennan hluta af garðinum ...
   Það er langt síðan hún hefur leitt hann Fúsa. Það hefur örugglega ekki gerst síðan hann var smástrákur og höndin á honum var lítl og hlý í lófa hennar. Nú týnist hennar hönd næstum í greip hans. Hún verður mjúk í hjartanu og finnur hvernig brosið lyftir munnvikunum.
   - Allt í lagi, nú máttu opna augun!
   Hún horfir lengi áður en hún skilur hvað það er sem stendur fyrir framan hana á grasflötinni. Og þegar hún loks skilur það, þá vill hún ekki skilja. Brosið deyr hægum dauðdaga.
   - Sigfús. Þetta er steinn. Þetta er legsteinn.
   - Já, finnst þér hann ekki flottur? Við pöntuðum fínustu gerð, hann er alveg eins og steinninn sem við keyptum á leiðið hans pabba ... sko, það er allt þarna nema auðvitað ... ég meina, búið að grafa í hann, sko að öðru leyti ... en það er allt innifalið. Engar áhyggjur ... þegar þar að kemur, sko ...
   Hún horfir í kringum sig, hægt. Þau standa þarna, börnin hennar, standa þarna á vorgrænum grasblettinum með eftirvæntingarsvip, bíða eftir að hún þakki þeim fyrir gjöfina. Þakki þeim fyrir að hafa keypt handa henni legstein. Að hafa keypt það eina sem hana vantaði, það eina sem ... hvað hafði hann sagt? Sem kæmi örugglega að notum.

(s. 18-19)

Fleira eftir sama höfund

Fortellerstein

Lesa meira

Ef væri ég söngvari

Lesa meira

Leikur í talvi

Lesa meira

Ekki lengur Lilli

Lesa meira

Valdi og Vaskur

Lesa meira

Leikur á borði

Lesa meira

Gegnum glervegginn

Lesa meira

Myndin í speglinum

Lesa meira

Sværdbæreren (hljóðbók)

Lesa meira