Beint í efni

Systa: Bernskunnar vegna

Systa: Bernskunnar vegna
Höfundur
Vigdís Grímsdóttir
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Skáldsögur,
 Ævisögur og endurminningar

Um bókina

Bernska okkar allra á sér samhljóm hvar sem við erum, við hvaða atlæti sem við búum, hverjar sem minningar okkar eru; við eigum ómetanlegan fjársjóð í minningum okkar. Að hugleiða eigin bernsku, foreldra og systkina, er ferðalag sem hverjum manni verður eftirminnilegt um leið og það skýrir lífssýn hans. Lítum til bernskunnar í hvert skipti sem við stígum mikilvæg spor; allt er bernskunnar vegna hvar og á hvaða tíma sem hún líður.

Vigdís Grímsdóttir hefur skrifað skáldsögur, ljóðabækur, smásögur og ævisögur. Nýjustu bækur hennar eru Elsku Drauma mín (2016) og Dísusaga (2013).

Úr Systu

Músargráa húsið okkar númer 46 við Skipasundið í Reykjavík er lágreist skeljasandshús með ljósgráu bárujárnsþaki; ég man ekki eftir strompi, en samt hlýtur að hafa verið strompur einhvers staðar á þakinu. Um leið og ég sé hann fyrir mér, langan og gráan, standa svona líka beint upp í loftið sé ég bæði hvernig lífsklukka mín og bernskusaga hefja sinn slátt og gang í hvítmáluðu svefnherbergi foreldra minna. 
  Ég hugsa: Þarna var alltaf gott að vera, gott að kúra, gott að dvelja, mikið sem ég sakna hlýjunnar. Mömmumagi, brjóst og læri, fellingar og mýkt, mamma mín að anda - betri söng getur ekkert barn hugsað sér og þennan söng heyri ég núna.
  Klukkan er sjö að morgni miðvikudags 19. júní og árið 1946 - ef heyrst hefði í morgunútvarpinu hefðu borist ljúfir tónar á undan spjallþætti dagsins, en svo er ekki því á þessum árum hljómar ekkert útvarp fyrr en á hádegi og þá eru eingöngu sagðar fréttir og hvað í þeim er helst. Það er logn núna og allt sýnist stefna í heitan dag, blár himinn, ekki ský á lofti og fuglarnir leita að örmjóum trjágreinum í garðinum mínum. Hversu stór og grænn sem hann er alltaf þessi garður bernskunnar, þegar allt er saklaust, ósnortið og gott.

(15)

 

Fleira eftir sama höfund

Ljóð í Moord liederen

Lesa meira

Grandavegur 7

Lesa meira

Im Netz gefangen

Lesa meira

Kaldaljós

Lesa meira

Fliegt ein Vogel

Lesa meira

Wach auf, Dornröschen

Lesa meira

Trúir þú á töfra?

Lesa meira

Dísusaga: konan með gulu töskuna

Lesa meira

Tystnaden

Lesa meira