Beint í efni

Stórfiskur

Stórfiskur
Höfundur
Friðgeir Einarsson
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Skáldsögur

um bókina

Íslenskur hönnuður, búsettur á meginlandi Evrópu ásamt konu og dóttur, fær það verkefni að hanna merki fyrir þekkt sjávarútvegsfyrirtæki. Hann slær tvær flugur í einu höggi og snýr aftur til fósturjarðarinnar til að kynna sér starfsemi fyrirtækisins og leita sér lækninga við torkennilegu meini sem lagst hefur á hendur hans. Hvoru tveggja tekur ívið lengri tíma en til stóð, í og með vegna þess að hönnuðurinn dvelur bíllaus í smáhýsi rétt fyrir utan Borgarnes.

úr bókinni

Ég hlusta á fartina í þvottavélartromlunni aukast, vélin hristist skelfilega og gólfið í öllu húsinu. Svo hægist á og loks staðnæmist allt. Eitt andartak gefur vélin frá sér hljóð, leikur stutt lag til að gefa til kynna að hún hafi lokið starfi sínu, að prógramið hafi gengið til enda.

Þetta er kunnuglegt stef, klassísk tónlist, smættuð niður í einfalda midi-hljóma. 

Ég píni sjálfan mig upp úr sófanum, fikra mig í gegnum myrkrið inn á bað. Meðan ég hengi upp þvottinn á þvottagreind sem ég finn bakvið þvottavélina, blístra ég stefið. Mér líður eins og ég eigi að vita hvaðan lagið kemur, ég hef heyrt það áður en ég get ómögulega komið fyrir mig hvar og í hvaða samhengi. Helst myndi ég vilja setja í aðra vél til að heyra stefið aftur en er ekki með fleiri föt til að þvo.

Skyndilega er eins og eitthvað komist á hreyfingu undir hvirflinum, eitthvað kraumar en breytist svo í straum sem þýtur upp og niður eftir mænunni á ógnarhraða, út í alla útlimi, tær og fingur. Mér hvítnar fyrir augum, svart myrkrið víkur fyrir skærhvítu leiftri. Ég er farinn að halda að þetta sé einhvers konar slag, blóðtappi kannski, að það sé eitthvað að heilanum í mér - sem gæti þá verið skýringin á slæmskunni upp á síðkastið - en átta mig svo á að þetta er uppljómun.

Lagið sem þvottavélin spilaði er Silungurinn eftir Schubert.

Á augabragði breytist ólund mín í fögnuð, ég stekk upp í loftið og blautir sokkar kastast út á mitt gólf.

Ef ég man rétt samdi Schubert lagið við ljóð eftir einhvern sem var næstum alnafni hans, Schabert eða Schaubert - eitthvað í þá veruna, en um hvað þetta ljóð fjallar er ég alveg búinn að gleyma; hvort það fjallaði bókstaflega um silung eða hvort fiskurinn var myndlíking fyrir eitthvað annað.

Mig þyrstir í að vita hvernig það kom til að framleiðendur þvottavélarinnar völdu þetta tiltekna lag til að ljúka prógramminu. Er það ekki undarlegt að velja lag sem fjallar um fisk til að gefa til kynna að þvotturinn sé hreinn?

Ég opna fartölvuna og slæ erlent nafn verksins inn í leitarvél. Tölvan kallar fram slóð á myndband sem rauner er ekki annað en ljósmynd af silungi að stökkva upp úr á við flúðir en í hljóðrásinni hljómar þetta sama lang, Silungurinn, leikið af lítilli strengjasveit. Þetta er ágætur flutningur.

Ég hef upp á ljóðinu en þegar ég hef lesið það er ég engu nær um forsendur ákvörðunar þvottavélaframleiðandans. Sagan í ljóðinu er blóðug, ef ekki hreinlega grótesk, og hefur ekkert með þvott að gera að öðru leyti en því að atburðarásin á sér stað í vatni.

Í alfræðigrunni finn ég stuttan texta um tilurð lagsins. Framarlega í lesningunni kemur fram að Schubert stóð á tvítugu þegar hann samdi lagið. Býsna vel af sér vikið, að vera tvítugur og semja lag sem er tvöhundruð árum síðar leikið af þvottavélum af tiltekinni tegund um allan heim. Þá átti hann eftir að semja sín helstu meistaraverk. Þrjátíu og eins árs var hann allur.

Eftir ekki svo marga daga verð ég sumsé akkúrat tvöfalt eldri en Schubert var þegar hann samdi Silunginn. Ég reyni að rifja upp hvað ég var að gera þegar ég var tvítugur. Það hefur verið eitthvað svipað og í dag, sjálfstætt starfandi hönnuður að rembast við að landa einhverjum verkefnum.

Ég renni áfram gegnum textann um Silunginn en þar kemur ekkert fram um tengsl lagsins við þvottavélar.

(s. 90-92)

Fleira eftir sama höfund

Ég hef séð svona áður

Lesa meira

Takk fyrir að láta mig vita

Lesa meira
serótónínendurupptökuhemlar

Serótónínendurupptökuhemlar

Reynir býr við allar aðstæður til að vera hamingjusamur, en er það ekki. Nú hefur hann fengið nóg. Reynir er orðinn leiður á að vera leiður. Hvernig vindur maður ofan af slíku óyndi, rótlausum beyg? Og hvað tekur við þegar skrefið er stigið og hjálpin berst? Friðgeir Einarsson tekst hér á við hversdagslega angist með sínum ísmeygilega húmor.. .  
Lesa meira