Beint í efni

Þel

Þel
Höfundur
Álfrún Gunnlaugsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1984
Flokkur
Skáldsögur

Úr Þeli:

 - Ég vildi að ég hefði farið til Parísar að læra, sagði Einar og kveikti sér í sígarettu. – Tóm della að fara til Barcelona.
 Loftið í stofunni var orðið þykkt og mátti skera það.
 Spánn var dautt land. Hafði kannski alltaf verið það. Enginn skaraði framúr í bókmenntum eða öðrum listum. Picasso var í útlandinu, Bunuel í útlegð ...
 Ég reis á fætur og gekk yfir að stofuglugganum.
 Á Spáni fannst hvergi áræðin hugsun! Einar dæsti.
 Þegar ég opnaði gluggann ruddist inn kalt loft og hráslagalegt. Ég lokaði og fékk mér aftur sæti í ruggustólnum.
 - Þetta er einræðisríki, byrjaði ég varlega. – Heldurðu að þú hafir getað fylsgt með?
 - Svona hlutir liggja í loftinu og maður drekkur þá með víninu!
 Fyrstu mánuðina í Barcelona hafði Einari gengið vel að lifa reglubundnu lífi. En stundum hafði verið kalt í herberginu sem hann leigði og hann smeykur við gasofn sem ekkjan hafði lánað honum. Hann fór að lesa og skrifa á lítilli krá. Notalegt þar og hlýtt. Borðplöturnar voru úr marmara, ekki úr plasti. Ekki neitt útvarpsgarg. Og vínið kom úr stórum tunnum. Dumbrautt. Bragðaðist ágætlega með ansjósum og kræklingum.
 Eigandi krárinnar ofurlítið feyskinn. Viðskiptavinir hans voru það einnig. En allir mjög glaðværir og kölluðust á milli borða og stundum tóku þeir lagið. Allir þekktust, bjuggu enda í sama hverfi. Einar komst ekki hjá því að taka stundum þátt í gleðskappnum. Og hlustaði á sögur. Skrítlur. Á þessari krá hafði hann farið að tala málið.
 Þegar hann gekk heim til sín var matseldin í hverfinu komin í gang. Verið að elda kvöldmat og í loftinu alltaf sama lyktin. Af steiktum sardínum og soðnu káli, baunum. Og skransalar voru að flytja vörur sínar af gangstéttum og ganga frá þeim í búðarholum þar sem ægði saman ótrúlegustu hlutum.
 Kráin stóð við götu þar sem húsin voru svört af elli og skít. Á þeim breiðar dyr og bogamyndaðar, ætlaðar kerrum. Handan þeirra steinlagður húsagarður og virðulegar en skældar marmaratröppur með úthöggnu handriði.
 Kerrur heldra fólksins stóðu ekki lengur í þessum húsagörðum. Þar léku sér óhreinir krakkar. Þeir léku sér líka á götunni. Og reyndu að betla af Einari. Hann var ríkur. Útlendingar voru allir ríkir. Og því almennt trúað að allt væri betra erlendis.
 Ekkjan sem Einar leigði hjá hafði þó aðrar hugmyndir um útlönd. Í útlöndum drottnaði siðspillingin. Konur lágu á baðströndum hérumbil naktar, í bikini, og fóru til messu með bera handleggi og fleginn barm. Þær kunnu ekki að blygðast sín!

(s. 60-62)

Fleira eftir sama höfund

Le Passage de l'Èbre

Lesa meira

Sagan og undraborgin

Lesa meira

Das haben Menschen getan

Lesa meira

Hringsól

Lesa meira

Hvatt að rúnum

Lesa meira

Errances

Lesa meira

Irrfärd

Lesa meira

Ljóð í Wortlaut Island

Lesa meira