Beint í efni

Þúsund og einn hnífur: og fleiri sögur frá Írak

Þúsund og einn hnífur: og fleiri sögur frá Írak
Höfundur
Hassan Blasim
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um bókina

Smásagnasafnið  The Corpse Exhibition and other stories of Iraq eftir Hassan Blasim, í þýðingu Sölva Björns.

Sögusvið þessara áleitnu sagna er Írak nútímans eftir fall Saddams Hussein, þar sem ríkir vargöld og upplausn á flestum sviðum. Sögurnar eru hispurslausar og harkalegar, húmorinn svartur, en í þeim má líka finna ljóðræna fegurð og mannlega nánd.

Úr bókinni

Abu Hadid skellti í sig restinni af arak-flöskunni. Hann færði andlitið þétt upp að mínu og gaf mér þetta ráð af rósemd hasshaussins: „Heyrðu, Mahdi. Ég hef rekist á margs konar vandamál um ævina og veit að gæfan mun ganga til þurrðar. Þú ert sextán ára og í dag ætla ég að kenna þér að vera ljón. Í þessum heimi er nauðsynlegt að vera klókur. Það breytir engu hvort þú deyrð í dag eða eftir þrjátíu ár. Það sem máli skiptir er dagurinn í dag og hvort þú komir auga á óttann í augum annarra. Fólk sem er hrætt gerir hvað sem er fyrir þig. Ef einhver segir við þig: „Guð bannar það“ eða „Þetta er rangt“, skaltu sparka í rassgatið á honum, því að sá guð er helvítis kjaftæði. Þetta er þeirra guð, ekki þinn guð. Þú ert þinn eigin guð og þú átt þennan dag. Enginn guð er án fylgjenda og aumingja sem vilja deyja úr hungri og þjást í hans nafni. Þú þarft að læra að gera sjálfan þig að Guði í þessum heimi svo fólk sleiki á þér rassgatið á meðan þú drullar ofan í kokið á því. Ekki opna munninn í dag, ekki orð. Þú fylgir mér eins og heimskt lítið lamb. Er það skilið, ræfill?“

Hann lamdi arak-flöskunni utan í vegginn og gaf mér vinalega á kjaftinn.

Við gengum eftir dimmum moldartroðningunum. Hrörleg húsin gripu andann á lofti eftir hýðingu stormsins. Inni lá fólkið sofandi og dreymdi. Allt var gegnblautt og úr sér gengið. Vindurinn sem hafði leikið sér í völundarhúsi stíganna allt kvöldið færðist í aukana áður en hann hvarf loks á braut og skildi eftir sig nöturlegan kulda í þessu skítahverfi þar sem ég átti í vændum að eyða ævinni og deyja svo. Oftsinnis ímyndaði ég mér að hverfið væri einhvers konar afkvæmi móður minnar. Það angaði þanig og var álíka ömurlegt. Ég man ekki eftir því að hafa nokkru sinni séð móður mína sem mannlega veru. Hún var sí kjökrandi og kveinandi í eldhúskróknum eins og hundur sem hefur verið bundinn til barsmíða. Faðir minn réðst á hana með fúkyrðum og þegar úthald hennar þraut vældi hún upphátt: „Hvers vegna, góði Drottinn? Hvers vegna? Taktu mig og bjargaðu mér.“

Fyrst þé lét faðir minn verða af því að standa upp, taka snærið úr höfuðfati sínu, hýða hana án afláts í hálftíma og hrækja á hana á meðan.

(21-2)

Fleira eftir sama höfund