Um bókina
Í steinhúsi í Reykjavík finnast hrottaleg leyndarmál múruð inn í kjallaravegg þar sem þau hafa legið áratugum saman hjúpuð þögn. Konráð, fyrrverandi lögreglumaður, leitast við að varpa ljósi á illvirki fortíðar en um leið beinist athygli lögreglunnar að honum sjálfum: Hvers vegna sagði hann ekki satt um atburði dagsins þegar faðir hans var myrtur? Hverju hefur hann þagað yfir öll þessi ár?
Arnaldur Indriðason hefur um langt árabil verið vinsælasti höfundur landsins og nýtur hylli langt út fyrir landsteinana. Bækur hans eru nú orðnar tuttugu og fjórar talsins. Þær hafa verið þýddar á yfir fjörutíu tungumál og hafa fært höfundinum ótal verðlaun og viðurkenningar.
Úr bókinni
Benóný var að henda út allskyns drasli og ætlaði að byrja að fylla upp í gatið í veggnum þegar honum fannst hann skyndilega ekki lengur vera einn. Hann sneri sér við og sá að Elísa var komin niður til hans og stóð í gættinni inni í þvottahúsið. Hann vissi ekki hvað hún hafði staðið þar lengi og fylgst með honum.
- Nú, ert það þú, sagði hann. Ég sá þig ekki.
Hún reyndi að brosa en það varð ekkert úr því og líkt og áður fann Benóný að henni leið ekki vel.
- Fyrirgefðu, sagði hún, ég ætlaði ekki að láta þér bregða.
Hann sá að hún hafði verið að gráta og það kom hik á hann.
- Hvað er að? spurði hann. Varstu að gráta? Er ekki allt í lagi?
Hún svaraði honum ekki. Stóð í sömu sporum í dyragættinni og leit ekki upp af gólfinu. Fitlaði við tölu á peysu sem hún klæddist utan yfir gamlan kjól. Benóný gekk til hennar og spurði aftur hvað amaði að henni.
- Ég ... ég ... ég ætlaði að stinga hann í nótt, gusaði hún út úr sér með ekkasogum. Ég ... ég sótti hnífinn niður í eldhús og fór með hann upp og ... ég ...
Hún byrjaði að gráta.
- Sóttirðu hníf?
- Ég ætlaði að stinga hann, sagði hún og kinkaði kolli. Guð, ég ætlaði að gera það og það munaði minnstu að ég ... það munaði minnstu ...
Hún vissi ekki hvað það var sem aftraði henni frá því. Hún stóð yfir manni sínum með hnífinn í hendinni og var reiðubúin að leggja til hans þegar eitthvað hvíslaði að henni að hún skyldi setja hann frá sér. Gera þetta ekki. Að það væri engin lausn. Að hún hlyti að vera biluð að láta sér detta annað eins í hug. Hún bakkaði því frá rúmstokknum og fikraði sig yfir að sínum helmingi og lyfti dýnunni og setti hnífinn varlega undir hana. Svo lagðist hún í rúmið og hugsaði með hryllingi til þess að engu hefði mátt muna að hún styngi manninn sinn til bana þar sem hann lá sofandi og varnarlaus í herberginu þeirra.
- Elísa, hvað ertu að segja? Hvað er ... ætlaðirðu að stinga hann? Hvern? Stan?
- Hann er hræðilegur, hvíslaði hún eins og þau væri ekki alein þarna niðri. Alveg hræðilegur maður.
- Hvers vegna? Hvað hefur hann gert?
- Hann er hryllingur, það sem hann hefur gert mér, hvíslaði Elísa. Algjör hryllingur ... mér finnst ég innikróuð, múruð inni ... ég get varla andað ...
(s. 97-98)