Um bókina
Í sagnaveröld Gyrðis Elíassonar getur allt gerst. Í þessu tímamótaverki sem geymir 377 smáprósa rúmast ógrynni af persónum, sögum, þankabrotum, atburðum og hvers kyns spunaþráðum. Áföll og eftirsjá, fyrirboðar og feigð, ógn og eftirvænting, ást og andstæður. Tveggja binda lestrarupplifun sem hægt er að gleyma sér við í tíma og ótíma.
Úr Pensilskrift
KÓLUSAR II
Kólusarnir í glugganum þegar ég geng framhjá minna mig á kólusana hjá móðursystur minni, sem fylltu þannig stofuna hjá henni að það var erfitt að ganga um hana, og hún var sífellt með risastór blómblöð framan í sér þegar hún var að vökva, sem hún var alltaf að gera, því kólusarnir voru alltaf þyrstir. Það var heitt í stofunni, og moldin sífellt þurr og vatnið hreinlega hvarf ofan í moldina sem tók endalaust við. Þessir kólusar sem ég sé núna inn um gluggann eru kannski ekki eins stórir og hjá frænku minni, og ég veit ekki um þorsta þeirra, en þó það sé ólíklegt get ég ekki varist því að hugsa hvort þetta geti verið afleggjarar frá hennar plöntum. Það endaði reyndar með því að þessi frænka mín fékk nóg af kólusunum, henni fannst allt í einu að þeir væru að gleypa sig, að þeir væru einskonar mannætuplöntur, og hún skar þá alla niður, alveg niður við mold, en lét pottana vera hjá sér áfram. Ég held þeir hafi aldrei vaxið aftur upp hjá henni. Ég held að þeir hafi ekki þorað að gera það, því hún gat verið jafn hörð og járnið í búrhnífnum sem hún skar þá niður með, hún frænka mín. En hún talaði mikið um þá síðustu ár sín, sagði oft: "Það var þegar ég átti kólusana," og andvarpaði, einsog þeir hefðu verið lifandi persónur, sem þeir kannski voru. Ég hefði viljað vita hver á þessa kólusa þarna í glugganum, en ég hika við að banka upp á og athuga það, hugsa að ég láti mér nægja að ganga hér framhjá á hverjum degi og horfa upp í gluggann, og minnast móðursystur minnar, sem ól mig upp eftir að mamma dó. Þá voru kólusarnir enn á lífi.
(Kólusar)